Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 13:29:17 (7060)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Eins og menn rekur eflaust minni til er hér á ferðinni gamall kunnungi frá því fyrir páska en á það var lögð mikil áhersla í lok mars sl. að utanrmn. og Alþingi afgreiddu þennan fríverslunarsamning milli ríkja EFTA og Tyrklands í hendingskasti í lok mars og byrjun apríl. Talað var um það m.a. að mjög nauðsynlegt væri að Alþingi staðfesti samninginn fyrir 10. apríl og í allra síðasta lagi fyrir páska áður en Alþingi færi í páskafrí. Ef þetta yrði ekki gert þá mátti helst skilja á mönnum að mikil óáran myndi dynja yfir okkur og við lenda í vondum málum út í Evrópu og meðal samstarfsaðila okkar í EFTA.
    Þetta mátti m.a. skilja af máli hæstv. utanrrh. í utanrmn. en þangað kom líka bréf frá fastanefnd Íslands í EFTA og var það bréf undirritað af Kjartani Jóhannssyni og var stílað til utanrrn. og lagt fram í utanrmn. Í þessu bréfi, sem birt er sem fylgiskjal með nál. minni hlutans, segir, með leyfi forseta:
    ,,Tyrkland ásamt öðrum EFTA-ríkjum en Íslandi og Austurríki hafa staðfest ofangreindan samning [þ.e. þennan fríverslunarsamning]. Fulltrúar þessara ríkja komu saman til óformlegs fundar í dag til að ræða gildistöku samningsins. Ákveðið var að fulltrúar þeirra ríkja, sem staðfest hafa samninginn, komi til fundar 10. þ.m. í samræmi við 34. gr. 2. mgr. samningsins og ákveði að samningurinn taki gildi 17. þ.m., nema varðandi Sviss 1. þ.m. Ástæða þess að ekki var tekin formleg ákvörðun um gildistökuna í dag var að rétt þótti að gefa Íslandi og Noregi tækifæri til að hafa sama gildistökudag og Finnland og Svíþjóð. Noregur hefur staðfest samninginn á Stórþinginu en þarf nokkra daga til að ganga formlega frá staðfestingarskjalinu.
    Það væri mjög miður ef Ísland gæti ekki staðfest samninginn fyrir 10. þ.m. og haft sama gildistökudag og hin Norðurlöndin í EFTA. Gæti þetta haft þær afleiðingar að samstaða EFTA-ríkjanna með kröfu Íslands um að allur fiskur falli undir fríverslunarsamninga, sem EFTA stendur að, mundi bresta. Slík krafa náðist í gegn vegna samstöðu EFTA-ríkjanna gagnvart Tyrklandi og Tékkóslóvakíu og næst vonandi gagnvart Póllandi og Ungverjalandi.``
    Með öðrum orðum var því haldið fram fullum fetum í utanrmn. að fríverslun með fisk við ríki utan EFTA og sem EFTA stæði í fríverslunarsamningum við væri í hættu. Ef við ekki gerðum þennan samning og staðfestum á sama tíma og önnur aðildarríki EFTA væri ekki víst að þessi krafa næðist fram í fleiri samningum.
    Það má því segja að okkur hafi pent verið tilkynnt að við værum í gíslingu hjá fiskinum í sjónum. Þetta er auðvitað mjög furðuleg hótun sem kemur þarna fram hjá fastanefnd Íslands hjá EFTA og væri satt að segja harla ómerkileg af hálfu samstarfsaðila okkar í EFTA ef rétt væri.
    Ég get ekki betur séð en ráðherra sé að ganga úr salnum og ég sé ekki að hann geti stundað tvo fundi í einu svo mér þætti vænt um að hann gerði það upp við sig á hvorum staðnum hann ætlar að vera. ( Utanrrh.: Hjá þér.) Fínt, þá held ég áfram.
    Ég dreg þessa staðhæfingu reyndar mjög í efa sem kom fram í bréfi fastanefndarinnar enda hefur auðvitað komið á daginn að það hefur ekkert gerst í þessum málum annað en það að hin aðildarríki EFTA hafa öll staðfest þennan fríverslunarsamning fyrir sitt leyti nema Austurríki og Ísland. Þess verður ekki vart að það hafi dregið nokkurn dilk á eftir sér enda ekki við því að búast þar sem þarna er, þó að EFTA standi sameiginlega að samningaviðræðunum um þennan fríverslunarsamning, í raun um sjö tvíhliða samninga að ræða, þ.e. það er tvíhliðasamningur á milli Svíþjóðar og Tyrklands, milli Noregs og Tyrklands, milli Austurríkis og Tyrklands, Sviss og Tyrklands o.s.frv. Það eina sem gerst hefur er að þau ríki sem eru ekki búin að samþykkja hann á sínum þjóðþingum hafa ekki gert þennan samning, hin eru komin með staðfesta samninga upp í hendurnar.
    Þetta er auðvitað samkvæmt eðli EFTA vegna þess að EFTA hefur ekkert samningsumboð fyrir hönd sinna aðildarríkja. Aðildarríki EFTA hafa ekki framselt neitt vald til EFTA. Þarna er um samflot sjálfstæðra þjóðríkja að ræða en ekki samruna. Því er auðvitað um sjö tvíhliða samninga að ræða og engin ástæða til að óttast afleiðingar þess að við gerum ekki nákvæmlega eins og hinir enda væri það ekki mjög heiðarlegt samstarf sem þá væri á ferðinni.
    Ástæðan fyrir þessu hiki hjá minni hluta utanrmn. og þingmönnum ýmsum, sem tóku til máls þegar samningurinn var kynntur í fyrsta sinn, er auðvitað árásir sem áttu sér stað gegn Kúrdum einmitt um það leyti sem samningurinn var hér í umfjöllun. Þá réðust tyrkneskar hersveitir á byggðir Kúrda, bæði úr lofti og landi, með mjög öflugum hætti. Þetta gerðist á sama tíma og EFTA-ríkin voru að ganga frá fríverslunarsamningi við Tyrki.
    Þetta var önnur ástæða hiksins. Hin ástæðan er bágt ástand mannréttindamála í Tyrklandi og það ástand kemur ekki síst niður á þessu sama fólki, þ.e. Kúrdum. Amnesty International tók saman skýrslu og gerir það árlega um mannréttindabrot í heiminum og Tyrkland fær ævinlega nokkuð langan kafla í þeirri skýrslu vegna þess að Tyrkir hafa um langt árabil stundað gróf mannréttindabrot. Það má geta þess að í þessari skýrslu segir m.a. í inngangi að það séu þúsundir pólitískra fanga í Tyrklandi og mikill meiri hluti þeirra séu samviskufangar. Þá segir að þar séu pyndingar útbreiddar og notaðar kerfisbundið og oft og tíðum leiði þær til dauða þeirra sem pyndaðir eru.
    Þá segir að í tyrkneskum fangelsum hafi um þessi áramót, líklega áramótin 1990--1991, verið 315 fangar sem búið hafi verið að dæma til dauða og hafi nýtt sér alla möguleika til áfrýjunar. Þ.e. þeir áttu ekki fleiri áfrýjunarleiðir í dómskerfinu en þeir höfðu nýtt. Það voru 315 manns sem búið var að dæma til dauða og að öllum líkindum beið þeirra ekkert annað en að þeim dómi yrði fullnægt.
    Mannréttindamál eru í miklu skötulíki í Tyrklandi og hafa verið um langt árabil. Að vísu eru komnir nýir menn til valda, það eru ekki þeir sömu nú og voru á árinu 1990, og hafa menn ákveðnar vonir um að einhver breyting verði á. Því miður virðist það ganga mjög hægt og mannréttindabrot eru enn mjög umfangsmikil í landinu.
    Menn hafa gjarnan sagt: Við verslum og höfum um langt árabil stundað alls kyns viðskipti við aðila sem hafa stundað mannréttindabrot. Þar hefur m.a. verið rætt um fyrrverandi ríki Sovétríkjanna, að Ísland hafi átt við margháttuð viðskipti við Sovétríkin þrátt fyrir það að mönnum væri kunnugt um margvísleg mannréttindabrot þar. Það er vissulega rétt. Hins vegar stöndum við í þeim sporum núna að við erum að ræða við Tyrki og öll EFTA-ríkin eru að ræða við Tyrki um að gera við þá fríverslunarsamning. Það er auðvitað rakið að nýta það tækifæri til að taka upp þessi mál við tyrknesk stjórnvöld. Ég sé ekkert rangt við það að tengja saman viðskipti og umræður um mannréttindamál vegna þess að það ætti einmitt að nýta viðskiptin og viðskiptasamninga mannréttindamálum til framdráttar.
    Það má geta þess, hvað Tyrkland varðar, að Tyrkland er Evrópuríki. Það er Evrópuríki sem leitar mjög stíft eftir því að öðlast viðurkenningu í samfélagi Evrópuþjóða. Við ættum auðvitað að nýta það líka að þeir sækjast eftir þessu og gera kröfur til þeirra í mannréttindamálum. Það er í raun siðferðileg skylda okkar. Þegar ég segi ,,okkar`` þá er ég að tala um ríki Evrópu, Ísland sem eitt af ríkjum Evrópu, og auðvitað hefðu EFTA-ríkin átt að gera mjög skýrar kröfur til Tyrkja í þessu sambandi.
    Málefni Kúrda hafa einmitt blandast mjög inn í þessi mál og eins og ég sagði þá hafa þeir mátt kenna á mannréttindabrotum öðrum fremur en þó er það bara ein hlið á málinu vegna þess að málefni Kúrda er auðvitað miklu víðtækara en svo að það einskorðist við Tyrkland. Kúrdar búa þarna í fleiri ríkjum og verða að sæta þar ýmiss konar harðræði og mannréttindabrotum. Eins og hefur komið fram í fréttum að undanförnu hafa yfirvöld, m.a. í Írak, nánast verið með það á prjónunum að útrýma þessari þjóð, verið með þjóðarmorð á prjónunum. Það mál er miklu víðtækara en svo að það nái einungis til Tyrklands og þarf auðvitað að skoða það í víðara samhengi. Það dugir ekki eitt og sér, finnst mér, að gera einhverja samþykkt í utanrmn. um málefni Kúrda til að þessi fríverslunarsamningur renni ofan í mann eins og smér. Ekki vildi ég standa að þeirri bókun, sem þar var lögð fram, þó að hún sé svo sem góðra gjalda verð út af fyrir sig.
    Þessi orð mín eru til þess að fylgja úr hlaði nál. minni hluta utanrmn. sem er birt á þskj. 809 og er svohljóðandi:
    ,,Minni hluti nefndarinnar hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um tillöguna og þeim umræðum sem fylgdu í kjölfar hennar í nefndinni um mannréttindabrot stjórnvalda í Tyrklandi og árásir þeirra á byggðir Kúrda. Er minni hlutinn þeirrar skoðunar að ekki hafi fengist viðunandi niðurstaða í málið innan nefndarinnar og flytur því tillögu á sérstöku þingskjali um að íslensk stjórnvöld beiti sér með afgerandi hætti til stuðnings Kúrdum í deilum þeirra við tyrknesk stjórnvöld.
    Minni hlutinn bendir á að Íslendingar hafa verið í fararbroddi meðal þjóða heims í stuðningi sínum við sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu smáþjóða og þjóðabrota. Er í því sambandi skemmst að minnast þess frumkvæðis sem Alþingi átti í desember á síðasta ári þegar það samþykkti stuðningsyfirlýsingu við sjálfstæðisbaráttu þjóðanna við Eystrasalt og sem síðar var fylgt eftir með eftirminnilegum hætti þegar Íslendingar, fyrstir þjóða heims, viðurkenndu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáens. Þá hafa íslensk stjórnvöld sýnt þeim þjóðum, sem byggðu ríki Júgóslavíu, stuðning sinn í verki með því að viðurkenna sjálfstæði þeirra.
    Með þessum hætti hafa Íslendingar mótað sér sjálfstæða stefnu gagnvart smáþjóðum sem byggir á siðferðilegum grunni og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Í þessari stefnu þarf að vera samsvörun og samfella og þar af leiðir að Íslendingar hljóta að nota það tækifæri sem gefst þegar fyrir dyrum stendur fríverslunarsamningur við Tyrkland og gera það sem í þeirra valdi stendur til stuðnings Kúrdum sem eiga við ofurefli að etja á mörgum vígstöðvum.
    Það er alkunna að víðtæk mannréttindabrot hafa lengi átt sér stað í Tyrklandi og eru það ekki síst Kúrdar sem fyrir þeim verða. Þá hafa byggðir þeirra orðið fyrir árásum tyrkneskra hersveita, nú síðast í mars sl. Þá hafa borist fréttir um að flugher Tyrkja hafi gert árásir á byggðir Kúrda í Norður-Írak. Liggur nokkuð beint við að líta svo á að gagnrýnislaus undirritun fríverslunarsamnings á sama tíma og þessir atburðir eiga sér stað sé nokkurs konar syndakvittun fyrir tyrknesk stjórnvöld.
    Þá má benda á að sá fríverslunarsamningur, sem hér er til afgreiðslu, er í raun samningur milli einstakra aðildarríkja EFTA og Tyrklands og mun öðlast gildi milli þeirra ríkja sem hann undirrita þó að önnur haldi að sér höndum. Það er því vægast sagt óeðlilegt ef það er rétt sem fram kemur í bréfi frá fastanefnd Íslands hjá EFTA til utanríkisráðuneytisins dags. 2. apríl sl. að staðfesti Ísland ekki samninginn geti það ,,haft þær afleiðingar að samstaða EFTA-ríkjanna með kröfu Íslands um að allur fiskur falli undir fríverslunarsamninga, sem EFTA stendur að, mundi bresta``, sbr. fylgiskjal. Slíkar hótanir eru þá slæmur fyrirboði um það sem koma skal ef EES verður að veruleika og EFTA-ríkin eiga að tala þar einum rómi.
    Í ljósi þess sem að framan er sagt leggur minni hluti nefndarinnar til að tillagan verði afgreidd með rökstuddri dagskrártillögu sem lögð er fram á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta nál. skrifa Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ólafur Ragnar Grímsson.