Fiskistofa

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 22:15:09 (6959)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mér varð það á í síðustu viku að leggjast í hálsbólgu í nokkra daga og var því ekki viðstödd lokaafgreiðslu þessa máls úr nefnd. Ég verð að viðurkenna að það olli mér nokkrum vonbrigðum og undrun að sjá að þetta mál var enn og aftur á dagskrá og að því er mér sýnist á þeim lista, sem kalla má forgangslista ríkisstjórnarinnar, þótt hann sé reyndar æði óljós okkur. Ætti það út af fyrir sig að vera umhugsunarefni hvernig að þeim málum hefur verið staðið hér.
    Ástæðan fyrir því að ég undrast, og leyfi mér jafnvel að hneykslast svolítið, er sú að ég tel að það sé hreinasti óþarfi að keyra þetta mál í gegn núna, ekki að mínu mati fullskoðað af nefndinni. Ég er mjög ósátt við að sjá slíkt gert. Auðvitað höfum við orðið vitni að alls konar slíkum málum en síst af öllu batnar ástandið ef einu slíku er bætt við önnur dæmi. Mig grunar það raunar að hér sé frekar á ferðinni metnaður en málefnaleg þörf en það er mitt mat og ég stend ábyrg fyrir því. Ég ætla ekki að slá þessu bara út í loftið án rökstuðnings heldur að taka í nokkrum liðum þau atriði sem ég hef út á þessa afgreiðslu að setja, þó auðvitað með þeim fyrirvara að ég vil geta þess að mig vantaði á einn fund þar sem lokaafgreiðslan var, en ég hygg að sú umræða sem var í nefndinni áður gefi nokkuð glögga mynd af því hvernig að þessum málum var staðið. Auk þess átti ég samtöl við aðra nefndarmenn og leitaði upplýsinga sem ég hef fengið um afgreiðslu málsins.
    Það sem e.t.v. vegur þyngst þarna er að það er verið að setja upp ákveðið stjórntæki til að framfylgja lögum sem ekki eru til. Þetta eru ekki mín orð, heldur eins af forsvarsmönnum í útgerð, þaulreynds manns. Það er nefnilega bent mjög réttilega á það að hér sé í rauninni verið að búa til kerfi í kringum endurskoðuð lög um stjórn fiskveiða og sú endurskoðun hefur einfaldlega ekki átt sér stað enn þá. Það er verið að vinna að henni en henni er ekki lokið. Þetta mat eins þeirra sem gerst þekkja til verð ég að taka undir eftir að hafa kannað þetta svolítið.
    Þetta finnst mér auðvitað verulegur ágalli og þótt ég geti ýmislegt sagt um það hvernig staðið er að þessari endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og ekki allt jafnfagurt, því þar finnst mér skorta verulega á samráð, ekki bara við stjórnarandstöðu heldur einnig við sjútvn. þingsins, þá finnst mér samt sem áður enn fráleitara að byggja í kringum frumvarp sem ekki hefur séð dagsins ljós. Ég get ekki verið dús við þessa málsmeðferð.
    Ég veit að sjútvn. reyndi eftir bestu getu að sníða þá annmarka af frv. sem þörf var á. Ég hlýt þó að gera athugasemd við það að í nál. segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við umræðu málsins í nefndinni kom m.a. fram varðandi 3. gr. frv. að réttara hefði verið að kjósa stjórn fyrir Fiskistofu og að hún hefði sjálfstæða stöðu. Rétt væri þó að láta reynslu skera úr um það hvort gera þyrfti breytingar í þessa átt.``
    Ég er ekki alls kostar sátt við þessa málsmeðferð, ekki svo að skilja að ég sé beinlínis að gagnrýna það að þessi leið var valin, það eru áreiðanleg rök fyrir því, heldur finnst mér þetta enn renna stoðum undir það að málið fór út úr nefnd allt of snemma og ég undrast það enn. Hins vegar, svo ég gæti nú sanngirni, þá harma ég það ekki sérstaklega að sjá að það er komin fram ábending um að þessi stofnun mætti hugsanlega vera að nokkru eða öllu leyti utan höfuðborgarsvæðisins. Ég get ekki annað en tekið undir það, ég held að það sé full þörf á því, ef þessi stofnun verður á annað borð sett á laggirnar, að þá sé

hægt að hugsa sér að hún starfi að nokkru eða öllu leyti utan höfuðborgarsvæðisins.
    Enn og aftur vil ég taka undir með þeim sem hafa bent á að verulega skortir á og nokkuð handahófskennt var hvernig haft var samráð við Fiskifélag Íslands. Þar er vissulega búið að reyna að breyta frv. í þá átt sem helsta gagnrýnin benti á að gera mætti. Það er sem sagt verið að reyna að lappa upp á frv. í nokkru tímahraki, áreiðanlega af góðum hug og eftir því sem hægt er, en það liggur ekkert á. Þess vegna er í rauninni svo sárgrætilegt að vera yfir höfuð að fjalla um málið núna og taka síðustu klukkutíma þingsins í það.
    Ég vona auðvitað að þetta muni ekki fara á þann veg sem þeir svartsýnustu innan Fiskifélagsins segja, að þarna sé verið að fara óheppilega leið í sambandi við gagnavinnslu, að ekki sé verið að nýta þá reynslu sem fyrir hendi er sem skyldi. Það er eitt af því sem kom fram sem gagnrýni í umræðu í nefndinni. Um það er auðvitað ekki hægt að dæma fyrir fram hver reynslan verður. Ég vona að þær breytingar sem verið er að gera á frv. verði til að gera það ögn markvissara en var samkvæmt upphaflegum texta frv. En ég er ekki sannfærð um að svo verði.
    Ég vil benda á að í umræðu í nefndinni komu fram athugasemdir um að vel gæti verið að Fiskistofan yrði mun dýrari en kostnaðaráætlun benti til og að kostnaðaráætlun væri óraunsæ. Að hluta til var okkur bent á að tölur væru faldar hér og þar, en ég get ekki annað en spurst fyrir um það hvort komið sé heildaryfirlit yfir hvaða kostnaður mun í raun verða við þessa breytingu.
    Þrátt fyrir það þýðir þetta ekki að ég sé að mæla með því að öll verkefni sem færa á til Fiskistofu séu best komin í sjútvrn., síður en svo. Ég tel bara að máið hefði þurft að ígrunda, ég er ekki hlynnt miðstýringu en ég er ekki heldur hlynnt flausturskenndum vinnubrögðum. Ég get því miður ekki komið þeim efasemdum úr huga mínum sem vöknuðu við vinnslu þessa máls. Ég hlýt þó að fagna því að það er horfið frá því að flytja þetta fjórburafrumvarp, fjögur frumvörp saman, keyra það í gegnum þingið. Ég tel að úr því sem komið er hafi ýmsu verið bjargað sem bjargað varð og einkum mjög svo vafasömum áformum um einkavæðingu skoðanastofa. Það var ekki nóg með að þar væru rökstuddar efasemdir um hvort þær stæðust kröfur Evrópubandalagsins, sem eru lofaðar og prísaðar á sumum stundum, heldur voru þarna einkavæðingaráform sem ég er ekki viss um að hafi verið hin heppilegustu, burt séð frá því.
    Ég hef ekki mikið meira um þetta mál að segja en ég er svo sannarlega ekki ein með mína skoðun á því. Ég vil geta þess að efasemdir um hvort frv. væri tímabært komu fram hjá ýmsum fleirum en mér, m.a. vil ég vitna í umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, með leyfi forseta, en hér stendur í yfirliti yfir umsagnir:
    ,,Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vill vekja athygli þingmanna á að verið er að endurskoða lög um stjórn fiskveiða um þessar mundir. Þess vegna gæti verið ótímabært að setja lög sem snerta lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, á meðan endurskoðun þeirra laga sem nú stendur yfir er ekki lokið.``
    Ég vil halda þessu til haga vegna þess að ég held að við höfum ekki fundið í raun neinar haldbærar röksemdir fyrir því að drífa þetta af núna. Ég hef leitað eftir þeim en ekki fundið hjá öðrum nefndarmönnum í sjútvn. Ég vil óska þess að menn flýti sér hægt í þessu þar sem engin bráðbrýn þörf er á því að drífa þetta í gegn. Ég held að ég hafi ekki fleira um þetta að segja að svo stöddu. Vera má að það komi einhver svör eða athugasemdir sem gefa tilefni til frekari umræðu en að svo stöddu held ég að það sé nóg að þetta komi fram.