Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:29:29 (6980)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst efnislegi þáttur málsins tiltölulega skýr. Hér er um það að ræða að menn þurfa að semja um ákveðna lausn vegna breyttra aðstæðna vegna þess, eins og kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, að samtök hafa klofnað og þá þarf að gera upp hluti með öðrum hætti en áður var gert. Það kom einnig fram í máli hv. síðasta ræðumanns að það væri ekki hlutverk Alþingis að skera endanlega hér úr. Það kom einnig fram í máli hans að það væri æskilegast að aðilar semdu um málið. Og ég tel að við séum sammála um að efnislega niðurstöðu þarf að fá en frá mínum bæjardyrum séð er það ekki hlutverk Alþingis að blanda sér í þessa deilu. Það á að leggja að aðilum að semja um þetta mál. Það er ljóst að Alþingi mun ekki leysa málið. Alþingi á þess vegna ekki að blanda sér í það með lagasetningu eða öðrum hætti. Þess vegna tel ég, eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Suðurl., nauðsynlegt að þetta mál sé skoðað rækilega í hv. sjútvn.