Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 15:06:00 (7066)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við eigum það sameiginlegt, ég og hv. 5. þm. Vestf., að vera umhugað um þennan málaflokk. Mér er það líka og hef löngum unnið við hann og þykist líka hafa þekkingu á þeim málum sem þarna koma fyrir þótt ég muni seint halda því fram að ég sé alvitur í þeim efnum. En vil gjarnan leggja mitt af mörkum.
    Ég held að ég sé nokkuð seinþreytt til vandræða í samskiptum en ég hef óskað eftir því við fulltrúa Alþb. í nefndinni að hann snúi sér til formanns síns ef eitthvað það kemur upp sem honum finnst ámælisvert vegna þess að þegar ég lít til baka yfir þessi tæpu þrjú ár sem ég hef setið á Alþingi minnist ég þess ekki að hafa orðið vitni að því að nefndarfulltrúi velji að fara fyrst í ræðustól til að kvarta undan formanni sínum og koma með ámæli áður en hann nefnir það við formanninn sjálfan. Þetta hefur nú gerst í þrígang og í tvö fyrstu skiptin leiddi ég það hjá mér. Í þriðja skiptið nefndi ég það í ræðu minni og, að því er ég held, mjög hógværlega, leiðrétti það að formaður félmn. hefði ekki synjað hagsmunasamtökum um beiðni þeirra að koma á fund nefndarinnar. Ég ætla alls ekki þar með að leita að sökudólgi í slíku efni eða afsaka mig gagnvart einu eða neinu en mér fannst sanngjarnt að leiðrétta þetta. En af því að nefndarmaður minn gerði þetta að einhverju máli vil ég að það komi fram að ég var erlendis á vegum Alþingis. Einhver af fulltrúum þessara hópa hringdi hingað og reyndi að ná í formann félmn. sem var erlendis, kom því á framfæri við nefndadeild að þeim væri mjög umhugað um að koma þessu máli fram og sýna stuðning við það og helst að fá að koma á fund nefndar. Þá var búið að setja niður dagskrá þess fundar sem átti að vera strax morguninn eftir að ég kæmi heim og þeim var tjáð það. Þau sögðu sjálf í morgun að þau hefðu ekki fylgt þessu frekar eftir.
    Ég ætla ekki að hafa frekar orð um þetta og ég vil svo gjarnan hafa gott samstarf við þá sem ég starfa með. En ég ætla aðeins að hafa orð um það sem hér hefur komið fram, þ.e. af hverju var ekki talað við þessi hagsmunasamtök eða þau boðuð. Það vill nú þannig til að þetta fólk smíðaði frv., var í þeirri nefnd sem smíðaði frv., og þetta fólk sendi inn umsagnir sem farið var mjög rækilega yfir. Nefndum Alþingis er ekki ætlaður svo ýkja mikill tími að þær fari kannski í þriðja sinn yfir málin með sömu aðilum þó það sé fyllilega velkomið ef eftir því er leitað. Ekki hefur verið neitað um það. (Forseti hringir.) Forseti, ég ætlaði að koma hérna með efnislegt andsvar til viðbótar en ég verð að láta það bíða.