Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:37:46 (7007)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhvrh. svörin. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi verið að gagnrýna það að skýrslan tæki yfir 20 ára tímabil. Ég held að það sé einmitt ágætt að skýrslan tók yfir þetta langt tímabil vegna þess að hún er fróðlegri fyrir bragðið. Í henni eru ýmiss konar upplýsingar. Það sem ég var hins vegar að benda á var að til þess að fela frekar hversu illa hafi verið að staðið á árunum frá 1980 til 1992 og þá kannski sérstaklega á síðari hluta þess tímabils, þá er tekinn lengri tími og stóriðjan er þar inn í. Ég var að gagnrýna það en ekki það að ég væri að kvarta yfir skýrslunni sem slíkri.
    Ráðherrann kom inn á það að Framsfl. hefði setið í ríkisstjórn í 20 ár og bæri þess vegna nokkra ábyrgð á þessu. Það er reyndar alveg hárrétt og ég vonast til þess að hæstv. umhvrh. hafi skilið mín orð og ástæðuna fyrir því að ég fór að bera þarna saman þær tvær atvinnugreinar, annars vegar sjávarútveginn og hins vegar iðnaðinn, til þess að sýna í samanburðinum að það væri mikill munur á því hvaða flokkar og hvaða menn það væru sem stjórnuðu viðkomandi málaflokkum. Metnaðurinn væri mismunandi og geta flokkanna til að fara með málaflokkana væri mismunandi og þar tel ég að þessi skýri samanburður hafi komið fram.
    Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Auðvitað hefði ég átt að vera það nærgætinn að bera spurningarnar undir hann áður en ég fór í ræðustólinn. Ég skil það að hann á erfitt með að svara þeim og ætla ég ekki að ganga frekar á eftir svörum. Fjárhagslega endurskipulagningin sem hæstv. ráðherra kom inn á að ég hefði talað um í þeim tón að það ætti að ausa peningum út úr ríkissjóði til að aðstoða fyrirtækin. Þetta er rangt hjá hæstv. ráðherra. Ég var síður en svo að meina það. Ég benti hins vegar á að mörg þau fyrirtæki sem hafa verið tekin til fjárhagslegrar endurskipulagningar hafa skilað þeim árangri að ríkið hefur

ekki tapað fjármunum fyrir bragðið sem annars hefðu tapast. Mýmörg dæmi mætti nefna um slíkt og ráðdeildarsemi fyrri ríkisstjórnar lýsir sér langbest í því að nú er þessi ríkisstjórn að ausa út úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins þremur milljörðum króna.