Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:40:38 (7086)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu, sem hefur farið fram, get ég mjög stytt mál mitt. Ég var fyrir nokkrum dögum að bera upp svipaðar fyrirspurnir og komu fram í umræðunni. Ég lýsti þá þeirri skoðun minni að þær forsendur, sem gengið væri út frá í nál., hefðu breyst og þá væri allverulega fjárvöntun í Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég lýsti þeirri skoðun minni og ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann væri því sammála að í reynd væri nauðsynlegt að flytja fjáraukalagafrv. á ágústþinginu til að staðið væri við þá stefnu að greiða ekki út úr ríkissjóði umtalsverðar fjárhæðir án þess að hafa til þess heimild í fjárlögum. Það er að vísu tæknilega hægt að taka lán innan ársins en það er ekki í samræmi við þau meginviðhorf sem menn hafa verið að lýsa. Reyndar tel ég að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að koma með fjáraukalagafrv. núna inn í þingið vegna kjarasamninganna. Látum það hins vegar vera. En að bíða með fjáraukalagafrv. þar til í október sem að fenginni reynslu verður í fyrsta lagi afgreitt um miðjan nóvember stefnir því í hættu að greiða verði verulegar fjárhæðir af mörgum liðum út úr ríkissjóði á þessu ári, án beinna fjárlagaheimilda.
    Ég vil þess vegna eindregið beina þeirri skoðun til hæstv. fjmrh. að hann búi sig undir það að flytja fjáraukalagafrv. á ágústþinginu til þess að starfa í samræmi við þá stefnu sem allur þorri þingsins vill að starfað sé eftir og eins til þess að tryggja að það séu öruggar lagaheimildir til fyrir þeirri fjárþörf sem kann því miður að verða fyrir hendi vegna atvinnuleysistrygginga.