Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 12:32:47 (7046)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. forsrh. kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar í upphafi þings, þá flutti hann þann boðskap að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., ætlaði eingöngu að stjórna í efnahagsmálum með almennum reglum. Tími hinna sértæku aðgerða væri liðinn.
    Hæstv. forsrh. hefur frá því að hann tók við embætti farið hörðum orðum um það sem sjálfstæðismenn kalla sjóðasukk en það er heiti sem þeir hafa beitt yfir aðgerðir, sértækar aðgerðir í efnahagsmálum þegar ýmsum sjóðum er beitt til þess að styrkja rekstrargrundvöll ákveðinna fyrirtækja en ekki allra fyrirtækja.
    Á síðasta kjörtímabili deildu forustumenn Sjálfstfl. mjög harðlega á það að í tíð síðustu ríkisstjórnar var beitt þeirri aðferð að einstakir sjóðir voru notaðir til þess að styrkja rekstrargrundvöll einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Nú er það að gerast hér á síðasta degi þingsins að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er að hverfa formlega frá þeirri stefnu sem hæstv. forsrh. hefur lýst hvað eftir annað frá upphafi stjórnarsetunnar að væri stefna ríkisstjórnarinnar. Svo alvarlegt er fráhvarfið að forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson, embættismaður forsrh., Davíðs Oddssonar, neyðist til þess að lýsa opinberlega andstöðu sinni við þessa stefnubreytingu.
    Ég var að afla mér upplýsinga um það, virðulegi forseti, nú í morgun hvað sjóðatilfærslur, eða svo ég noti orðalag Sjálfstfl., sjóðasukk Sjálfstfl. í málefnum sjávarútvegsins í vetur nemur hárri upphæð. Og svarið er að það er hátt í 4 milljarða sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur flutt til í sjóðakerfinu í vetur í þágu ákveðinna fyrirtækja í sjávarútvegi. Með öðrum orðum: Á fyrsta valdaári þessarar ríkisstjórnar er horfið með svo afgerandi hætti frá hagstjórn hinna almennu aðgerða og hinna almennu leiða að um 4 milljarðar eru notaðir í sjóðatilfærslum, sértækum aðgerðum í þágu sjávarútvegsins. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hér við lok þessa þings: Hvernig stendur á því að sú stefna, sem hann boðaði við upphaf þingsins að væri kjarninn í efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstjórnar, hefur nú vikið fyrir því sem Sjálfstfl. fordæmdi harðast á síðasta kjörtímabili og forsrh. tilkynnti þjóðinni að hann ætlaði aldrei að beita?
    Ríkisstjórnin hefur í vetur beitt sér fyrir því að lengja lán í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, en það er sá sjóður sem Sjálfstfl. fordæmdi hvað harðast og sem hæstv. forsrh. hefur notað hvað mest sem dæmi um það sem ber að fordæma. En engu að síður hefur ríkisstjórnin í vetur beitt sér fyrir sértækum aðgerðum sem nema á bilinu 700--800 millj. kr. í lánalengingu í þessum sjóði. Það vita auðvitað allir að þær aðgerðir koma aðeins tilteknum fyrirtækjum í sjávarútvegi til góða. Þær koma ekki til góða þeim fyrirtækjum sem ekki þurftu á því að halda að sækja til Atvinnutryggingarsjóðs á sínum tíma og þær koma ekki til góða þeim fyrirtækjum sem stofnuð hafa verið síðan. Það eru líklegast nokkuð mörg hundruð fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi í dag þegar lagt er saman sem ekki fá notið þessara sértæku aðgerða hæstv. ríkisstjórnar.
    Í öðru lagi er svo hæstv. ríkisstjórn nú með þessu frv. sem hér er komið til 3. umr. að beita sér fyrir því að greiða út til tiltekinna fyrirtækja í sjávarútvegi tæpa 3 milljarða. Það er auðvitað alveg ljóst að það er aðeins hluti af fyrirtækjum í sjávarútvegi sem fær notið þessara aðgerða. Þau fyrirtæki, sem ekki hafa greitt inn í Verðjöfnunarsjóðinn af veiðum sínum og starfsemi, eru allmörg. Þau fá enga bót sinna mála.

Þau fá enga leiðréttingu vegna gengisstöðunnar og annarra erfiðleika, skattastefnu ríkisstjórnarinnar og vaxtahækkana. Síðan er líka ljóst að það er þó nokkur fjöldi fyrirtækja sem stofnaður hefur verið án þess að greiða inn í sjóðinn og starfa nú og þau fyrirtæki þurfa að búa við óhagstæð almenn skilyrði á næstu mánuðum og missirum vegna þess að þau njóta ekki þessara sértæku aðgerða sem ríkisstjórnin er að biðja þingið að lögfesta. Það eru auðvitað stór tíðindi að Sjálfstfl., sérstaklega hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og ríkisstjórn hans, skuli kúvenda svona gersamlega hér á þessu fyrsta þingi að hún leggur höfuðáherslu á það að lögfesta hér sértækar sjóðatilfærslur upp á tæpa 4 milljarða þegar allt er talið áður en þinginu lýkur.
    Æðsti embættismaður forsrh. á sviði efnahagsmála, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, gagnrýnir þessa stefnubreytingu harðlega. Hann segir í viðtali við DV í dag, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þórður Friðjónsson segir mörg efnahagsleg rök mæla gegn henni [þ.e. þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar]. Hann segir sjóðinn mikilvægt hagstjórnartæki og því sé nauðsynlegt að hann fái að starfa á grundvelli almennra reglna en ekki pólitískra ákvarðana.``
    En forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir meira, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þórður gagnrýnir einnig að greiða eigi úr sjóðnum á einu bretti einkum ef tryggja eigi áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum. Að auki bendir Þórður á að þó að verð á sjávarafurðum sé hátt núna séu ákveðnar blikur á lofti um lækkun þeirra á næstu missirum. Undir slíkum kringumstæðum hafi sjóðurinn hlutverk. Sjávarútvegurinn á við mikla erfiðleika að etja. Engu að síður er afar mikilvægt að þeir sjóðir sem ætlað er að jafna sveiflur í greininni starfi á óháðum grundvelli.``
    Dómur æðsta embættismanns forsrh. er alveg skýr. Hann segir: Hér er verið að innleiða pólitískar ákvarðanir í stað almennra reglna í stjórn efnahagsmála. Hér er verið að leggja niður óháðan grundvöll og taka upp önnur vinnubrögð.
    Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði í viðtali við sjónvarp þegar hann var spurður um það frv. sem hér er verið að afgreiða í 3. umr. Hann sagði: ,,Erfiðleikar fyrirtækjanna eru miklir. Rekstrarvandinn í sjávarútveginum er mikill. Hættan á atvinnuleysi er vissulega svo mikil að grípa þarf til ráðstafana.`` En ríkisstjórnin grípur til sértækra ráðstafana. Hún grípur ekki til almennra reglna. Hún fer inn á þá braut sem Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. hafa gagnrýnt hvað harðast hjá fyrri ríkisstjórn. Og auðvitað væri hæstv. forsrh. maður að meiri ef hann viðurkenndi stefnubreytinguna. Hún er svo augljós að æðsti embættismaður hans á sviði efnahagsmála neyðist til þess að vekja athygli þjóðarinnar á henni. Og það er auðvitað mjög óvenjulegt að forstjóri Þjóðhagsstofnunar skuli ganga fram með þessum hætti til þess að lýsa í reynd eðli þess sem hæstv. ríkisstjórn er að gera.
    Það munu ærið mörg fyrirtæki í sjávarútvegi á næstu mánuðum í engu njóta þeirra sértæku aðgerða sem hér er verið að beita sér fyrir. Það er líka ljóst að vegna þessara sértæku aðgerða verður Verðjöfnunarsjóðurinn tómur í haust ef hugsanlega kemur til verðfalls. Við höfum hins vegar ákveðið í stjórnarandstöðunni að styðja þetta frv. Við erum sjálfum okkur samkvæm. Við erum ekki að hlaupa frá einni stefnu til annarrar. Við fylgjum hér í dag svipaðri afstöðu og við gerðum á undanförnum árum þegar við fórum í björgunarleiðangur fyrir sjávarútveginn eftir afleiðingarnar af stjórnarsetu Sjálfstfl. En það er í þessu efni eins og öðrum frumvörpum hér sem Sjálfstfl. og ríkisstjórnin breytir um stefnu.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvort ekki hefði verið hreinlegra í ljósi þess hve rækilega hann boðaði sl. sumar, í haust og fram eftir vetri þá stefnu að hér ætti eingöngu og alfarið að beita almennum aðgerðum, að koma til þings og þjóðar og lýsa yfir stefnubreytingunni sem tvímælalaust felst í þessu frv. og reyndar einnig í lánalengingunni í Atvinnutryggingarsjóði. Við hefðum talið það skynsamlegra upp á alla umræðu í landinu. En í tilefni af viðtali við forstjóra Þjóðhagsstofnunar vildi ég hér við 3. umr. óska eftir svörum frá hæstv. forsrh. um þetta efni.