Atvinnuleysistryggingar

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:44:00 (7088)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Örfá orð. Sl. laugardag tók ég upp þessa umræðu um Atvinnuleysistryggingasjóð og spurði þá hæstv. fjmrh. einnar spurningar. Ég átti frekar von á því að hann svaraði henni núna í þessari umræðu, en ég spurði hvort það lægju fyrir upplýsingar í fjmrn. hvað 1% atvinnuleysisstig þýddi mikið í krónum talið. Það hefur verið mjög á reiki, 480--700 millj., það er mjög erfitt að átta sig á því nákvæmlega. Þess vegna hefði verið fróðlegt ef hæstv. ráðherra hefði getað gefið þær upplýsingar hér við þessa umræðu, svona til fróðleiks fyrst og fremst, þannig að menn geti áttað sig á því hver staða sjóðsins er. Segjum að hvert prósentustig í atvinnuleysinu kosti 600 millj. kr. Þá er náttúrlega alls ekki hægt að halda því fram að Atvinnuleysistryggingasjóður sé ríkur sjóður, því í raun er eign Atvinnuleysistryggingasjóðs ekki nema 1,8 milljarðar króna. Það eru engir 2,2 milljarðar vegna þess að menn verða að meta hvað þeir fá fyrir þær eignir sem sjóðurinn á. Það þýðir einfaldlega að ef hvert prósentustig í atvinnuleysi er 600 millj. kr. ætti sjóðurinn fyrir 3% atvinnuleysi í eitt ár.