Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:47:52 (6989)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Herra forseti. Það ætti ekki að koma hv. þingheimi á óvart þó að hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, kippi sér ekki upp við muninn á degi eða nóttu og það er svo sem ekkert nýtt að hann hafi munn sinn alspenntan hér í þingsal og er það vel. En það er ástæðulaust að snúa út úr þessu máli á þann veg að menn séu að tefla til sigurs fyrir einhvern ákveðinn aðila. Menn eru einfaldlega að reyna að bjóða upp á eðlilega málsmeðferð. Ef menn ætla sér að Alþingi setji lög sem ekki þarf að framfylgja vegna þess að ætlast sé til þess að áður en þau komi til framkvæmda eða setningar reglugerðar samkvæmt þeim þá nái menn samkomulagi, til hvers er þá leikurinn gerður? Eða er það hlutverk Alþingis að hugsa ekki lengra í lagasetningu en svo að það eigi að tjalda til einnar nætur og bjarga þannig einhverju fyrir horn?
    Í þessu tilviki á auðvitað að ætlast til þess að viðkomandi aðilar nái samkomulagi án þess að Alþingi sé að grípa inn í málið á þessu stigi. ( ÖS: Af hverju ert þú þá með brtt.?) Það er enginn sem efast um að þarna sé um að ræða rétt manna, en þeir eiga að ná samkomulagi. Það er að mínu mati ekki tímabært að grípa inn í á þennan hátt. Það sem hér hefur verið nefnt og varðar hlutaskipti í brtt., sem við höfum lagt fram, er einfaldlega það sem yrði við samþykkt laganna, sjútvrh. yrði í rauninni að setja ný lög, nýja reglugerð til þess að leysa málið eða setja málið í framkvæmd. Þau atriði sem eru nefnd í brtt. eru einvörðungu til skoðunar en ekki til framkvæmda að því leyti.