Skattskylda innlánsstofnana

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:56:26 (7025)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég skal taka það alveg skýrt fram að mér fannst óeðlilegt að hæstv. fjmrh. færi nú að svara þeim fyrirspurnum sem hefur verið beint til hans í löngum ræðum og ítarlegu máli hér í umræðunni. Ég stytti mál mitt mjög hér í nótt á þessum síðasta klukkutíma vegna þess að það var komið fram yfir þann tíma sem talað var um. Þá var klukkan um hálffjögur. Nú er hún að verða fjögur og ef það hefði verið ætlunin að hæstv. fjmrh. færi að flytja ítarlegar svarræður núna hefði ég talið að umræðan væri með allt öðrum hætti. Þess vegna fannst mér það skynsamlegt sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson nefndi að hæstv. fjmrh. svaraði þá frekar þessum spurningum við upphaf 3. umr. á morgun fyrst við ýmsir höfum nánast verið að falla frá orðinu í umræðunni til þess að menn kæmust heim. Það var tilgangur minn a.m.k.