Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 22:53:59 (6964)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það gleður mig að sá málflutningur sem hér hefur farið fram virðist hafa borið allnokkurn árangur. Eins og fram kemur í nál. þeirra hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur málið auðvitað engan veginn fengið þá meðferð í nefnd sem það þurfti.
    Höfuðatriði þessa máls er það að ofan á alla þá kjaraskerðingu sjómanna sem hér hefur verið stunduð á þessum vetri kemur þetta undarlega frv. fram, flutt að beiðni stjórnar sjóðsins, um að rýra rétt sjómanna til síns eigin lífeyrissjóðs.
    Eins og ég gat um í dag kom það í ljós í samtali mínu við formann Sjómannasambands Íslands sl. sunnudagsmorgun, það var í gær, að hann hafði ekki hugmynd um að frv. væri til meðferðar í þinginu. Þá getum við ímyndað okkur hversu margir sjómenn hafa hugmynd um það. Að vísu vill það okkur eða þeim til að nú er sjónvarpað beint héðan frá hinu háa Alþingi og ég hef svo sannarlega orðið vör við það að þetta mál hefur vakið nokkra athygli meðal sjómanna.
    Menn tala hér um slæma stöðu sjóðsins. Enn þá hef ég ekki fengið neitt svar við því hversu slæm

þessi staða er. Hvers vegna er ekki lagt fram með frv. sem þessu einhver úttekt á stöðu sjóðsins? Þetta er gjörsamlega óframbærilegt.
    Í athugasemdum við lagafrv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frv. þetta til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna er samið að tilhlutan stjórnar sjóðsins.`` Þar situr meðal annarra hv. 16. þm. Reykv. sem, þegar talað var fyrir málinu hér, sá ekki ástæðu til að taka þátt í umræðunni enda var hann alls ekki í húsinu. Það var ekki fyrr en ég óskaði sérstaklega eftir að hann hlýddi á þessa umræðu að hann kom til hennar. Síðan segir hér áfram: ,,Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru af ýmsu tagi, þær snerta bótarétt sjóðfélaga, rekstur sjóðsins, með hvaða hætti heimilt er að ávaxta fé sjóðsins, vaxtaútreikning vegna vangoldinna iðgjalda og fleiri atriði sem nánar verður vikið að í athugasemdum við einstakar greinar.``
    Hér er sem sagt verið að leysa vanda sjóðsins, m.a. vegna vangoldinna iðgjalda, sem eru samtals með dráttarvöxtum 150 millj. kr. sem útgerðin skuldar sjóðnum, með því að rýra kjör sjómannanna. Nú er ljóst að Lífeyrissjóður sjómanna fær u.þ.b. 65% af 228 millj. og ég spyr: Verða verðjöfnunarsjóðspeningarnir líka notaðir þar til viðbótar til að greiða þessa skuld útgerðarinnar? Ég vænti þess. Þar með eru komnir dálitlir peningar í sjóðinn og ber að fagna því.
    En höfuðatriði þessa máls er auðvitað þetta: Ég er ósammála því að sjómenn eigi að búa við sömu lífeyrissjóðsréttindi og annað fólk. Þeir vinna hættulegri störf. Þeir hafa gjarnan styttri lífaldur í starfi. Þeir eru fjarri heimilum sínum, fá ekki tækifæri til að vera með fjölskyldum sínum langtímum saman. Og ég hef alltaf skilið það svo að þetta bæri að virða á ýmsan hátt í kjörum sjómanna. Þess vegna beitti fyrrv. hæstv. heilbrrh., Svavar Gestsson, sér fyrir því að sjómenn gætu fengið ellilífeyri fyrr en aðrir menn. Þess vegna höfðu sjómenn skattaívilnanir og ýmis hlunnindi sem ég hef hingað til skilið svo að hið háa Alþingi teldi þá fyllilega verðskulda. En nú er frá því snúið og með vitund, vilja og samþykki formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, 16. þm. Reykv., er gengið eins og eftir skipulagðri áætlun á kjör sjómanna. Það verður að vera ljóst að það er þá vilji meiri hluta Alþingis að sjómenn njóti í engu í kjörum þeirra erfiðu skilyrða sem þeir búa við. Einhvern tímann ekki alls fyrir löngu --- mig minnir að það hafi verið á síðasta þingi --- gerði ég að umtalsefni slysaskýrslur rannsóknanefndar sjóslysa sem koma seint og illa og eru satt að segja ekki allt of vel unnar, eru satt að segja hálf hráslagaleg lesning. Slysatíðni meðal þessara manna er náttúrlega ekki í neinu samræmi við slysatíðni meðal annarra þegna þessa lands.
    Hér sé ég að það á ekki að rífa örorkulífeyrinn alveg strax af þeim sem nú eru með hann, það á að gefa þeim fimm ára aðlögunartíma og vissulega er það til bóta. Það fylgir auðvitað barnalífeyrir með börnum örorkulífeyrisþega sjóðsins. En það er auðvitað fráleitt að sjómaður, sem hefur stundað allarðvænleg störf en slasast þannig að hann getur ekki stundað sjómennsku, getur kannski dútlað í einhverjum láglaunastörfum í landi, að hann haldi ekki sínum örorkulífeyri vegna síns fyrri starfa og missi getu til þess að stunda það starf, það nær auðvitað engri átt. Ég ætla að lýsa því yfir hér og nú að ég greiði atkvæði gegn frv.
    Þetta eru kaldar kveðjur til þessarar stéttar sem menn segja hér u.þ.b. eitt þúsund sinnum á ári að stundi undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og á tíðum fást menn ekki til að tala um nokkurn skapaðan hlut annað en sjávarútveg, vikum og mánuðum saman. Vissulega er það alveg rétt að án þessara starfa værum við víst harla lítils virði í þessu landi. En á sama tíma voga menn sér að vaða inn í kjör þessara manna aftur og aftur og virðast ekki hafa minnstu samvisku af og allra síst þeir sem hafa tekið að sér forustu í samtökum sjómanna.
    Herra forseti. Ég er víst búin að tala mig á gat í þessu máli og það er satt að segja til lítils vegna þess að það hlusta fæstir á þetta. Ætli það mundu ekki vera hér samtals tíu þingmenn sem hafa hlýtt á þessar tölur mínar en þeim mun meiri athygli vekur það úti í þjóðfélaginu og á meðal sjómannanna sjálfra, ætla ég að vona.
    Herra forseti. Það skal vera alveg ljóst: Ég mun greiða atkvæði gegn þessu ljóta frumvarpi.