Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:17:10 (7001)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., hefur gert nýsköpunarstefnu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í tíð hans sem iðnrh. að umræðuefni. Við munum það báðir, þingmaðurinn og ég, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beitti sér þar fyrir sérstöku frumkvæði sem miðaði að því að efla sköpun smáfyrirtækja í íslenskum iðnaði. Hvað stendur eftir af því, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson? Eitt fyrirtæki í Kópavogi sem framleiðir sultur undir heitinu Ömmusultur. Ég skal að sjálfsögðu ekki draga úr gæðum þeirra sultna, ég neyti þeirra oft, en það er hið eina sem eftir stendur af þessu átaki sem þingmaðurinn beitti sér fyrir og sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er að hreykja sér og sínum flokki af.
    Varðandi síðan það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir um Michael Heseltine og hina nýju stefnu sem hann kallar svo í iðnaði hjá Bretum og hinnar nýju ríkisstjórnar Johns Major, þá er það að segja að það er tvennt sem Michael Heseltine hefur einkum beitt sér fyrir. Í fyrsta lagi hefur hann beitt sér fyrir því að reyna að skapa rannsóknarumhverfi í tengslum við Háskóla, eins konar vísi að tæknigörðum eða hinum ameríska Silicon Valley. Honum hefur tekist það og er að takast það bæði í Glasgow og í Wales og það er hárrétt að þar hefur stjórn Majors og Thatcher þar á undan náð nokkrum árangri og þetta er nákvæmlega það sama sem íslensk stjórnvöld hafa reynt að gera með misjöfnum árangri vissulega. Heseltine hefur líka beitt sér fyrir því að veita stuðning við nýsköpun í atvinnulífinu, þ.e. hann hefur skrifað um það að hið opinbera eigi að veita stuðning til nýsköpunar í atvinnulífinu. Hann hefur líka sagt það að hið opinbera eigi að beita vissum aðgerðum til þess að styðja stofnun smáfyrirtækja.
    Hvað stendur í þessari skýrslu, virðulegi forseti, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur bersýnilega ekki lesið vegna þess að hann eyddi ekki einu einasta orði á, til að mynda á bls. 19, hvað stendur þar? Þar stendur með orðum hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar: ,,Nýsköpun í atvinnulífinu þarfnast stuðnings hins opinbera á komandi árum.`` Stefna Heseltines. Í öðru lagi stendur líka: ,,Samstilltar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga geta stuðlað að stofnun smáfyrirtækja.`` Stefna Heseltines.
    Ég vil bara, virðulegi forseti, óska eftir því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lesi skýrsluna áður en hann fer að fella sína landsfrægu sleggjudóma.