Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:08:56 (7057)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til málsins eftir að það er búið að hljóta meðhöndlun í nefnd. Ég gerði grein fyrir því við framlagningu málsins að ég væri hlynntur því að gripið yrði til aðgerða af þessu tagi en nú hefur málið fengið meðhöndlun í nefnd og ég vil í framhaldi af því segja fáein orð. Það hefur ýmislegt komið fram sem mér og ýmsum öðrum var ekki kunnugt um og ég vil nefna örfá atriði.
    Í fyrsta lagi fengum við á fund nefndarinnar aðila sem eiga hlut að máli og þeirra afstaða kom í ljós. Hún var með blönduðum hætti. Það voru meðmæli fjölmargra aðila sem eiga hlut að rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna. En það voru líka mótmæli og aðfinnslur frá hendi annarra aðila. Meðhöndlun málsins hefur sannfært mig um að þessi sjóður hefur því miður ekki verið sem skyldi frá upphafi. Hann hefði

þurft að vera byggður upp öðruvísi, hann hefði þurft að hafa sveigjanlegra hlutverk og t.d. hefði ekki átt að hafa sjómenn inni í honum. Að vísu er rétt að taka fram að eingöngu er um að ræða mjög takmarkaðan hluta sjómannastéttarinnar sem á hlut að máli, þ.e. þá sjómenn sem taka aflahlut eftir að afli hefur verið seldur beint á erlendum mörkuðum frá skipum þeirra og þar er nánast eingöngu um að ræða ísfisktogarana og frystiskipin. Ég tel að við endurskoðun þessara mála eigi að finna leið til þess að hafa sjómenn algerlega utan við það sveiflujöfnunarkerfi sem verður við lýði. En ég tel líka að eigi sveiflujöfnunarkerfið að standa undir nafni og koma að gagni þá verði kerfið auðvitað að taka til aðstæðna eins og við erum nú í. Ég tel reyndar að kostnaðarhækkanir eigi líka að koma inn í myndina. Engar tryggingar eru fyrir því að ekki komi ný olíukreppa eða einhverjar mjög alvarlegar kostnaðarhækkanir yfir útgerðina. Hvað sem menn hafa hugsað í upphafi í sambandi við stofnun þessa sjóðs þá hefur komið í ljós að aðstæður hafa myndast sem hafa ekki verið minna knýjandi en þó að verðfall hafi orðið á afurðunum. Það er einmitt þess vegna sem við stöndum í þessum sporum í dag og ég hef ekki hvikað frá stuðningi mínum við málið þrátt fyrir þær upplýsingar, mótmæli og aðfinnslur sem við höfum fengið að heyra frá aðilum sem eiga hlut að máli. T.d. hafa forstöðumenn eða foringjar launþegasamtakanna, sem hafa mælt almennt gegn þessari breytingu og bent á að þau hafi ekki fengið kauphækkanir sem þau hefðu átt að fá, gagnrýnt þetta. Ég tel að aðstæðurnar, sem hafa myndast núna, séu þannig alveg sambærilegar við þær aðstæður sem launþegasamtökin voru búin að samþykkja á sínum tíma að ættu að vera fyrir hendi. Launþegasamtökin geta því reiknað sér þetta á sama hátt til tekna í dag og ef verðfall hefði komið og ég sé ekki að launþegasamtökin hefðu nokkurn tíma náð til baka því sem þau gáfu eftir í þeim samningum sem umræddir voru með öðrum hætti en þeim óbeina hætti sem við erum að tala um, þ.e. annaðhvort í gegnum breytingu á sjóðnum eða með því að bíða eftir því að greitt yrði út úr honum vegna verðfalls. En áhrifin hefðu að mínu viti orðið nákvæmlega þau sömu.
    Ég vil svo taka sérstaklega fram að ég tel að ekki sé búið að skapa útgerðinni rekstrargrundvöll með þessum aðgerðum. En þessi aðgerð gefur útgerðinni svigrúm og veitir henni dálítinn biðtíma og á meðan hljóta allir aðilar og einkum Alþingi að ætlast til þess að hæstv. ríkisstjórn undirbúi tillögur og geri ráðstafanir sem verði til þess að rekstrargrundvöllur verði öruggur undir þessum höfuðatvinnuvegi okkar landsmanna. Ég verð að segja það alveg eins og er að þar eru náttúrlega efst á blaði vaxtamálin. Mér finnst ganga óskaplega hægt að lækka vextina sem eru í okurhæðum og hafa verið lengi. Ég er sannfærður um að allt atvinnulíf í landinu verður fyrir miklum skakkaföllum ef ekki verður snúið af þeirri braut. Eigið fé í fyrirtækjum landsmanna hefur verið að brenna upp frá því á árinu 1980 og það er enn af því. Ef við snúum ekki af þessari braut, sem við höfum verið að feta okkur í vaxtaokrinu, þá mun mjög illa fara. Það mun verða vaxandi atvinnuleysi þangað til mönnum hefur tekist að ná utan um þetta vandamál.
    Ég vil svo segja að lokum að ég gagnrýni ríkisstjórnina og hæstv. sjútvrh. fyrir að koma ekki með þetta mál fyrr inn í þingið. Það getur ekki verið að það hafi ekki verið til umræðu í allan vetur og ég tel að líkur séu til þess að ríkisstjórnin hafi hreinlega ekki þorað að leggja þetta mál fram og verið hætt við það því að það er a.m.k. mjög ótrúlegt að hún hafi beðið þess að nánast enginn tími væri til umfjöllunar um málið á þinginu með að leggja það fram. Ég held að hún hafi hreinlega öðlast kjark eins og kom fram við 1. umr. málsins vegna þess að stjórnarandstaðan lét vita af því að hún væri tilbúin að taka ábyrgð á þessu máli með ríkisstjórninni. Ég tel að það hafi verið rétt skref af hendi stjórnarandstöðunnar og ég mun styðja þetta mál.