Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:03:44 (7000)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða sem fram fer kl. 2 að nóttu síðasta sólarhring þingsins er ágætis vitnisburður um það hvernig er komið iðnaðarmálum undir handleiðslu hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar.
    Á fjórða ári í ráðherratíð hans í iðnaðarmálum biður þjóðþingið um skýrslu. Það hefði mátt vænta þess að ráðherrann hefði tekið því fagnandi að flytja þinginu þessa skýrslu. Fyrir því ættu að vera margar ástæður. Í fyrsta lagi að greina þinginu frá árangri af starfi sínu í tæp fjögur ár, í öðru lagi lýsa því hvað væri verið að gera og hvað gera ætti í framtíðinni. En í þriðja lagi vegna þess að stöðnun hefur verið í íslensku atvinnulífi og íslensku efnahagslífi. Alls staðar á Vesturlöndum þar sem slík stöðnun hefur ríkt hafa menn í vetur verið að ræða framfarir í iðnaðarmálum og nýja iðnaðarstefnu sem lausnarorðið.
    En hvað gerist hér? Þetta mál er eitt af fyrstu málum þingsins og hæstv. iðnrh. dregur í hálft ár að skila þessari skýrslu og síðan hagar hann störfum sínum á þann veg að hann flýr frá umræðunni til útlanda. Hann leggur ekki í það, hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson, að standa fyrir máli sínu í þinginu, skilur eftir hæstv. umhvrh. sem allir vita að veit nú ekki mikið um málið, með allri virðingu fyrir honum, þess er ekki að vænta, og formann þingflokks Alþfl. sem er sérstakur varðstjóri fyrir hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson í umræðunum og gengur á milli manna og biður þá um að fara nú að ljúka þessu hið fyrsta.
    Sjálfstfl. og Alþfl. eru í tæpan áratug búnir að fara með iðnaðarmál á Íslandi. Núv. stjórnarflokkar hafa haft forræði á málefnum iðnaðarins í tæpan áratug. Núv. hæstv. iðnrh., Jón Sigurðsson, hefur verið iðnrh. lengst allra manna á þessum tíma og hver er niðurstaðan? Hver er árangurinn? Árangurinn er því miður samfelld afturför í flestum greinum iðnaðar á Íslandi. Mjög fróðlegt er að bera saman stefnu iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Johns Major í Bretlandi, íhaldsmannsins Michaels Heseltine og stefnu hins svokallaða opinbera jafnaðarmanns, hæstv. iðnrh. í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Jóns Sigurðssonar. Það er mjög fróðlegt. Stefna hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar er langt til hægri við iðnaðarstefnu Michaels Heseltine sem ber sama starfsheiti í ríkisstjórn Johns Major, ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála. Hvað er það sem Michael Heseltine boðar í iðnaðarstefnu sinni? Ég skal svara því með örfáum orðum. Ég held að það sé mjög gagnlegur samanburður þegar menn horfa á afturhalds- og íhaldsstefnu núv. hæstv. iðnrh. og núv. ríkisstjórnar og þá tilraun til framfara í iðnaði sem hinn nýi iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins í Bretlandi er að beita sér fyrir. Kjarninn í þeirri iðnaðarstefnu sem Michael Heseltine er að beita sér fyrir er jákvætt frumkvæði og hvatning ríkisvaldsins um nýjungar í framleiðslu, tilraunum og markaðssetningu. Michael Heseltine gekk út úr ríkisstjórn Margrétar Thatcher að mig minnir árið 1986. Margrét Thathcer rak hann ekki úr ríkisstjórninni, hann fór þaðan sjálfur í stefnuágreiningi við þá ríkisstjórn. Hann skrifaði í mörg ár tímaritsgreinar, gaf út bækur, flutti erindi og ræður um nýja iðnaðarstefnu, iðnaðarstefnu þar sem ríkið tæki með jákvæðum hætti frumkvæðið í nýsköpun í iðnaðar- og atvinnumálum. Það er athyglisvert að John Major felur þessum manni að stjórna iðnaðarstefnu þessarar nýju ríkisstjórnar að loknum kosningunum í Bretlandi. Ef menn bæru saman þær yfirlýsingar sem iðnaðarráðherrann í íhaldsstjórninni í Bretlandi hefur látið frá sér fara, hinn nýi iðnaðarráðherra, og þá ræðu sem hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson flutti hér, þá er enginn vafi á því hver er gamaldagsíhaldsmaður í þeim umræðum. Það er núv. hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson því að öll sú hugmyndafræði sem var í ræðu hans var hugmyndafræði Ronalds Reagans og Margrétar Thatcher sem hefur skilað þeirri niðurstöðu í Bretlandi og Bandaríkjunum að Bretland og Bandaríkin eru að dragast aftur úr Þýskalandi og Japan á sviði iðnaðar eins og sagt var í grein fyrir skömmu. Markaðurinn sjálfur hefur kveðið upp dóm í því hvort iðnaðarstefna Reagans og Thatcher og Jóns Sigurðssonar skilar árangri. Svar markaðarins er nei. En markaðurinn hefur líka svarað því hvort iðnaðarstefnan, sem byggð er á jákvæðu frumkvæði og samstarfi ríkisvaldsins við aðilana í iðnaðinum, skilar árangri og svarið er já því að þar eru dæmin Þýskaland og Japan.
    Virðulegi forseti, vissulega væri tilefni til þess að taka langan tíma á Alþingi til þess að fara yfir þennan fjögurra ára feril Jóns Sigurðssonar hæstv. iðnrh. sérstaklega og þennan níu ára feril Sjálfstfl. og Alþfl. í forræði iðnaðarmála en auðvitað gefst ekki til þess tími því að þinginu er að verða lokið, iðnrh. flúinn úr landi og skilur eftir menn til að sitja fyrir svörum sem hafa enga ábyrgð borið og engin ástæða er til að deila við.
    Við sem hlustuðum á ræðu hæstv. iðnrh. fyrir helgina áður en hann hvarf úr landi könnuðumst við þá ræðu. Þetta var nokkurn veginn sama ræðan og hann flutti fyrir þremur árum, tveimur árum, fjórum árum og einu ári. Það var bara ein breyting, að öðru leyti alveg sama ræðan. Breytingin er sú að fyrir stefið nýtt álver, nýtt álver, nýtt álver, sem var stefið í ræðunum í fyrra, hittiðfyrra og árið þar áður og átti að leysa öll vandamál í íslenskum iðnaði þegar það kæmi, var komið annað stef, EES, EES, EES. Það er þessi einfalda barnalega patent-hyggja hjá hæstv. iðnrh. sem er orðin þjóðfélaginu dýr, patent sem ekki ganga upp.
    Hvað hefur hæstv. iðnrh. skilað mörgum skýrslum um nýtt álver á Keilisnesi sem átti nú þegar að vera búið að skapa mikinn hagvöxt? Geta menn flett upp í skýrslum ráðherrans á undanförnum árum, flett upp ræðum hans á Alþingi þar sem hann segir að á árinu 1992 verði komið nýtt hagvaxtarskeið á Íslandi, blómaskeið fyrir verktaka, málmiðnað, þjónustuiðnað og annað vegna nýs álvers. Hvar er það blómaskeið? Ekki til. Hvar er það nýja álver? Það veit enginn. Jú, það er á næsta leiti eftir fimm ár, kannski, e.t.v. Og nú er það EES. Það getur vel verið að EES skili einhverju. Það veit enginn og það er að því leyti rétt sem hæstv. utanrrh. hefur stundum sagt að EES sé bara ávísun á tækifærin, enga veruleika. Bara eitthvað hugsanlegt. En á sama tíma fer hlutfall iðnaðar af þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga og útflutningsstarfsemi hnignandi.
    Ef menn lesa það sem forustumenn í atvinnulífi Bandaríkjunum og Japan og Vestur-Þýskalandi hafa verið að segja í allan vetur þá er það fyrst og fremst þetta: Það er með því að framleiða iðnaðarvörur sem við reisum hagkerfið við á nýjan leik. Iðnaðarvörur í klassískum stíl, tæki og annað. Ástæðan fyrir því að bandaríska hagkerfið er í þetta mikilli lægð og breska hagkerfið eftir Reagan og Thatcher er að þar var fyrst og fremst lögð áhersla á pappírsviðskiptin, verðbréfamarkaðinn, gróðann af því að höndla með peninga. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem hér hefur beðið um orðið, ætti að fletta því upp í bresku sunnudagsblöðunum um síðustu helgi þar sem stendur í nýútkominni bók yfir auðugasta fólkið í Bretlandi að börn Thatcher eins og það er orðað hafi horfið af listanum, þ.e. hin nýja kynslóð atvinnu- og fjármálamanna sem efnahagsstefna Thatcher gat af sér. Hv. þm., þau eru horfin af listanum einfaldlega vegna þess að svo mörg fyrirtæki þeirra hafa orðið gjaldþrota. Það er satt að segja grátlegt að á sama tíma og í hinum vestræna heimi hefur undanfarinn vetur verið blómleg umræða um nýja iðnaðarstefnu, nýjar áherslur, nýjar hugmyndir, þá skuli hæstv iðnrh. flytja sínar gömlu lummur hér, gömlu lummur, sem hafa verið prófaðar á undanförnum árum og engum árangri skilað.
    Sjálfstfl. og Alþfl. settu á fyrir um það bil áratug mikið gjörningaveður gagnvart hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Þá var það tema í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu ár eftir ár að allt slæmt ástand í iðnaðarmálum á Íslandi væri hv. núv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að kenna vegna þess að honum hefði ekki tekist að koma með álver þegar hann var iðnrh. Nú geta menn borið saman feril hæstv. núv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það merkilega er að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kemur með glæsibrag út úr þeim samanburði. En það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að segja: púff. Hann lærði nefnilega vinnubrögð í raunvísindum og tók doktorspróf á þeim grundvelli og hann getur bara einfaldlega beitt þeim vinnubrögðum til þess að gera þennan samanburð. ( ÖS: Ég?) Já, hv. þm.

( ÖS: Ég kem að því á eftir.) Ef þingmaðurinn vill gera það hér á eftir þá munum við taka því fagnandi. ( ÖS: Það tekur 15 sekúndur.) Já, ég veit að það er rétt hjá hv. þm. Það tekur 15 sekúndur að afgreiða fjögurra ára iðnaðarferil Jóns Sigurðssonar, hæstv. iðnrh. Það tekur ekki lengri tíma. Það er afturför, hnignun, skortur á frumkvæði og nýjungum. Meira þarf ekki að segja um það, hv. þm. En það er dapurlegt á þeim tímum þegar íslenska hagkerfið þarf á endurreisn að halda þá skuli koma til þings eftir helgina iðnrh. eftir fjögurra ára setu og hafa ekkert nýtt að bjóða, bókstaflega ekkert. Þess vegna munum við auðvitað halda umræðunni áram því að við munum leiða þessar nýju hugmyndir í atvinnumálum inn í íslenskt þjóðfélag. Við munum hrinda þeim í framkvæmd og við munum tryggja að íslenska hagkerfið verði reist úr rústum vegna þess að það er meira sameiginlegt með hinum nýju hugmyndum sem stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa tileinkað sér á síðustu árum, sérstaklega síðustu missirum, og því sem við, forustumenn Alþb., höfum verið að boða en þeirri gamaldags markaðshyggju Thatcher og Reagans, afskiptaleysiskenningarinnar í efnahags- og atvinnumálum sem hæstv. iðnrh. boðaði fyrir helgina.