Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 16:27:26 (7075)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir þau svör sem ég fékk þó þau væru ekki við öllum mínum spurningum. Ég saknaði þess t.d. að fá ekki svar við spurningu minni um Kópavogshæli og framtíðarsýn ráðherrans varðandi þann stað og þroskahefta sem þar dvelja.
    Ég vil einnig upplýsa ráðherra að samkvæmt upplýsingum mínum voru ekki sett sérstök lög um fatlaða í Noregi, heldur sérstök lög um þroskahefta, þannig að þar greinir okkur á og fullyrðing mín stendur. En það sem ég vildi helst gera athugasemdir við eru þjónustugjöldin. Eins og ég skildi hæstv. ráðherra er verið að óska eftir heimild til þjónustugjalda og gjaldtöku til þess að laga ósamræmi vegna umönnunarbóta.
    Fyrir mér er þetta fyrst og fremst prinsippmál. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta verði stórar upphæðir. Þetta er fyrst og fremst prinsippmál, mér finnst alröng stefna að heimila að þjónustugjöld verði tekin fyrir þessa þjónustu. Ef einhverjir fá of mikið þá er bara að laga það og menn verða að lækka þann styrk. Það hlýtur að vera önnur leið en sú að taka þjónustugjöld af fötluðum, ég held það hljóti að vera. Það er fyrst og fremst þetta sem ég vildi á þessari stundu gera athugasemdir við.