Skattskylda innlánsstofnana

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:35:56 (7020)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Það fer eins fyrir mér og hv. seinasta ræðumanni að það er auðvitað orðið áliðið og komið fram yfir þann tíma sem samið var um að þingfundur skyldi standa á þessari nóttu. Því er vart tími til að taka upp mikla efnislega umræðu. Enda er það nú svo að þótt ýmislegt hafi komið manni á óvart þetta eina ár eða rúmlega ár sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur setið á valdastólum, þá virðist ekki vera neinn endi á hvað það varðar. Hér er eitt frv. enn til umræðu eða umfjöllunar sem kemur manni mjög á óvart vegna þess að það er enn höggvið í sama knérunn, að leggja nýjar álögur á atvinnulífið. Það er enn haldið áfram að reyna að koma því svo fyrir að atvinnuleysið aukist og gjaldþrotastefnan, sem virðist vera aðalsmerki í efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar, haldi áfram að virka sem mest á þetta veikburða atvinnulíf sem við búum við. Það er lítið samhengi reyndar orðið í þessari stefnu, sem eitt sinn var gefið það ágæta nafn ,,kemur-mér-ekki-við-stefna``, núv. ríkisstjórnar. Það hefði verið miklu betra að hún hefði bara haldið sig við það og gert nákvæmlega ekki neitt í málefnum atvinnulífsins þegar það eina sem hún gerir er að auka álögurnar. Það eina sem hún gerir er að hækka skattana. Við höfum það fyrir okkur í mörgum dæmum sem óþarft er að rekja, það hefur komið fram bæði við umfjöllun um fjárlög og umfjöllun um bandorminn svokallaða og fleiri frv. hæstv. ríkisstjórnar, og svo auðvitað einnig í sambandi við þær vaxtahækkanir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á seinasta ári í upphafi valdaferils síns. Þær hafa kannski átt stærstan þátt í því hvernig komið er fyrir atvinnulífinu. Nú er enn með þessu frv. stefnt í það að hækka vexti þó svo að reynt hafi verið á seinustu dögum í kjölfar nýgerðra kjarasamninga að beita sér fyrir nokkurri vaxtalækkun með handafli, eins og allir vita, með því að ríkisstjórnin hefur beitt áhrifum sínum til þess í ofurlitlum mæli. En meira hefði auðvitað mátt gera ef duga skyldi. Þá er aftur farið í hina áttina og lagt fram frv. sem leiðir óhjákvæmilega til vaxtahækkunar hjá einstökum stofnlánasjóðum og sýnir að það er lítið samhengi í þessum vinnubrögðum.
    Eins og fram kom hjá seinasta ræðumanni, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrv. hæstv. fjmrh. mun hann hafa skilið eftir í fjmrn. skúffu sem hann hafði geymt í frv. sem hann hafði lagt til hliðar en orðið það á að merkja skúffuna: Ónothæf frumvörp. Hefði frekar átt að setja á skúffuna: Frumvörp sem verða tekin til athugunar síðar, því hæstv. núv. fjmrh. hélt, af því að það stóð: Ónothæf frumvörp, frá hæstv. fyrrv. fjmrh., að þetta hlytu að vera góð frv. og væri rétt að beita sér fyrir því að leggja þau fram. Þetta er auðvitað misskilningur eins og menn vita þegar menn hafa lesið frv. og kynnt sér efni þess. Það er ekki heldur nægilega vel undirbúið eða nægilega vel staðið að gerð frv. eins og fram kemur í álitum þeirra aðila sem veitt hafa umsagnir um frv. og prentaðar eru með nál. minni hlutans.
    Hæstv. ríkisstjórn beitir sér fyrir því að leggja fram frv. um breytingar á Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins og telur sig vera að grípa þar til róttækra aðgerða til að bæta rekstrarstöðuna en það er auðvitað alrangt. Þar er aðeins verið að veita ofurlitlu fé til baka út í atvinnulífið sem brennur strax upp í því að greiða niður vaxtahækkanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og þær skattahækkanir og skattaálögur sem atvinnulífið býr nú við af hálfu ríkisstjórnarinnar. Allt er þetta hin undarlegasta samsuða, virðulegur forseti, og hlýtur að vekja undrun okkar sem horfum upp á það sem er að gerast en er auðvitað í fullu samræmi við þessa stefnu hæstv. ríkisstjórnar að halda áfram að þjarma að atvinnulífinu, halda áfram að beita sér fyrir þessari gjaldþrotastefnu og því miður búa svo um hnútana að atvinnuleysi fer nú vaxandi. Þetta er allt saman áhyggjuefni sem við hljótum að verða að ræða betur við hæstv. ríkisstjórn við annað tækifæri en nú þegar langt er liðið á nóttu. Og þó nú sé stutt til þingloka er ekki hægt að fara svo frá þessu alvarlega máli að það verði ekki rætt ítarlega aftur við 3. umr. sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að öllu óbreyttu að ná fram á morgun til að reyna að gera þetta frv. að lögum en við hljótum auðvitað að reyna að beita okkur gegn.
    Minni hluti hv. efh.- og viðskn. leggur til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem það verði geymt um sinn. Kannski vandað að einhverju leyti betur til þess og skoðað við aðrar aðstæður hvort hægt sé að koma fram einhverju í þessa veru en um það skal ég ekkert segja á þessu stigi. Hins vegar er eðlilegt og rétt að málinu sé nú vísað aftur til baka til ríkisstjórnarinnar og það munum við væntanlega ræða betur á morgun við 3. umr. Ég ætla því ekki að orðlengja frekar um þetta mál að þessu sinni.