Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:45:30 (6988)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hallast mjög að því að einskis misskilnings gæti hjá hv. 3. þm. Suðurl. eða hv. 3. þm. Reykv. Ég held að báðir viti nákvæmlega hvað um er að tefla og báðir tefla þetta mál til sigurs fyrir Farmanna- og fiskimannasambandið, að það fái að halda félögunum nauðugum innan sinna vébanda, eins og Sovétríkin höfðu náttúrlega sem grundvallaratriði í sinni stefnu allan þann tíma sem þau störfuðu og er náttúrlega kennslubókardæmi um hvernig menn vilja halda öðrum nauðugum hjá sér.
    Hitt er athyglisvert að þeir sem hafa talað fyrir því að þessu verði breytt eru í reynd að fela hæstv. sjútvrh. að vera æðsta dómara í málinu. Og vantraustið á þá niðurstöðu kemur frá þingmönnum Sjálfstfl. Þeir treysta ekki sjútvrh. til að leysa þessi mál af réttlæti. Þetta er alveg furðuleg niðurstaða og það er enn þá furðulegra að 3. þm. Suðurl. skuli á næturfundi þegar klukkuna vantar ellefu mínútur í eitt fara að bera upp óbeint vantraust á réttlætiskennd sjútvrh.
    Ég held þetta hljóti að vera nokkurs konar svartfuglavilla sem kom stundum fyrir þegar menn sáu ekki til sjávar og það verður að líta á þetta í því ljósi.
    En ég vænti þess að hv. 3. þm. Suðurl. haldi ekki lengra áfram í þessu máli heldur gefi sér tíma í nótt til að hugsa sinn gang og mæti svo kátur og hress á morgun og lýsi auðvitað fullum stuðningi við hæstv. sjútvrh.