Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:02:58 (7054)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. um að það þjónar ekki miklum tilgangi að halda þessum umræðum áfram vegna þess að niðurstaðan er alveg skýr, hún liggur ljós fyrir. Ég þarf ekki að gera annað í ræðustólnum, hæstv. sjútvrh., en að lesa orðréttar tilvitnanir í forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Ég ætla að gera það, með leyfi virðulegs forseta, og það er svar mitt til hæstv. sjútvrh. Hann getur svo komið upp og fordæmt forstjóra Þjóðhagsstofnunar, eins og hann fordæmdi mig, ef hann vill. Svar mitt er orðrétt tilvitnun í viðtal við forstjóra Þjóðhagsstofnunar, æðsta embættismann ríkisstjórnarinnar á sviði efnahagsmála í dag. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sjóðurinn er mikilvægt hagstjórnartæki og því sé nauðsynlegt að hann fái að starfa á grundvelli almennra reglna en ekki pólitískra ákvarðana. Sjávarútvegurinn á við mikla erfiðleika að etja. Engu að síður er afar mikilvægt að þeir sjóðir sem ætlað er að jafna sveiflur í greininni starfi á óháðum grundvelli. Efnislega þurfa þeir að starfa eins í uppsveiflu og niðursveiflu og fara eftir sömu grundvallarreglum.`` Það er kjarni málsins, hæstv. sjútvrh., eins og forstjóri Þjóðhagsstofninunar segir hér. Sjóðurinn starfaði eftir ákveðnum, almennum reglum í uppsveiflu. Svo er reglunum breytt þannig að hann starfar eftir öðrum reglum í niðursveiflu.