Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 15:28:52 (7071)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Lítið frammíkall áðan frá hv. 3. þm. Austurl. varpaði nýju en réttu ljósi á stöðu þessa máls. Hv. þm. kallaði fram í og spurði: Er málið ekki orðið nægilega skýrt? Ræðumaður, hv. 5. þm. Vestf., sagði: Jú, það er að skýrast. En bætti svo við eitthvað á þá leið að það gæti alltaf orðið skýrara.
    Ég held að þetta sé einmitt kjarni málsins. Þetta frv. og afstaða manna til þess er að verða mjög skýrt fyrir okkur sem höfum fylgst með umræðunum og fylgst með málinu frá upphafi. Staðan er einfaldlega sú að í dag ríkir almennur fögnuður vegna frv., almenn samstaða og almennur stuðningur við það, nema ef vera skyldi hjá Alþb. sem nú mun þó hafa tekið þá ákvörðun að styðja frv. þrátt fyrir það að þingmaður þess hafi í alllöngu máli fundið því ærið margt til foráttu og komist m.a. þannig að orði í ræðu í

gær að frv. sjálft væri í tæknilegu uppnámi. Þá var verið að skírskota til þess að einhverjir liðir væru þannig úr garði gerðir eftir 2. umr. að málið stangaðist allt á og það þyrfti að gera á því verulega uppstokkun, eftir því sem manni skildist á sjálfri uppbyggingu frv. Þegar við berjum síðan augum álit félmn. sem bæði minni hlutinn og meiri hlutinn, sem höfðu myndast í nefndinni, standa að kemur í ljós að um er að ræða tvö atriði í öllu þessu mikla slengi sem sem brtt. voru. Ég tel að hafi einhvern tímann verið skotið ærlega yfir markið í orðaleppahætti hafi það gerst í gær þegar hv. 9. þm. Reykv. komst þannig að orði að þetta frv. væri í einhverju tæknilegu uppnámi. Það komu að vísu einir tveir tæknilegir annmarkar í ljós sem hægt var að leiðrétta og kalla auðvitað ekki á neina pólitíska umræðu. Að öðru leyti var þetta mál þess eðlis að allt tal um tæknilegt uppnám frv. var auðvitað út í hött.    
    Sannleikurinn er sá að ekki þarf að undrast þó að það hafi tekist að ná um þetta mál bærilegri samstöðu vegna þess að málið hefur verið mjög lengi í undirbúningi. Ekki nóg með það. Það hafa mjög margir komið að þessu máli. Nefnd sem hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði tók til starfa þann 5. des. 1989. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar mjög breiðs hóps sem síðan skrifuðu upp á frv. Og það er rétt að nefna það alveg sérstaklega að meðal þeirra sem áttu aðild að samningu frv. var fulltrúi tilnefndur af þingflokki Alþb. Ég tel ástæðu til að minna á þetta til að vekja athygli á því að í undirbúningi frv. var kostað kapps um að leita mjög víða sjónarmiða.
    Engu að síður var það þannig að þegar frv. kom inn í þingið kom í ljós að um það voru skiptar skoðanir um einstök atriði. Málið fékk nokkuð ítarlega umfjöllun við 1. umr., var síðan sent út til, að ég hygg, 72 umsagnaraðila. Við vitum það öll sem þekkjum til í innviðum í störfum þingsins að það er ekki óalgengt, þegar verið að senda út svona umsagnir, að það berist ekki nema hluti til baka sem endurspeglar á vissan hátt áhuga manna á viðkomandi máli. En í þessu tilviki gerðist það eftir þeim upplýsingum, sem ég hef úr nefndadeild Alþingis, að af þessum 72, sem fengu umsagnirnar í hendur, sendu 69 svör. Flest þessara svara voru ítarleg og vel unnin og það var ljóst að menn höfðu kafað ofan í frv. og reynt að gera sem besta grein fyrir fyrir eðli málsins.
    Síðan hefur þetta mál verið rætt í félmn., það hefur verið rætt á fundum og menn hafa vitaskuld nýtt tímann til þess að fara ofan í það á milli funda eins og gengur og gerist með mál af þessu tagi. Ég heyri m.a. af máli hv. 5. þm. Vestf. að hann hefur tekið þann sama kost og ég að reyna að leita sér upplýsinga sem víðast með viðræðum við menn til þess að komast að því sem menn telja skynsamlegast í þessum afar mikilvæga málaflokki.
    Málið hefur blasað þannig við mér að í þeim umsögnum, sem komu fram, bæði munnlega í viðtölum mínum við fulltrúa þeirra aðila sem best þekkja til að mínu mati og í þeim athugasemdum sem bárust, að rauði þráðurinn í athugasemdunum var sá að helst væri aðfinnsluvert við frv. að þar gætti of mikillar miðstýringaráráttu. Sú vinna sem hefur farið fram og þær brtt. sem hafa verið lagðar fram af meiri hluta félmn. miða einmitt að því að draga úr miðstýringunni og efla sjálfsforræðið úti í héruðunum. Miðað við allt tel ég að hér hefi bærilega tekist til og ég er a.m.k. sáttur við þetta frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. og ég stend vitaskuld að þeim brtt. sem félmn. leggur fram til afgreiðslu við 3. umr. málsins.
    Vegna þeirra orða hv. 5. þm. Vestf. að ekki hafi verið orðið við því að kalla til fulltrúa hagsmunaaðila til viðræðna við nefndina þá held ég að það mál hafi verið að fullu upplýst, en þó vil ég segja eftirfarandi:
    Hjá formanni nefndarinnar kom mjög fljótlega fram að hún óskaði eftir því við okkur nefndarmenn að við segðum til um það hvort við vildum fá einhverja tiltekna menn á fund til nefndarinnar til þess að ræða við þá um tiltekin afmörkuð mál. Ég lagði áherslu á nokkur nöfn í þessu sambandi, t.d. þann mann sem er formaður nefndar er endurskoðar nú starfsemi sveitarfélaganna og ég hygg að flestir nefndarmenn hafi bætt einhverju í þetta púkk og niðurstaðan var sú að allnokkrir komu til viðræðna við nefndina. Þegar nefndir vísa frá sér til skriflegrar umsagnar er það auðvitað liður í því að auðvelda starfið og við vitum að það er býsna þægilegt við endurskoðun frumvarpa og yfirferð frumvarpa ef við höfum í höndunum skrifað plagg sem við getum byggt á. Ég tel að í sjálfu sér hafi ekki verið ástæða til þess að kalla til svo mjög marga vegna þess að við höfðum undir höndum afar vel unnin álit fjöldamargra vítt og breitt um landið sem ég, eins og ég sagði hér áðan, höfðu greinilega lagt mjög mikla vinnu í þetta mál. Þess vegna fannst mér ekkert óeðlilegt að ekki væri verið að kalla til mjög marga. Út af fyrir sig tek ég undir það og tel að þannig eigi formenn að starfa að þeir taki tillit til þess ef nefndarmenn óska eftir því að á fundi nefndarinnar komi einhverjir tilteknir aðilar. Ég lýsi því hér yfir og tek undir það í máli hv. 5. þm. Vesturl. að ég hef ekki orðið var við annað en að hv. form. félmn. hafi reynt að bregðast afar vel við í þessum efnum og annað kæmi mér a.m.k. afar undarlega fyrir sjónir.
    Í máli hv. 5. þm. Vestf. var nokkuð nefnd staða Tjaldanesheimilisins. Ég vil í þessu sambandi segja um þetta að ekkert er í þessu frv. sem gerir það að verkum að staða Tjaldanesheimilisins eigi að breytast að því leytinu að það færist undir félmrn. Að vísu er greint frá því í einhverri greinargerð að félmrn. og heilbrrn. hafi tekið upp viðræður í þessa veruna. Ég tel nauðsynlegt að fram komi að fulltrúar Tjaldanesheimilisins greindu frá því að þegar heimilið var afhent ríkinu til eignar var það ekki bara þeirra vilji heldur ásetningur þeirra að heimilið heyrði undir heilbrrn. Ég tel nauðsynlegt að þetta komist áfram til hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh. svo að mönnum sé alveg ljóst að þegar heimilið var afhent veðbanda-

og skuldlaust eins og greint var frá í morgun að það var vilji þeirra að þetta yrði með þessum hætti.
    Að lokum ætla ég að segja þetta: Það sem kom auðvitað skýrast fram í morgun í máli hagsmunaaðila var að þeir lýstu yfir miklum stuðningi við frv. Það sem meira er, þeir áréttuðu það og þeir sögðu: Frumvarpið hefur batnað í meðförum þingsins við þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram.
    Ég tel að við, sem höfum verið að vinna að þessu máli, hefðum ekki getað fengið betri umsögn og enn fremur hitt og það finnst mér rétt að komi fram að gefnu tilefni frá því í umræðunum í gær eða í fyrradag, að það var álit þessara aðila, fulltrúa Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og Sjálfsbjargar, að það væri mjög athyglisvert hvað nefndarmenn félmn. hefðu kynnt sér vel og rækilega þetta mál og lagt sig fram um að kynna sér sjónarmið hagsmunaaðila. Ég ítreka þess vegna að ég tel að það væri mjög stórt framfaraspor að þetta frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem liggja fyrir frá félmn.