Flugmálaáætlun 1992--1995

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:50:40 (7013)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð merkilegt að skoða heildaryfirlit yfir fjölda farþega og flutninga á flugvöllum landsins. Í upphaflegri till. til þál. um flugmálaáætlun 1992--1995 kemur fram að mikil aukning er á farþegum á tímabilinu 1985--1991. Raunar kemur það engum á óvart þar sem Íslendingar eru í sífellt auknari mæli að tileinka sér þann ferðamáta og kemur það vel heim og saman við þann hraða og það stress sem einkennir nútímann að reyna að vera sem fjótastur í förum.
    Ég tel þó að sú uppbygging, sem hefur verið á flugvöllum landsins og vissulega stefnir í rétta átt, þurfi jafnframt að vera í samhengi við aðrar framkvæmdir í samgöngumálum. Á undanförnum árum eða áratugum e.t.v. hefur ekki verið nægilegt samhengi og samfella í þeim málum að byggja upp vegi, hafnir og flugvelli og þyrfti að mínum dómi að vera þar meiri samvinna á milli aðila um það til þess að þau mannvirki nýttust sem best.
    Flugmálaáætlun er gerð til fjögurra ára í senn og segir í nál. frá samgn. að flugmálaáætlun beri að endurskoða á tveggja ára fresti og jafnframt að gera áætlun til tveggja ára til viðbótar skv. 1. gr. laga nr. 31/1987. Síðast var flugmálaáætlun lögð fram á 112. löggjafarþingi, veturinn 1989--1990. Hana átti því að endurskoða núna á þessum vetri 1991--1992.
    Í framhaldi af því hefði mátt ætla að gerð hefði verið áætlun til tveggja ára til viðbótar. Það hefur hins vegar ekki verið gert heldur hefur sú áætlun, sem áður hafði verið gerð þar sem fjármagni er skipt niður á flugvelli fyrir árið 1994 og 1995, verið strikuð út, þ.e. annað en niðurstöðutölurnar. Hugsunin á bak við það að gera áætlun til fjögurra ára hlýtur að vera sú að þar er verið að gera verkáætlun og bæði er verið að skipta niður fjármagni og þeim tíma sem ætlaður er til framkvæmdanna. Trúlega er þá samið um ákveðna tilhögun á þeim verkum því yfirleitt taka verkefni á flugvöllum lengri tíma en eitt eða tvö ár. Þess vegna hlýtur það að hafa verið meiningin með því að gera áætlun til fjögurra ára að þar sé þeim verkum, sem þarf að vinna við flugvellina, skipt niður og jafnframt skipt niður á flugvelli þannig að einn sé inni eitt árið og sá næsti árið á eftir. Það eru því í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð að nú sé tekin út áætlunin fyrir 1994 og 1995 og hálft árið árið 1992. Við höfum þá raunverulega ekki áætlun nema til eins og hálfs árs fram í tímann.
    Ég tel eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson að meiri hluti samgn. hafi gert þetta til að hafa frjálsari hendur við breytingar á þeirri flugmálaáætlun sem ákveðin hafði verið áður og kom það raunar fram á fundi í samgn. Alþingis að svo mundi vera.
    Það kemur illa við þá sem hafa samþykkt og unnið að þessari flugmálaáætlun í þeirri góðu trú að hún mundi standa án mikilla breytinga, og ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum þar sem mér finnst að þau geti leitt til þess að gengið sé á bak loforðum og samningum um það að fjögurra ára áætlunin sem ákveðin er samkvæmt lögum gildi.