EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:15:08 (7032)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Eins og hér hefur komið fram og alkunna er þá tókst samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það hvernig hinu þinglega starfi skyldi háttað við þennan EES-samning. Það hefur náttúrlega alltaf legið fyrir að tvíhliða samningur um sjávarútvegsmál yrði að liggja fyrir í endanlegri gerð áður en samningur um Evrópskt efnahagssvæði er ræddur og tekinn til afgreiðslu. Um það þurfa menn ekki að

deila. Ég er ekki að áfellast hæstv. utanrrh. þó að hann hafi hann ekki hér á borðum með þessum pakka sem nú var dreift og út af fyrir sig ágætt að er kominn í hendur allra þingmanna, því þarna er um mikla lesningu að ræða og menn hafa fyrir sér töluverð verkefni áður en þeir verða gjörkunnugir þessum samningi.
    Ég ætla sannarlega að vona að hann sé rétt þýddur og það sé ekki meiningarmunur á íslenska textanum sem í þessum ritum birtist og upphaflega textanum eins og tvímælalaust er með ákvæði, sem hér var til umræðu utan dagskrár, varðandi innflutningsgjöld á landbúnaðarvörum þar sem er tvímælalaust marktækur munur á hinum enska texta og hinum íslenska.
    Ég er ekki að segja með því að íslenski textinn sé vísvitandi rangfærður eða falsaður heldur tel ég að þýðendur hafi verið að keppast við að koma textanum á fagurt íslenskt mál en meiningin eða blærinn á enska textanum er allur annar en á íslenska textanum, bara á þeirri málsgrein.
    Ég vona sannarlega að þessi íslenska þýðing sé með þeim hætti unnin að það séu ekki fleiri dæmi slík í textanum.
    Varðandi tvíhliða samninginn og rökin fyrir því að hann verður að liggja fyrir í endanlegri gerð, ekki bara í einhverju frásagnarformi eða nótuskiptum, heldur í endanlegri gerð, áður en við getum tekið afstöðu til þessa máls í heild, eru þau að þessi tvíhliða samningur er aðgangseyrir okkar að Evrópsku efnahagssvæði. Það var krafa Evrópubandalagsins að Íslendingar gerðu tvíhliða samning um sjávarútvegsmál við Evrópubandalagið ef nokkuð ætti að verða af Evrópsku efnahagssvæði. Þar með er að vísu horfið frá því prinsippi sem við höfum haldið um áratugi að veita ekki aðgang að fiskimiðum fyrir tollaívilnanir. Aðgangseyrir, sagði ég, en við þurfum að borga fleira. Þessi samningur kostar okkur verulegar fjárhæðir í peningum. Það vill svo til að einmitt á þessari stundu er á fundi vestur á Hótel Sögu þingmannanefnd EFTA-ríkjanna og þegar ég fór af þeim fundi fyrir tíu mínútum eða korteri síðan var einmitt verið að gefa skýrslu um þann kostnað sem EFTA-ríkin þyrftu að hafa af Evrópsku efnahagssvæði, bæði stjórnunarlega og eins með framlögum í sameiginlega sjóði. Þar er um háar fjárhæðir að ræða og ég hygg að hæstv. fjmrh. kippist við þegar hann áttar sig á þeim.
    Ríkisstjórn aðhalds og sparnaðar, sem við höfum hér í landinu hlýtur að bregða í brún þegar hún sér þær tölur því sá hlutur sem Íslandi er ætlað að greiða hann er umtalsverður og gildur.