Fiskistofa

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 22:27:23 (6960)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er þingvenja hér að ef menn tilkynna að mælendaskrá sé tæmd gefa þeir andartaksumþóttunartíma við þær aðstæður vegna þess að stundum háttar þannig til að þingmenn sitja í salnum og eru að undirbúa mál sitt og hafa ekki gert sér grein fyrir því að mælendaskrá sé tæmd og vilja þess vegna fá eðlilegan tíma til að draga upp penna sína og berja í borðin ef þeir hafa ekki eitthvað annað handbært hart sem vel heyrist í. Þetta er gömul þingvenja sem ég veit að forseti á eftir að læra.
    Herra forseti. Það eru nokkur orð af minni hálfu. Í fyrsta lagi vil ég láta þá skoðun mína koma fram að sú kerfisbreyting sem er lögð til grundvallar frumvarpinu er eðlileg, hún gengur í rétta átt. Hún er afleiðing af alllangri umræðu um þá þætti sem lúta að stjórnkerfi sjávarútvegsmálanna og hafa verið nokkuð til umfjöllunar á mismunandi stigum í þjóðlífinu undanfarin ár. Menn hafa haft af því nokkrar áhyggjur, og ekki að ástæðulausu, að vald og framkvæmdaákvarðanir, jafnvel úrskurðarvald sem líkja mætti við dómsvald, væru að færast saman inn í sjútvrn. í gegnum lagasetningu um stjórn fiskveiða, eftirlit á því sviði og fleiri skylda þætti.
    Þetta hefur allt saman leitt til þess að menn hafa tekið til umfjöllunar býsna gamalt skipulag í okkar stjórnkerfi hvað þetta varðar. Niðurstaðan er sú, eins og sjá má í frv. og fleiri tengdum, að menn eru sammála um að hér þurfi að gera á réttarfarslega bragarbót og endurskipuleggja stjórnkerfi sjávarútvegsmálanna í framhaldi af þessu.
    Ég vil því láta það verða mín fyrstu orð hér að ég styð þá hugsun sem liggur til grundvallar frv. og ég tel að mörgu leyti eðlilegt að menn stefni á sjálfstæða stjórnsýslustofnun sem annist mörg eftirlits- og framkvæmdaverkefni á sviði sjávarútvegsmála sem áður hafa verið inni í sjútvrn.
    Vissulega má rökræða hvaða fyrirkomulag sé þar vænlegast. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma

fram að í vissum greinum gangi frv., eins og það er nú, útfært, ekki nógu langt í þessum efnum. Ég tel til að mynda að það sé í raun og veru takmarkaður ávinningur af því að setja á fót sjálfstæða stofnun af þessu tagi þegar hún heyrir stjórnarfarslega jafnbeint undir sama fagráðherra og farið hefur með málin. Þannig stendur það til að mynda í 1. gr. frv. með eins fáum orðum og hugsast getur, fjórum orðum, með leyfi forseta: ,,Fiskistofa heyrir undir sjávarútvegsráðherra.`` Það verður varla skýrara. Þarna er ekki á nokkurn hátt gerð tilraun til að skilgreina sjálfstæði stofnunarinnar eða þá armslengd, ef svo mætti að orði komast, sem manni fyndist eðlilegt að hún væri frá yfirmanni sínum, ráðherranum.
    Þess vegna var það að rætt var í sjútvn. um þá mögulegu breytingu á frv. að Fiskistofunni yrði gefin sjálfstæðari staða og kosin sérstök stjórn af óháðum aðila. Þó svo hún heyrði stjórnskipulega undir sjútvrn. hefði hún sjálfstæðari stöðu. Það varð niðurstaða nefndarinnar og að þeirri niðurstöðu stend ég, þó með þeim fyrirvara sem ég er að gera grein fyrir, að ekki væri endilega ástæða til þess við stofnsetningu starfseminnar að kjósa henni stjórn en þó kæmi það mjög til álita og sérstaklega ef hlutir þróuðust á þann veg að Fiskistofunni yxi fiskur um hrygg og hún yrði að viðamikilli stjórnsýslustofnun á þessu sviði. Nú hygg ég reyndar að það sé ekki vilji neinna aðstandenda, hvorki ráðherra, sem flytur málið, né sjútvn., að hér rísi á legg mikið bákn. Engu að síður er óhjákvæmilegt að horfa til þess möguleika að Fiskistofan verði nokkuð viðamikil stjórnsýslustofnun í fyllingu tímans. Ég er þeirrar skoðunar að eigi hún að þjóna tilgangi sínum og skila okkur þeim árangri að skilja með eðlilegum hætti á milli valds ráðherrans annars vegar og hins vegar einhverrar sjálfstæðrar framkvæmdastofnunar af þessu tagi, þurfi hún að öðlast meira sjálfstæði frá ráðuneyti og ráðherra en frv. gerir ráð fyrir.
    Það þarf ekki að fara í frekari rökstuðning, alla vega ekki fyrir mitt leyti. Ég held að menn hljóti að skilja við hvað hér er átt en ég leyfi mér þó að nefna til sögunnar nýlega fallna dómsúrskurði sem tengjast stjórnsýslumálum sjávarútvegsins þar sem undirstrikað er mikilvægi þess að menn vandi sig í öllum vinnubrögðum þegar í hlut eiga jafnviðkvæm mál og hér eru á ferðinni og jafnvíðtækt vald eins og færst hefur undir sjútvrn. á undangengnum árum.
    Í öðru lagi, herra forseti, vil ég leyfa mér að nefna stöðu Fiskifélags Íslands í þessu sambandi. Frv. gerir ráð fyrir því að gildandi lagaákvæði um Fiskifélag Íslands falli brott, þ.e. ákvæði laga nr. 55/1941, um afla- og útgerðarskýrslur. Þetta mun vera sú lagastoð sem Fiskifélag Íslands starfar eftir og hefur lengi gert og þar af leiðir að það er nauðsynlegt að hyggja að því hver verði hin lagalega og stjórnsýslulega staða Fiskifélagsins þegar þessi breyting verður. Sjútvn. kemur að nokkru leyti inn á þetta mál með brtt. sinni á þskj. 933 en þar segir, með leyfi forseta, í brtt. við 4. gr. um að greinin orðist svo:
    ,,Fiskistofa skal að höfðu samráði við Hagstofu Íslands fela Fiskifélagi Íslands söfnun tiltekinna upplýsinga, úrvinnslu þeirra og útgáfu hagskýrslna á sviði sjávarútvegsmála.``
    Hér er Fiskifélagið að sjálfsögðu nefnt og því falið ákveðið hlutverk, því greinin er afdráttarlaus og hljóðar þannig að Fiskistofan skuli fela Fiskifélaginu í samráði við Hagstofu Íslands þetta hlutverk. Þeirri lagastoð sem staðið hefur undir skýrslugerð Fiskifélagsins fram að þessu er kippt burtu með því að fella úr gildi lög um afla- og útgerðarskýrslur sem Fiskifélagið hefur starfað eftir.
    Nú efa ég ekki að tímabært sé og hefði jafnvel verið fyrir nokkru síðan að breyta þessum lagaákvæðum en þau eru sjálfsagt börn síns tíma. Mér er nokkuð umhugað um að Fiskifélagið hafi trausta stöðu eftir því sem slíkt skal vera í lögum. Ég vil því leyfa mér að leggja til að milli umræðna verði farið yfir það eftir því sem tími vinnst til, hann er kannski ekki mikill að verða en samt mætti huga að því, hvort með þessum hætti sé nægjanlega vel búið lagalega að Fiskifélagi Íslands og staða þess í því sambandi tryggð. Ég er sannfærður um að til þess stendur vilji flestra aðila í sjávarútvegi að það ágæta félag geti áfram sinnt sínu hlutverki og starfað með svipuðum hætti og verið hefur.
    Ég er a.m.k. ekki, herra forseti, tilbúinn til þess á þessari stundu að raska í neinum veigamiklum atriðum hlutverki og stöðu Fiskifélags Íslands. Mér er að sjálfsögðu ljóst, eins og öðrum hv. þm., að Fiskifélagið er félagasamtök sem getur byggt tilvist sína á öðru en lagaheimildum, þ.e. frjálsum vilja sinna félaga til að mynda sérsamtök og starfa þannig. En Fiskifélagið hefur engu að síður gegnt veigamiklu hlutverki í skýrslugerð og ýmsu faglegu samráði innan greinarinnar og ég tel að það þurfi a.m.k. að skoðast betur áður en skyndiákvarðanir eru teknar um breytingu þar á. Ég vil því hafa þann fyrirvara á um stuðning við frv. að það sé nokkuð ljóst að stöðu Fiskifélagsins sé ekki raskað með þessum breytingum. Komi það í ljós eða takist svo til að staða Fiskifélagsins verði önnur en ætlað er með þessum breytingum áskil ég mér allan rétt til að taka það mál upp á síðari stigum.
    Það er einnig nefnt í nefndaráliti sjútvn., sem ég vil gera að umtalsefni, að starfsemi þessi, jafnvel í heild sinni eða a.m.k. þættir hennar, geti og eigi að fara fram utan höfuðborgarsvæðisins. Ég vil minna á þennan þátt málsins og lýsa yfir sérstökum stuðningi mínum við að það verði skoðað, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem verður. Fari svo að starfsemin aukist að umfangi en sumum býður í grun að svo kunni að fara að þessi stjórnsýslustofnun, Fiskistofa, ef af verður, verði háð svipuðum lögmálum og ýmis önnur stjórnsýslustarfsemi, lögmálum sem kennd eru við ýmsa menn, bæði Smith og Parkinson, að hún vaxi nokkuð á næstu árum, þá finnst mér meira máli skipta en ella að dreifing þeirrar starfsemi verði með einhverju tilliti til verkefnanna sem hún á að þjóna. Það er auðvitað alveg ljóst að sjávarútvegurinn er þannig dreifður um landið að engin efnisleg rök mæla fyrir um það að þjónustustarfsemi við hann eða félagastarfsemi sé öll unnin héðan frá höfuðborgarsvæðinu.

    Ég er reyndar þeirrar skoðunar, eins og þegar hefur komið fram í máli fyrri ræðumanna, að þetta mál hefði ekki beðið sér til skaða þótt það hefði kannski fengið ítarlega umfjöllun ásamt fleiri málum, sem væntanlega ná hér ekki fram að ganga, og orðið hluti af víðtækari heildarendurskoðun stjórnkerfis- og gæðamála í sjávarútvegi sem augljóslega stendur fyrir dyrum. Mér sýnist nokkuð ljóst að á dagskrá þingfunda nú á þessum síðustu klukkustundum þinghaldsins séu a.m.k. tvö af fjórum frv. hæstv. sjútvrh., sem tengjast þessu efni, sem bíða næsta þings. Ég sé ekki í fljótu bragði að neitt stórslys yrði þó þeirra biðu sömu örlög. Ég hef að vísu heyrt hæstv. sjútvrh. færa þau rök fram að það sé æskilegt að ná þessari breytingu fyrir næsta fiskveiðiár, eða kvótaár, sem hefst 1. sept. nk. Hvort það er einu árinu fyrr eða skemur, sem þetta gengur allt saman í gegn, tel ég ekki stórmál og hef reyndar ekki verið sannfærður um að afgreiðsla frv. af þessu tagi og gildistími þess sé endilega bundinn við upphaf fiskveiðiársins.
    Ég er, herra forseti, í grundvallaratriðum hlynntur kerfisbreytingu af því tagi sem hér er fjallað um og mun þess vegna ekki leggja stein í götu frv., þvert á móti standa að því, eins og sjútvn. mælir með, að það verði lögfest ef menn telja að það sé orðið þannig í stakk búið að það sé tímabært. En ég vil að ljóst sé að ég hef á því þessa fyrirvara sem ég hef gert grein fyrir. Hér er frekar spurning að mínu mati um tilhögun og útfærslu en markmið. Menn eru greinilega í grundvallaratriðum sammála um að þörf sé á stjórnsýsluendurbótum og réttarfarsbótum í þessu stjórnkerfi sjávarútvegsins. Það er vel og því fögnum við alþýðubandalagsmenn sem höfum um nokkurt árabil barist fyrir úrbótum á þessu sviði.