Flugmálaáætlun 1992--1995

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:45:15 (7012)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Það er heldur erfitt finnst mér að taka upp umræðu um flugmálaáætlun nú þegar komið er langt fram á nótt. Í sjálfu sér var ekki mikill ágreiningur um þessa áætlun í samgn. Menn greindi ekki á um mjög mörg atriði og ég tel að það hefði svo sem vel mátt komast fyrir þau öll. Það eina sem ég hef við þessa áætlun, sem hér liggur fyrir, að athuga snýr annars vegar að uppsetningu hennar og hins vegar vil ég nefna það og ég tel ástæðu til að láta það koma fram að dregið hefur úr fjárveitingum eða því fé sem til ráðstöfunar eru á flugmálaáætlun vegna þess að töluvert miklir peningar hafa verið settir í erlendu samskiptin. Á þessu ári er verið að láta 56 millj. í flugleiðsögu og flugumferðarþjónustuna sem upphaflega var aldrei hugmyndin að yrði tekið af því fé sem á að renna til flugmála. En ekki meira um það.

    Ég ætla að gagnrýna hvernig staðið er að uppsetningu áætlunarinnar. Það var ákveðið alveg á síðustu dögum af meiri hluta nefndarinnar að breyta áætluninni þannig að taka út allar tölurnar fyrir 1994 og 1995. Það finnst mér aldeilis fráleit vinnubrögð. Flugmálaáætlun á að vera til fjögurra ára en eftir þessa breytingu eru ekki inni í henni neinar tölur nema niðurstöðutölur fyrir árin 1994 og 1995. Þannig að í raun og veru þegar hún er samþykkt frá hv. Alþingi erum við í raun og veru að samþykkja áætlun sem er eingöngu til eins og hálfs árs. Ég tel að áætlanir séu mikils virði og séu framkvæmdir að fara af stað eða í gangi á flugvöllum þá eru þær yfirleitt til lengri tíma en þetta þegar þær hefjast. Það er þess vegna alveg fráleitt að ætla sér að hafa þennan hátt á.
    Ég hef reyndar rökstuddan grun um að þessi aðferð sé fundin upp af öðrum ástæðum en að menn hafi engan skilning á gildi áætlanagerðar. Ég hef grun um að menn séu einfaldlega að gera þessar breytingar vegna þess að þeim hafi fundist það þægilegra að kippa niðurstöðutölunum út úr áætluninni til að það kæmi ekki fram hvar ætti að skera niður í framkvæmdum því að fært var til í áætluninni að hluta til. Það held ég að sé skýringin. Ég ímynda mér að menn verði jafnvel tilbúnir til að setja áætlunartölur inn í áætlunina næst þegar hún kemur fjögur ár fram í tímann. Ég hef trú á því. Enda finnst mér það miklu skynsamlegra. Auðvitað þurfa menn að hafa tölur lengra fram í tímann en hálft annað ár eins og nú er raunverulega hátturinn á í sambandi við þessa áætlun.
    Hæstv. samgrh. er búinn að draga þessa mjög svo sérkennilegu tillögu, sem kom fram, til baka þannig að ég þarf ekki að fara neinum orðum um hana að öðru leyti en því að ég undraðist það mjög að fram kæmi brtt. í þinginu frá ráðherra án þess að rætt væri við nefndina. Kunnugir menn hafa sagt mér að sá háttur væri yfirleitt ekki hafður á. Það finnst mér líka líklegt að geti varla verið því að ef það koma fram brtt. við áætlun eins og þessa hlýtur að vera eðlilegt að nefndin fái þær til umfjöllunar áður en þær eru lagðar beint inn í þingið. En það nú er búið að draga þá tillögu til baka þannig að hún er þá út af fyrir sig ekki neitt umkvörtunarefni.
    En fyrst og fremst vildi ég láta óánægju mína koma fram með það hvernig gengið er frá áætlunin af hendi meiri hlutans.