Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 15:13:12 (7067)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég gagnrýni það hiklaust ef ástæða er til þegar formanni eða nefnd er ekki stýrt með þeim hætti sem ég er sáttur við. Ég er ekki sáttur við það að hagsmunasamtök biðji um fund með félmn. og fái hann ekki. Ég er heldur ekki sáttur við það að ég eða nefndarmenn fáum ekki að vita af því að þau hafi beðið um fund. Formaður nefndarinnar ber ábyrgð á störfum nefndarinnar og auðvitað hlýtur formaður nefndarinnar að fá fyrstur manna að vita af þessari ósk. Formaðurinn gat ekkert um það við nefndarmenn né sýndi nein viðbrögð gagnvart þeim aðilum sem óskuðu eftir fundinum. Það er náttúrlega eðlilegast að snúa sér beint til Alþingis. Ég sé ekki tilganginn í að snúa sér til formannsins sem ekki hefst til verka.
    Ég vil segja það líka að ég hef áður gagnrýnt formanninn út af öðru máli og það var það sem ég hef ekki heyrt fordæmi fyrir áður, að mál er tekið út úr nefnd og þá lítur það út með þeim hætti sem var frá gengið en svo breytist það eftir að það er tekið út úr nefnd. Tillögurnar sem ég var að taka afstöðu til litu að nokkru leyti öðruvísi út þegar þær komu hingað á borð þingmanna en þegar mér voru sýndar þær. Ég fer hiklaust til forseta Alþingis sem er minn forseti og á að gæta minna hagsmuna og ég vænti þess að formaðurinn taki mið af ábendingum forseta hvað það varðar.
    Ég vil segja varðandi það sem kom fram hjá formanni nefndarinnar að það væri ekki hægt að tala við svo marga aðila sem að þessu máli sneru, að ég held ég fari nokkuð nærri um það að í frv. um Brunamálastofnun Íslands hafi verið talað við fleiri en í sambandi við þetta mál, fyrr en í morgun þegar það er gert að mínu frumkvæði.