Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 23:02:04 (6965)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. 996 hef ég ásamt Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, sem fulltrúar Framsfl., undirritað nál. með fyrirvara.
    Það hefur komið fram við þessa umræðu að hér er um ósk stjórnar lífeyrissjóðsins að ræða. Sú sérstaða gildir með þennan tiltekna lífeyrissjóð að um hann gilda ákveðin lög á sama tíma og hægt er að breyta úthlutunarreglum annarra sjóða með reglugerð.
    Ég held að það sé mikið umhugsunarefni fyrir Alþingi hvort það sé rétt að einstakir lífeyrissjóðir skuli hafa svo ákveðna löggjöf að þar sé nánast engu hægt að breyta nema með lögum á Alþingi. Í þessu tilviki sendi stjórn sjóðsins Alþingi erindi um beiðni til að breyta þessum reglum, ekki síst til samræmis við það sem gengur og gerist hjá öðrum lífeyrissjóðum. Þetta er mergurinn málsins. Stjórn sjóðsins er að sjálfsögðu að reyna að aðlaga útgjöld sjóðsins að tekjum hans og sannleikurinn er sá að lífeyrissjóður sjómanna getur ekki staðið við allar skuldbindingar sínar eins og þær eru í dag. Í frv. er bæði um það að ræða að draga úr réttindum, sérstaklega að því er varðar örorkulífeyri, og stjórn sjóðsins upplýsti að það væri

að mestu leyti til samræmis við það sem gengur og gerist hjá öðrum sjóðum. Hér er líka gert ráð fyrir því að sjóðfélagar fái meiri réttindi en þeir hafa í dag og á það ekki síst við slysatilfelli, sem reynsla er af, ekki síst frá sl. vetri.
    Við viljum ekki standa í vegi fyrir því að stjórn sjóðsins fái þennan vilja sinn staðfestan á Alþingi. Hitt er svo annað mál að mál þetta er allt of seint fram komið og Alþingi hefur ekki fengið nægilegan tíma til að fjalla um það. Það hlýtur að vera á ábyrgð sjóðstjórnarinnar en það kom skýrt fram að það mundi ekki vera hægt að afgreiða þetta mál nema í bærilegu samkomulagi á Alþingi. Ég vildi með minni afstöðu ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál gæti náð hér fram að ganga. Þetta mál er að sjálfsögðu alveg óskylt því að hér hefur í vetur verið samþykkt löggjöf, ekki síst um ellilífeyri sjómanna, þar sem meiri hluti Alþingis samþykkti að taka til baka samhljóða ákvörðun Alþingis fyrir mörgum árum. Þar var um að ræða verulega réttindaskerðingu fyrir sjómenn. Hér er hins vegar um það að tefla að lífeyrissjóðurinn verður að aðlaga útgjöldin að tekjum en ég get vel tekið undir þá gagnrýni sem kom hér fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur eða hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að það hefði verið eðlilegra að fyrir lægi betri úttekt á sjóðnum. Ég býst samt við því, hv. 14. þm. Reykv., að ef bíða ætti eftir þeirri úttekt og samræma algjörlega greiðslur úr sjóðnum við getu sjóðsins til frambúðar væri útkoman e.t.v. enn þá verri fyrir sjómannastéttina.
    Ég hef skilið það svo að stjórn sjóðsins hafi viljað lifa í þeirri von að sjóðurinn fengi meiri tekjur og sú von hefur m.a. komið fram í því að nú fær sjóðurinn verulegar tekjur frá Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins með sama hætti og sjóðurinn fékk hér fyrr á árum allverulegar tekjur úr svokölluðum gengismunasjóði. Ég geri mér afar vel grein fyrir því að lífeyrisréttindi sjómanna verða ekki tryggð með nákvæmri löggjöf um Lífeyrissjóð sjómanna nema tekjur til sjóðsins séu tryggðar. Það er tómt mál að tala um að setja í lög að sjómenn skuli hafa þessi og þessi réttindi og það skuli vera borgað út á tilteknum dögum úr Tryggingastofnun ríkisins ef ekki eru þar fjármunir fyrir hendi. Það er réttmæt gagnrýni að lög um Lífeyrissjóð sjómanna voru sett á sínum tíma án tillits til þess hvort hann gæti nokkurn tíma staðið við sínar skuldbindingar. Það er því miður ekki fyrr en fyrir nokkrum árum, 1985 eða 1986, að sjómenn fara almennt að greiða af fullum tekjum sínum í lífeyrissjóð. Það er aðalástæðan fyrir því hversu lítil réttindi sjómanna eru. Það var sérstaklega í því ljósi sem það var furðuleg ráðstöfun af núverandi ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar að afnema það samkomulag sem tókst um ellilífeyri sjómanna. Það hefði verið þinginu til sóma að leiðrétta þau afglöp sem áttu sér stað á þinginu í vetur, samhliða afgreiðslu þessa máls, en því miður er það svo, hv. 14. þm. Reykv., að núv. ríkisstjórn og meiri hluti sá sem stendur að baki hennar er almennt ekki tilbúinn til að viðurkenna nokkur mistök hvað þá að leiðrétta þau.
    Ég vil stuðla að því að þetta mál nái fram að ganga. Ég tel einsýnt að það muni aftur koma til umfjöllunar á Alþingi og má vera að það sé réttast að afnema þessi lög eða færa þau í sama farveg og lög um aðra lífeyrissjóði þannig að stjórn þessa sjóðs hafi svipaðar heimildir og möguleika og stjórnir annarra lífeyrissjóða og beri ábyrgð á sínum málum eins og stjórnir annarra lífeyrissjóða en þurfi ekki að sækja ábyrgð sína með einum eða öðrum hætti hér undir Alþingi. Við erum í sjálfu sér ekkert annað að gera en að verða við óskum stjórnarinnar og því er afgreiðsla þessa máls vissulega á ábyrgð Alþingis en samkvæmt beiðni stjórnarinnar. Það er í sjálfu sér ekki eðlilega að málum staðið en þar er ekki við viðkomandi stjórn að sakast. Hún verður að sjálfsögðu að standa að málum með þeim hætti sem lög standa til. Það kom fram í viðræðum við nefndina að stjórn sjóðsins telur á margan hátt eðlilegt að endurskoða þessa löggjöf til samræmis við löggjöf um aðra lífeyrissjóði í landinu.