Flugmálaáætlun 1992--1995

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:56:07 (7014)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Það er vissulega til bóta að vinna að uppbyggingu flugvalla með skipulegum hætti

eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Það er því nauðsynlegt að halda því áfram. Ég vildi aðeins leggja á það áherslu vegna orða hæstv. samgrh. áðan að hann sjái til þess að lokið verði við nauðsynlegar rannsóknir og undirbúning vegna lagningar þverbrautar á flugvellinum á Hornafirði eða Árnanesflugvelli. Þetta mál hefur verið lengi á dagskrá og við endurskoðun síðustu áætlunar var þetta mál tekið inn fyrir forgöngu þingmanna Austurlands. Hins vegar er það svo að að okkar mati hefur þessu máli ekki verið sinnt nægilega vel án þess að ég ætli að gerast neinn dómari í því. Á því kunna að vera ýmsar skýringar sem ég hef ekki fengið, a.m.k. er ég þeirrar skoðunar að það hefði þurft að sinna málinu af meiri krafti.
    Nú gerum við okkur það alveg ljóst að það verða ekki hafnar framkvæmdir á þverbraut fyrir það fé sem er inni á þessari áætlun. Þar er um allmikið mannvirki að ræða og það er tilgangslaust að ákveða framkvæmdir nema fyrir liggi hvað viðkomandi braut muni kosta. Við höfum því vænst þess við endurskoðun áætlunar síðast að nú mundi það liggja fyrir. En svo er ekki. Ég er ekki með þessum orðum mínum að ásaka núv. samgrh. í þessum efnum, alls ekki. Ég er aðeins að ítreka að ég vænti þess að núv. hæstv. samgrh. sjái til þess að þessu verki verði lokið þannig að unnt sé að meta það hvernig þarna skuli standa að málum og hægt sé að taka þá ákvarðanir við endurskoðun á næsta ári eins og reglur gera ráð fyrir eftir því sem mér hefur skilist.
    Út af þeirri brtt., sem hér var flutt en hefur nú verið dregin til baka, hef ég í sjálfu sér ekkert að segja. Það skiptir ekki máli að mínu mati hvernig málið er orðað, aðalatriðið er að viljinn sé fyrir hendi og ég hef skilið hæstv. samgrh. svo að hann muni beita sér fyrir því og það er alveg nóg af minni hálfu. Ég tel að sú brtt., sem hv. formaður samgn. beitti sér fyrir í þessu sambandi, sé alveg nægileg trygging í þessu efni enda sé vilji samgrh. sá sem fram hefur komið bæði í þessum umræðum og í svari við fyrirspurn sem ég bar fram en gat því miður ekki verið viðstaddur þá umræðu. Ég hef farið yfir þau svör og tel þau vera fullnægjandi af hálfu samgrh.
    Ég vænti þess að viðhlítandi niðurstaða fáist í þessu máli og framkvæmdir verði hafnar fjótlega svo lendingarskilyrði á þessum stað séu með viðhlítandi hætti. Hér er um mikilvægan flugvöll að ræða sem þjónar stóru byggðarlagi, landsvæði þar sem einangrun hefur verið allmikil en sem betur fer hafa samgöngubætur breytt þar miklu um. En hvað svo sem því líður verða flugsamgöngur til þessa staðar mikilvægar um langa framtíð enda kom fyrsta flugvélin til Íslands á þennan stað. Það er nú svo að það hlýtur að vera nauðsynlegt að halda slíkum flugvelli vel við þar sem flugmenn fundu fyrst upp á því að lenda vélum sínum.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en ég vænti þess að hæstv. samgrh. vinni ötullega að málinu en hugsi minna um það hvernig orðalagið er á viljayfirlýsingu hans.