Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:01:49 (7053)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það þjónar auðvitað ekki miklum tilgangi í málefnalegri umræðu að halda orðaskaki af þessu tagi áfram. Hitt er ljóst að því hefur aldrei verið haldið fram af nokkrum manni að stofnun Verðjöfnunarsjóðsins hafi verið sértæk aðgerð og útgreiðsla úr honum á grundvelli inngreiðslna einstakra fyrirtækja getur ekki talist það heldur. Á hinn bógin var bent á það, þegar stofnað var til Atvinnutryggingarsjóðsins á sínum tíma, að ólíklegt væri að fyrirtækin gætu staðið undir afborgunum og vöxtum á þeim greiðslutíma sem þar var ráð fyrir gert. Nú hefur afborgunum verið frestað og það hefur einfaldlega komið á daginn sem sagt var á þeim tíma að líklega mundi gerast. Núv. ríkisstjórn hefur brugðist við því eins og nauðsyn bar til í þágu þessarar atvinnugreinar.