EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:32:00 (7039)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu þeirri sem liggur á borðum þingmanna um samning í formi bréfaskipta milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands um sjávarútvegsmál segir svo í upphafsmálsgrein, með leyfi forseta:
    ,,Samningaviðræður Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um samstarfssamning um sjávarútvegsmál hófust eftir lausn landhelgisdeilna við Bretland og Þýskaland og gildistöku bókunar nr. 6 við fríverslunarsamning Íslands og EB árið 1976. Þær stóðu yfir með hléum fram til ársins 1981.``
    Ég rifja þetta upp fyrir hv. þm. til þess að árétta að tvíhliða samningur um samstarf á sviði sjávarútvegsmála, sem m.a. tekur til skipta á gagnkvæmum veiðiheimildum, á rætur að rekja til þessa fríverslunarsamnings frá árinu 1972, staðfestur 1976, og er ekki hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.