EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:27:05 (7035)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessar þingskapaumræður eru væntanlega forsmekkur að því sem koma skal af hálfu hv. þingmanna Alþb. í umfjöllun um þetta mikla mál. Svörin við spurningunum liggja fyrir.
    Að því er varðar eldri dómsniðurstöður Evrópudómstólsins er svar mitt þetta: Þær eru leiðbeinandi við umfjöllun dómstóla um mál í tengslum við þennan samning, þær eru ekki efnislegur þáttur samningsins sjálfs. Það eru ekki áform íslenskra stjórnvalda að láta þýða þær á íslensku eins og þær liggja fyrir.
    Mjög ítarlegar upplýsingar um þær dómsniðurstöður sem varða málið, og þær eru auðvitað mjög mismunandi að vægi, liggja fyrir í greinargerð í fræðiriti Stefáns Más Stefánssonar. Að öðru leyti vísum við, þeim sem þurfa að nota þær, einfaldlega á handhægar upplýsingar. Þannig háttar til um flestar aðildarþjóðir Evrópubandalagsins að þessar dómsniðurstöður eru ekki til á þjóðtungum viðkomandi landa. Krafa einhvers um að íslensk stjórnvöld þýði þetta á íslensku er því ekki sanngjörn.
    Að því er varðar lög og reglur Evrópubandalagsins árétta ég það svar mitt að til þess að verða við óskum þingmanna um að yfirlit um það liggi fyrir þá var tekið saman rit, sem er alveg rétt munað hjá hv. þingmanni, 1.038 blaðsíður sem við nefndum bláskinnu, sem lagt var á borð þingmanna fyrir meira en ári og var yfirlit yfir þau lög og þær reglur Evrópubandalagsins sem væru inntakið í því sem við köllum ,,acquis communautaire``. Þetta var að sjálfsögðu í ágripsformi, mönnum til upplýsingar.

    Það er rétt að nokkru verki er ólokið við að gera þetta grundvallarverk fyllra en að því er unnið og það mun liggja fyrir. ( HG: Hvenær?) Ég get ekki svarað því með nákvæmri dagsetningu, hv. þm.
    Virðulegi forseti. Það væri mjög til þess að auðvelda verkaskiptingu í þinginu ef hv. 8. þm. Reykn. léti hv. 4. þm. Austurl. eftir að vera talsmaður Alþb. í þessu máli. Hann veit þó nokkuð mikið um málið en hv. 8. þm. Reykn. virðist ekkert vita um það. Hann heldur áfram að tönnlast á því með þessari venjulegu hneykslunarhellu sem honum lætur vel að tvíhliða samningurinn um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum sé grundvallaratriði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og því hafi alltaf verið haldið fram af utanrrh. að svo væri.
    Tvíhliða samningurinn um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum er ekki hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Hann á sér forsendur í fríverslunarsamningnum sem Íslendingar gerðu við Evrópubandalagið 1972. Það sem hv. þm. á sennilega við er sérstakur viðauki og bókun um sjávarútvegsmál sem tekur m.a. til þeirra réttinda sem Íslendingar hafa áunnið sér með þessum samningi, þ.e. í formi niðurfellingar á tollum, í markaðsaðgangi í áföngum, án þess að gangast undir kröfur Evrópubandalagsins um veiðiheimildir eða fjárfestingarrétt, sem er allt, allt annað mál. Það sem liggur á borðum þingmanna í sérstakri skýrslu er greinargerð um erindaskiptin um tvíhliða samninginn sem er hér á sérstöku þingskjali af því að þetta er ekki partur samningsins. Að halda því fram að við höfum alltaf talið að samningurinn, sem hér er lýst í erindaskiptum, væri eitthvert meginmál þessa samnings er fjarstæða og það veit hv. 4. þm. Austurl. auðvitað þótt hv. formaður Alþb. viti það ekki.
    Svo má ég til með að leiðrétta það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. og er misskilningur sem hann hefur endurtekið of oft en þarf að fara að leiðrétta. Erindaskiptin, sem liggja fyrir og verða væntanlega að samningi um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum, eru ekki brot á grundvallarreglunni um að hafna veiðiheimildum fyrir markaðsaðgang. Þetta hefur verið fjallað um svo oft að það má til með að hætta að villa um fyrir fólki með þeim hætti.
    Allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa staðfastlega synjað kröfunni um tengingu á markaðsaðgangi og veiðiheimildum. Hitt er rétt að allt frá árinu 1980 hafa allar ríkisstjórnir á Íslandi verið reiðubúnar til viðræðna um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Fyrir því eru mörg fordæmi, sem hafa verið rifjuð upp, og um það hefur ekki verið ágreiningur í ríkisstjórnum á Íslandi, sama hvaða flokkur á í hlut. Gagnkvæm skipti á veiðiheimildum er allt annar hlutur og er ekki brot á slíkum grundvallarreglum.