Frumvarp um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:55:08 (6956)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eru það fleiri mál sem gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin komi með núna á þessum klukkutímum sem eftir eru af þinginu og biðji um að verði afgreidd hér á handahlaupum, fleiri en Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins? Fleiri en frv. til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot? Hefur ríkisstjórnin farið yfir yfirlýsingu þá sem gefin var þegar kjaradeilan leystist á dögunum, lið fyrir lið? Er von á því að fleiri frumvörp séu væntanleg? Ég tók þátt í því fyrir hönd Alþb. í dag að eiga viðræður við forustumenn stjórnarflokkanna á Alþingi. Þeir nefndu ekki að yfirvofandi væri að koma þessu máli hér inn. Þeir hafa sjálfsagt ekki vitað um það. Ég trúi að það hafi verið þannig. Ég trúi ekki að þeir hafi verið að blekkja okkur á neinn hátt. En þeim mun alvarlegra er málið þegar ríkisstjórnin sjálf kemur ekki úrslitamáli af þessu tagi á framfæri við sína menn, heilu stjfrv. sem á að flytja á Alþingi á seinustu klukkutímum áður en þinginu lýkur. ( Gripið fram í: Reglugerð.) Svo datt mönnum í hug að setja reglugerð. Þvílíkt hugmyndaflug. Vita menn ekki að kröfur lífeyrissjóðanna á Ríkisábyrgðasjóðinn voru felldar út úr lögum? Þær voru lögvarðar í hinum gömlu lögum og auðvitað liggur í hlutarins eðli að það er vonlaust að treysta þessu máli öðruvísi en um það séu ákvæði í lögum eins og ég heyri að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafi farið fram á. Gaman væri að fá að sjá framan í þá júrista sem létu sér detta í hug að ráðleggja ríkisstjórninni að setja þetta ákvæði inn með reglugerð.
    En það eru fleiri mál, virðulegi forseti, sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið frá sér í sambandi við kjarasamningana. Ekki er búið að afnema enn þá lyfjakostnað barna yngri en 6 ára. Því var lofað að það ætti að gerast og nýju kjarasamningarnir hafa þegar tekið gildi og þá eiga þessi atriði auðvitað að taka gildi líka. Þau hafa ekki gert það. Heilbrrn. hefur ekki enn þá komið frá sér þessari einföldu reglugerð um að börn undir 6 ára aldri skuli vera undanþegin lyfjakostnaði. Eru fleiri atriði? Ég spyr.
    Ég vil segja það fyrir mitt leyti, og ég hef ekki borið mig saman við neinn um það, að ég tel óhæfu að ljúka þessu þingi öðruvísi en ríkisstjórnin hafi að því er lög varðar gengið frá öllum þeim málum sem lúta að frágangi kjarasamninganna eins og þeir voru afgreiddir á dögunum. Ég segi: Nóg var nú lítið í þeim pakka þó að menn fari ekki að draga við sig eða ganga frá þeim einföldu yfirlýsingum sem ríkisstjórnin tilkynnti af rausnarskap sínum um það leyti sem frá samningunum var gengið. Hvers lags handarbaksvinnubrögð eru þetta eiginlega frá verkstjóra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forseti?
    Ég hef eins og kunnugt er um nokkurra ára skeið setið í ríkisstjórnum. Venjan var sú í þeim stjórnum að menn fóru yfir yfirlýsingar ríkisstjórnanna eftir kjarasamningana lið fyrir lið, á fyrsta ríkisstjórnarfundi eftir kjarasamningana, og gengu frá því hver ætti að bera ábyrgð á hverju. Núv. ríkisstjórn hefur bersýnilega ekki gert það. ( Gripið fram í: Þú veist ekkert um það.) Þess vegna spyr ég: Eru fleiri atriði, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem þið hafi ákveðið að taka ekki hér inn? Eruð þið ekki búin að gera nóg af ykkur í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna? Ætlið þið að halda áfram að svíkja þetta fólk sem þið voruð að gefa fyrirheit? Ég tel, hv. þm., að það sé a.m.k. nóg svikið af þinni hálfu hvað sem öðrum finnst.