Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:24:00 (6979)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Það vill nú svo óheppilega til í máli þessu að um er að ræða mál sem kemur upp vegna þess að samtök sjómanna klofnuðu. Þessum tilteknu samtökum sjómanna hafði verið ætlaður ákveðinn tekjustofn með ákveðnum hætti samkvæmt lögum. Það er mjög óheppilegt þegar samtök geta ekki komið sér saman um skiptingu. Það hlýtur jafnframt að vera mjög óeðlilegt að samtök eins og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands haldi tekjum vegna félagsmanna sem eru í öðrum samtökum. Ég býst við því að öllum þætti það nokkuð undarlegt að ef þeir vildu ekki vera í tilteknu félagi og tilteknum samtökum en þrátt fyrir það skyldu þau halda tekjunum.
    Nú er það svo að hér er fyrst og fremst um það að ræða að ákveða það samkvæmt lögum að bæði þessi samtök, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Vélstjórafélag Íslands skuli fá þessar tekjur en síðan skuli sjútvrh. setja reglur um skiptingu fjár milli samtakanna. Vonandi verður það svo að þessir aðilar nái samkomulagi um málið áður en sjútvrh. setur þessar reglur. Það er alger óþarfi að flytja brtt. við

þetta mál til að það verði skoðað betur. Það er búið að liggja yfir þessu máli mjög lengi í hv. sjútvn. Þannig að við getum ekkert frekar í málinu gert. Og sú brtt. sem hv. þm. Árni Johnsen hefur flutt hefur valdið mjög hörðum mótmælum frá Sjómannasambandi Íslands. Þessi mótmæli koma fram í bréfi frá 14. maí 1992. En það er alveg nýtt fyrir mér ef hv. þm. flytja ákveðna brtt. um tiltekna efnismeðferð í þeim tilgangi að láta skoða málið betur eins og hv. þm. sagði. Það er engin þörf á því. Ef menn hins vegar vilja standa að málum með þeim hætti sem sú brtt. gerir ráð fyrir þá geta menn gert það. En það mun skapa hæstv. sjútvrh. meiri vandamál við úrlausn málsins og það mun verða gert undir miklum mótmælum Sjómannasambands Íslands. Alþingi er ekki með þessu að ákveða endanlega niðurstöðu þessa máls. Alþingi er með þessari breytingu að skapa farveg til lausnar þessarar deilu. Það er ekki hlutverk Alþingis að skera endanlega úr um. En það mun koma í hlut framkvæmdarvaldsins að ganga frá því. En auðvitað hefur framkvæmdarvaldið fengið þau fyrirmæli að það sé rétt að bæði þessi samtök fái réttlátan hlut í þeim tekjum sem þarna um ræðir.
    Ég ætla, herra forseti, ekki að fara að gera frekari grein fyrir áliti Sjómannasambands Íslands og öllum þeim bréfum sem liggja fyrir í þessu máli. Það er miður að aðilar skuli ekki hafa komist að niðurstöðu í málinu. En þeir geta enn gert það. Vonandi verður þessi afgreiðsla til þess að viðkomandi aðilar, viðkomandi félög setjist nú niður og semji um þessi mál þannig að báðir hafi sóma að. Ég vænti þess að svo geti orðið og hæstv. sjútvrh. geti þá staðfest það samkomulag þegar þar að kemur.