EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:21:03 (7033)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Margt skrautlegt hefur hæstv. utanrrh. sagt um Evrópskt efnahagssvæði á þessum þriggja ára ferli en hápunkturinn var hér áðan. Hver hefði trúað því, sem hlustað hefur á ræður, sjónvarpsviðtöl, útvarpsviðtöl, lesið blaðaviðtöl við hæstv. utanrrh. um fiskinn og fiskinn og aftur fiskinn og Evrópska efnahagssvæðið, að hann mundi koma hér í ræðustól á Alþingi daginn sem hann legði frv. um Evrópskt efnahagssvæði fram og segja orðrétt, virðulegi forseti: Samningur um sjávarútvegsmál kemur þessum samningi ekki við. --- Kemur þessum samningi ekki við. Hann er byggður á bókun og verkum frá tíð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Samningur Íslands við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál kemur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði ekki við, sagði hæstv. utanrrh. hér áðan.
    Verður þetta málflutningurinn, hæstv. utanrrh., eða er þetta sannleikurinn?
    Þetta fannst mér satt að segja stórmerkileg yfirlýsing hjá hæstv. ráðherra og hann kallaði það fjarstæðu --- hann kallaði það fjarstæðu að fara fram á það að sjávarútvegssamningurinn væri hluti af lagasetningu Alþingis um Evrópskt efnahagssvæði. Það sem ráðherrann hefur talið aðalbúbót Íslands vegna þessa samnings er allt í einu orðin fjarstæða.
    Sérkennilegur er nú orðinn málflutningurinn, ég verð að segja eins og er og það verður skrautlegt þinghaldið í ágúst ef kynningin og málflutningurinn fyrir þessum samningi verður með þeim hætti sem við hlustuðum á hér áðan. Nema hæstv. utanrrh. sé allt í einu orðinn þeirrar skoðunar að samningurinn um sjávarútvegsmál, af því hann er greinilega óþægilegur fyrir ráðherrann í dag, komi samningnum um Evrópskt efnahagssvæði ekkert við. Þannig er bara hlaupið frá einu í annað eftir því sem hentar ráðherranum.
    Ég vil minna hæstv. utanrrh. á það að forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði fyrir viku síðan að farvegur viðræðnanna um sjávarútvegssamninginn, þ.e. skiptin á veiðiheimildunum, væri vitleysa, eins og þær stæðu núna. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði á opinberum fundi að réttast væri fyrir íslensk stjórnvöld að hætta þessari ,,loðnuvitleysu`` svo ég vitni orðrétt í hann.
    Auðvitað er það þannig að sjávarútvegsmálin eru enn í því öngstræti í viðræðum Íslands og Evrópubandalagsins að ráðherrann getur ekki gert þinginu í dag grein fyrir því hvernig þau verða nákvæmlega og er að reyna að klóra yfir það í sérstakri skýrslu sem hér er lögð fram á Alþingi.
    Hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á þann veg áðan að svarið hefði verið kynnt á fundi með fulltrúum þingflokka stjórnarandstöðunnar. Það var líka ómerkilegur málflutningur, hæstv. utanrrh., og ef það á að vinna svona hér í sumar að nota þessa óformlegu fundi í ræðustól Alþingis sem vettvang fyrir formleg svör og gefa síðan ekki tæmandi svör við því sem spurt er um, þá verður auðvitað að taka upp alveg nýjar samskiptavenjur við ráðherrann í þessu máli. Það er út af fyrir sig rétt að ráðherrann sagði á einum slíkum fundi að ekki stæði til að leggja fram neitt hér á Alþingi um dómsúrskurði Evrópubandalagsins sem eiga að fá lagagildi á Íslandi. En það hvarflaði ekki að mér

að ráðherrann mundi hafa þá afstöðu að ef óskað yrði eftir því þá segði hann líka nei, því það er auðvitað afgerandi munur á því hvort ráðherrann hefur ætlað sér það eða hvort hann neitar þinginu um það. Og það er þá rétt að leggja þá ósk formlega fram við ráðherrann að þegar þing kemur saman í ágúst um að hann leggi þá á borð þingmanna ítarlega greinargerð um dómsúrskurði Evrópubandalagsins sem fá lagagildi hér á Alþingi með gildistöku EES-samningsins.