Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:23:29 (7004)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. umhvrh. veit greinilega lítið hvað er talað um milli manna hér í þinginu. Það var rætt um að þessi umræða stæði í fimm stundarfjórðunga, hæstv. umhvrh., og þegar ég lauk máli mínu var klukkan u.þ.b. kortér yfir tvö og umræðan hafði byrjað klukkan eitt, þannig að ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði ekki farið að blanda sér í umræðurnar þá hefði þetta alveg staðist. Hæstv. umhvrh. getur því sparað sér ávítur af þessu tagi.
    Hitt var svo merkilegra að hæstv. umhvrh. kom með það sjónarmið að vegna þess að hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson væri fjarstaddur þá mætti ekki gagnrýna hann. Var það kannski ástæðan fyrir því að umræðan var látin fara fram þegar ráðherrann var farinn úr landi til þess að geta sagt: Þið megið ekki gagnrýna ráðherrann, hann er fjarstaddur?
    Er það nú reisn á Alþfl. Fyrst er skýrslan dregin í hálft ár, svo þorir hæstv. iðnrh. ekki að standa fyrir máli sínu og þegar menn tala um staðreyndir málsins þá stendur hæstv. umhvrh. upp og segir: Þið megið ekki gagnrýna iðnrh., það er ódrengilegt, hann er fjarstaddur. Það er greinilegt að þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir Alþfl. Og ég skil það vel vegna þess að hér eru fjögur ár sem segja sína sögu. Ár afturfarar, hnignunar og frumkvæðisleysis í málefnum almenns iðnaðar. Og af því að hér hefur verið minnst á sæstreng þá vil ég rétt minna á að þegar ég fyrir u.þ.b. tveimur til þremur árum fór að knýja á um að núverandi hæstv. iðnrh. beitti sér fyrir því að kannað yrði um útflutning á raforku gegnum sæstreng, þá var svarið að það væri ekki tímabært að tala um það vegna þess að álver á Keilisnesi ætti að hafa forgang. Það eru sem betur fer til viðtöl við hæstv. núv. iðnrh. þar sem hann hafnar því að sæstrengsmálið sé tekið til könnunar vegna þess að álver á Keilisnesi verði að hafa forgang.