Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:19:27 (7083)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls en ég stend að nefndaráliti, sem gerir ráð fyrir því að frv. sem hér er á dagskrá verði samþykkt, ásamt öllum nefndarmönnum, fulltrúum allra flokka, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég átti þess því miður ekki kost, vegna veikinda, að vera viðstaddur umræðuna á laugardaginn, en svo er tækninni fyrir að þakka að ég fylgdist grannt með þeirri umræðu og átti kost á því að fylgjast með því nákvæmlega hvað það var sem menn voru fyrst og fremst að gera athugasemdir við. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi nokkuð ítarlega fram á hvaða talnagrunni nefndin byggði afgreiðslu sína. Síðan er auðvitað rétt, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni og fleirum, að það er auðvitað æskilegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur með hliðsjón af því að bersýnilegt er að Atvinnuleysistryggingasjóður verður tómur þegar líður á árið 1992, þótt um það sé hægt að deila hversu langt þarf að líða á árið áður en sjóðinn fer að skorta fé, hvort það verður ágúst, september eða október. En það er augljós samstaða um að það er í síðasta lagi í októbermánuði, miðað við núverandi forsendur, sem sjóðinn fer að skorta fé.
    Ég held það sé æskilegt, virðulegi forseti, til þess að greiða fyrir þessari umræðu og lendingu í henni að hæstv. fjmrh. komi hér sem fyrst, mér skilst hann sé í húsinu, þannig að við getum farið yfir þennan talnagrunn í sameiningu og áttað okkur á því hvað hér er á ferðinni. Mér er kunnugt um það að hæstv. forseti hefur kallað í fjmrh. og ég ætla að hinkra augnablik eftir því að hann komi í salinn til að geta farið yfir tölurnar og til að glöggva mig á því hvort sá skilningur sem ég hef og nefndin hefur í meginatriðum á stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs er í raun og veru ekki í samræmi við það sem hæstv. fjmrh. telur rétt í þessu efni. Ég get svo sem skotið því að í leiðinni, úr því að hv. þm. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, fór að ræða sérstaklega um frv. um greiðslur úr ríkissjóði að satt að segja á ég ýmislegt ósagt um það mál þegar það kemur hér til meðferðar. Mér finnst það hið athyglisverðasta mál um margt þótt það hafi tekið framförum og breytingum eins og öll frv. hér, eftir því sem þau eru lengur til meðferðar vanda menn sig meira.
    Nú er hæstv. fjmrh. kominn. Það er aðeins spurning um talnagrunn Atvinnuleysistryggingasjóðs í framhaldi af þeim umræðum sem fóru fram um málið sl. laugardag og meðferð málsins á hv. Alþingi í hv. nefnd.
    Ég vil aðeins biðja menn um að staldra við þessar tölur. Það er talið að í fyrsta lagi séu horfur sjóðsins þannig, miðað við spár um atvinnuleysi eins og þær voru fyrir nokkrum vikum, að það þurfi að borga í atvinnuleysisbætur á þessu ári 2,1 milljarð króna, 2.100 millj. kr. Til viðbótar er gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi önnur gjöld upp á 65 millj. kr. og heildarútgjaldaþörf sjóðsins sé nákvæmlega 2 milljarðar 174 millj. kr. miðað við þær atvinnuleysisspár sem menn voru með hérna fyrir nokkru.
    Hvaða peningar eru til upp í þetta? Það eru í fyrsta lagi fjármagnstekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs sem eru 222 millj. kr. Í öðru lagi ýmsar smærri tekjur, sem er ástæðulaust að telja upp í einstökum atriðum, sem eru upp á u.þ.b. 1 millj. kr. og í þriðja lagi framlag ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum sem er 1.280 millj. kr. Auk þess fær sjóðurinn innheimtar afborganir upp á 192 millj. kr. svo samtals hefur sjóðurinn með þessu móti samkvæmt fjárlögum 1.695 millj. kr. Þá vantar sjóðinn, eins og allir sjá, mismuninn á þessum tveimur tölum, 2.174 millj. kr. annars vegar og 1.695 millj. hins vegar, eða 479 millj. kr. miðað við þær atvinnuleysisspár sem menn voru með. Svo hefur það gerst að forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur kynnt aðrar atvinnuleysisspár. Fyrri atvinnuleysisspár byggðu á því að atvinnuleysið yrði 2,6%. Nú eru menn að tala um að það verði nokkru meira og að útgjaldaþörf sjóðsins verði a.m.k. 160 millj. kr. í viðbót við þetta eða um verði að ræða fjárvöntun Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári upp á 639 millj. kr.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort þessar tölur eru ekki réttar miðað við þann skilning sem hann hefur á stöðu sjóðsins og þær upplýsingar sem hann hefur undir höndum.

    Til þess að svara þessum útgjöldum á Atvinnuleysistryggingasjóður auðvitað eignir. Eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs eru 2,2 milljarðar kr. sem skiptast þannig að annars vegar á sjóðurinn skuldabréf hjá Byggingarsjóði ríkisins upp á 1,4 milljarða kr. Í öðru lagi á sjóðurinn skuldabréf hjá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina sem munu vera um 750 millj. kr., þannig að heildareignir sjóðsins eru 2,2 milljarðar kr. Auðvitað mætti hugsa sér að sjóðurinn losaði sig við eitthvað af þessum eignum upp í þann vanda sem hér er um að ræða, 630--640 millj. kr. En sá er vandinn að það er ekki einfalt fyrir sjóðinn að losa sig við þessi skuldabréf. Ef hann færi með þau út á almennan markað eins og staðan er í dag þá er bersýnilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður yrði að sæta verulegum afföllum. Það er ekki skynsamlegt, hvorki frá sjónarmiði ríkissjóðs né frá sjónarmiði Atvinnuleysistryggingasjóðs, að afsetja þessi bréf með þeim hætti.
    Nú er það svo, samkvæmt lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, að ríkissjóður er algjörlega bakábyrgur. Ef Atvinnuleysistryggingasjóð skortir fé ber ríkissjóður alla ábyrgð samkvæmt skýru ákvæði laganna um Atvinnuleysistryggingasjóð frá 1982. Hvað er þá til bragðs annað en það að losa sig við eignir með afföllum sem menn telja ekki skynsamlegt til að mæta þessum 640 millj. kr. sem er veruleg fjárhæð? Hvað er til bragðs? Jú, það eru auðvitað tvær leiðir til í þeim efnum. Önnur er sú að skerða bótaréttinn og það er sú leið sem ríkisstjórnin ætlaði að fara. Hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti því yfir á Alþingi í vetur, ég held fyrir áramót, að það væri ætlunin að skerða bótaréttinn. Nú hefur því hins vegar verið lýst yfir af ríkisstjórninni í tengslum við síðustu kjarasamninga að bótaréttur verði ekki skertur, að atvinnuleysisbætur verði ekki lækkaðar. Fyrst menn segja sem svo að atvinnuleysisbætur verða ekki lækkaðar, bréfin verða ekki seld vegna þess að það er óskynsamleg fjármálaráðstöfun, þá er bara eitt eftir, það er að sækja á ríkissjóð með fjármuni í viðbót. Auðvitað útiloka ég ekki að Atvinnuleysistryggingasjóður losi sig við eitthvað af eignum upp í þennan vanda, ég útiloka það ekki, en það er auðvitað hugsanlegur hlutur. (Gripið fram í.) Eins og komið hefur fyrir, já.
    Spurningin er þá: Hvernig horfir vandinn við innan ársins? Hvenær falla þessar 640 millj. sem greinilega vantar þarna á sjóðinn? Þá horfi ég á dæmið þannig, virðulegi forseti og hæstv. fjmrh.: Sjóðurinn hefur notað á fyrstu fjórum mánuðum ársins 700 millj. kr., eða sexhundruð sjötíu og eitthvað og svo vantar smávegis upp á það að sögn sjóðstjórnarinnar. Ég segi að á fyrstu fjórum mánuðum ársins, frá janúar til apríl, hefur hann notað 700 millj. kr. Segjum að hann noti sömu tölur á næstu fjórum mánuðum, 700 millj. kr. Þá eru komnar þarna 1.400 millj. kr. Hvað hefur sjóðurinn á móti því? Hann hefur 1.400 millj. kr. Hann hefur 1.280 millj. úr ríkissjóði, plús 222 millj. í fjármunatekjur. Nú getur það auðvitað verið að atvinnuleysið verði minna, vonandi verður það minna yfir sumarmánuðina svo það er í raun versta hugsanlega dæmið að sjóðinn skorti fé strax í ágústmánuði og við skulum vona að svo verði.
    Gerum hins vegar ráð fyrir því að þetta verði eitthvað aðeins skárra, þá sýnist mér ljóst að það verði að gera ráðstafanir vegna sjóðsins í allra síðasta lagi frá og með októbermánuði. Annaðhvort að losa um eignir eða kalla inn einhverja peninga úr ríkissjóði.
    Þegar þetta mál kom til umræðu fyrir fáeinum sólarhringum þá nefndi ég þann möguleika hvort ekki væri rétt að flytja frv. til fjáraukalaga af því það eru komnir þannig lagaðir bindindismenn á Alþingi að það má aldrei borga neitt út úr ríkissjóði nema búið sé að stimpla það áður í þessari stofnun og tala ýmsir mikið fyrir þeim sjónarmiðum. Látum það gott heita. Þess vegna dettur mönnum í hug að flytja frv. um fjáraukalög af því það er eiginlega búið að taka um það ákvörðun að fjmrh. eigi bara að vera gjaldkeri, það sé enginn fjmrh. til á Íslandi heldur sé bara gjaldkeri þarna uppi í Arnarhvoli. Þá er hins vegar alveg ljóst að það er enginn vilji til að flytja frv. til fjáraukalaga. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig hvað gerist og þá horfir maður á þær tölur sem ég hef rakið mjög nákvæmlega og yfirlýsingu forsrh. um að staðið verði við lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð eins og gefin hefur verið yfirlýsing um í tengslum við kjarasamningana. Þess vegna sýnist mér að staðan sé þannig að hægt sé að afgreiða þetta mál héðan með hliðsjón af því að sjóðinn fari ekki að skorta fé fyrr en í fyrsta lagi í ágúst en í síðasta lagi í október. Þannig horfir þetta við mér. Ef atvinnuleysisstigið fram í ágúst verður það sama og það var í janúar til apríl, þá er sjóðurinn tómur í ágúst. En auðvitað eru menn að gera sér vonir um að ástandið verði eitthvað aðeins betra yfir sumarið þannig að það verði þá hægt að teygja á þessu og í versta falli væri hægt að losa um eignir sjóðsins að einhverju leyti ef upp kæmi vandi í ágúst eða byrjun september.
    Á þessum talnalega grunni, sem ég hef rakið algjörlega í smáatriðum, virðulegi forseti, byggðum við fulltrúar minni hlutans afstöðu okkar í hv. heilbr.- og trn. og stöndum því að þessu frv. Munurinn á stöðunni nú og þegar við afgreiddum málið er ný spá um atvinnuleysi á þessu ári og þar telja menn að geti skakkað 160--180 millj. kr. á þessu ári í atvinnuleysisbætur, 160 millj. í minnsta lagi, ef þessi spá Þjóðhagsstofnunar gengur eftir.
    Það er hins vegar alveg ljóst að ef atvinnuleysið yrði svo enn þá meira í haust, þá gæti þetta orðið enn þá alvarlegra fyrir sjóðinn, en með hliðsjón af þessu þá ákváðum við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í heilbr.- og trn. að láta þetta mál ganga fram með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, en það eru tvö frv. sem eru til meðferðar eða hafa verið til meðferðar um Atvinnuleysistryggingasjóð og eru að einhverju leyti tengd lendingu kjarasamninganna.
    Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, og segja síðan að lokum: Það er bersýnilegt að við erum að óbreyttri stjórnarstefnu að ganga inn í skuggalegt tímabil að því er atvinnuástand varðar. Það að

vera viðvarandi með 2.000--3.000 atvinnulausa einstaklinga á Íslandi er hræðilegur veruleiki. Á hverju þarf þetta fólk að lifa? Atvinnuleysisbætur fyrir einstakling eru innan við 50.000 kr. á mánuði og auk þess eru greiddar nokkrar upphæðir fyrir hvert barn sem hinn atvinnulausi hefur á framfæri sínu.
    Við erum að tala um það í fullri alvöru núna, virðulegi forseti, í fyrsta sinn í sögu íslenska lýðveldisins að borga út í atvinnuleysisbætur á þessu ári 2,3--2,5 milljarða króna. Þetta eru ekki aðeins kaldar tölur, virðulegi forseti, heldur er á bak við þessar tölur lifandi veruleiki þess fólks sem hefur í raun og veru verið hrakið til hliðar í þjóðfélaginu og sagt við það: Atvinnukraftur þinn, sköpunarkraftur þinn er einskis virði í þessu samfélagi, þú færð enga vinnu.
    Þetta er ekki síst alvarlegt m.a. með hliðsjón af ýmsum öðrum ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstjórn er að grípa til, segjum t.d. varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna. Þannig að þegar þetta allt kemur saman þá blasir býsna döpur mynd við í þessu efni. Út af fyrir sig ætti sú mynd að geta komið til umræðu í tengslum við þessi mál. Ég ætla þó ekki að taka hana upp frekar. Aðalerindi mitt hér í stólinn var að rekja í smáatriðum það talnaefni sem ég hef í höndunum og bera mig saman við hæstv. fjmrh. um það hvort hann skilur hlutina með sama hætti því það er mikilvægt að við, sem stöndum að afgreiðslu þessa máls, höfum sama skilning á málinu og ríkisstjórnin þannig að í jafnalvarlegu máli og því, sem hér er á ferðinni, fari ekkert á milli mála.