Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:06:26 (7056)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst þetta nokkuð sérkennileg umræða. Hvað eiga menn við með sértækum aðgerðum? Var það sértæk aðgerð að fara í almenna skuldbreytingu hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum í landinu? Það var að sjálfsögðu almenn aðgerð og er almenn aðgerð svo lengi sem einstökum fyrirtækjum er ekki mismunað. Hæstv. ríkisstjórn hefur haldið því fram að hér hafi verið um sértækar aðgerðir að ræða gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það hefur aldrei verið nefnt eitt einasta fyrirtæki sem getur kvartað undan því að það hafi verið meðhöndlað eftir öðrum reglum en önnur fyrirtæki. Það sama á við í þessu tilviki. Hér er verið að grípa til almennra aðgerða vegna þess að það er ekki verið að mismuna fyrirtækjunum. Ef menn vilja túlka orðið sértækt með þeim hætti að það sé verið að grípa til sérstakra ráðstafana vegna ófyrirsjáanlegra utanaðkomandi aðstæðna er þetta sértæk aðgerð með sama hætti og hin almenna skuldbreyting á sínum tíma var sértæk aðgerð í þeim skilningi.
    Ég tel að það hafi verið rétt að bregðast við aðstæðum á sínum tíma með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs, á sama hátt og ég tel rétt að bregðast við þeim aðstæðum, sem nú eru komnar upp, sem enginn gat séð fyrir. Hins vegar var tekin um það pólitísk ákvörðun á sínum tíma, þegar Atvinnutryggingarsjóðurinn var settur á stofn, að setja jafnframt Verðjöfnunarsjóðinn á stofn til að gera það líklegra að sjávarútvegurinn gæti staðið undir þeim skuldbindingum. Er það ekki líka komið í ljós að með því að taka þá ákvörðun var það gert mögulegra að sjávarútvegurinn gæti staðið undir sínum skuldbreytingum? En það gat enginn séð fyrir þau atvik sem nú eru komin upp.