Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:55:58 (6993)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vona að mér leyfist sem einum af flm. að segja örfá orð kannski til að skýra málið, eða vonandi. Ég held að hv. þm., sem hér hafa mælt, hv. 3. þm. Suðurl. og 3. þm. Reykv., hafi ekki alveg áttað sig á því hvernig lagaleg staða þessa máls er. Hún er sú að lögin tryggja öðrum aðilanum allan rétt og það er ekki merkileg samningsstaða sem hinn aðilinn hefur við þær aðstæður. Það hefur þegar komið fram og verið vitnað í bréf í því sambandi að Farmanna- og fiskimannasambandið hefur ekki ljáð máls á samningum við Vélstjórafélagið um breytta tekjuskiptingu í kjölfar þess að félagafrelsið hefur verið nýtt til þess að stofna nýtt félag. Ekki er um það að ræða að Alþingi blandi sér með einhverjum óeðlilegum hætti í þessa deilu heldur að Alþingi breyti lögum til að skapa lagalegan grunn, lagalegar forsendur fyrir samkomulagi félaganna. Hann er ekki fyrir hendi meðan það félagið, sem hefur allan lagalegan réttinn sín megin, neitar breytingum. Þá er engin samningsstaða fyrir hendi af hálfu hins aðilans.
    Það væri fróðlegt við síðara tækifæri að velta fyrir sér þeim viðhorfum sem endurspeglast í málflutningi tveggja hv. þm. Sjálfstfl., eða jafnvel þriggja, til félagafrelsisins. Eru þessir hv. þm. virkilega að draga í efa rétt vélstjóra til að stofna sín eigin félagasamtök og þá með sanngjörnum hætti að afla þeim tekna miðað við þær leikreglur sem í gildi eru? Ég vona að svo sé ekki og ef menn eru sammála um að vélstjórar hafi rétt til að stofna sín eigin félagasamtök og eðlilegt sé að þeir fái þá sinn hlut teknanna sem

aflað er eða renna til þessarar starfsemi þá er það auðvitað hlutverk Alþingis að tryggja að félagafrelsið sé fyrir hendi í þessu sambandi og að menn geti samið um eðlilega skiptingu tekna milli félaganna. Það er það sem Alþingi með þessum hætti er að tryggja að breyta lögum og þess vegna eiga menn auðvitað að samþykkja þetta frv. ef menn eru sjálfum sér samkvæmir í þeim efnum.
    Sjútvrh. er að vísu ætlað mikið hlutverk í þessu sambandi eins og hér hefur fram komið og þarf ég ekki að fara yfir það. Ég tel þess vegna langeðlilegast að samþykkja þetta frv. og hætta frekari rökræðum um það. Sú leið er að vísu alveg möguleg að gefa félögunum tiltekinn frest til að ná samningum og flytja frv. ella ef þau ekki ná þeim og skipa með lögum þessu máli, ellegar staðfesta með lögum samkomulag sem félögin hafa náð. En samningsstaðan eins og hún er liggur þannig að hinn lagalegi réttur er öðrum megin í málinu og það eru auðvitað ekki góðar forsendur til að ná sanngjörnum samningum. Mig rekur minni til að hliðstæð deila hafi verið uppi hér á Alþingi fyrir nokkrum árum síðan þegar til umræðu var lagasetning til handa Öryrkjabandalagi Íslands að fá lagaheimildir til að starfrækja bókstafslottó sem þeir sóttu þá eftir. Íþróttahreyfingin hafði einkarétt á tölulottói og vildi ekki gefa hana eftir og þess vegna var frv. í meðförum þingsins til að tryggja Öryrkjabandalaginu sambærilega stöðu. Þá tókst, að vísu með þrýstingi af hálfu Alþingis, að fá þessi félagasamtök til að setjast niður að samningsborðinu og ná farsælli niðurstöðu sem við öll þekkjum og hefur skilað ágætum árangri.
    Ég vil því vera hreinskilinn hvað það snertir að ég tel út af fyrir sig að báðar leiðirnar geti skilað árangri. Annars vegar sú að breyta lögunum og skapa þessar lagalegu forsendur. Hins vegar að þrýsta á þessi samtök að ná niðurstöðu og lögfesta hana síðan. En með hliðsjón af þeim málflutningi talsmanna Sjálfstfl., sem hér hefur komið fram, hv. 3. þm. Suðurl. og 3. þm. Reykv., tel ég miklu vænlegri leið að lögfesta forsendurnar fyrir samkomulaginu fyrst og láta það síðan takast en að treysta á að það gerist án slíkra aðgerða. Ég verð að segja eins og er að ég tel að hv. þm. skuldi okkur meiri rökstuðning fyrir sínum málflutningi en enn hefur komið fram því hann er satt að segja harla furðulegur miðað við hinar augljósu lagalegu forsendur í málinu.