Greiðslukortastarfsemi

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 17:56:51 (7093)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að fara út í efnisumræður um annað mál þó ég hafi nefnt það, en ég vil vegna orða hæstv. fjmrh. benda honum á það að hann hefur nú, ef þetta frv. verður að lögum, innleitt að ákveðin tegund tekna í skattarétti er ekki skattskyld sem er visst Íslandsmet. Við munum í fyrsta skipti sjá á næstu árum að ákveðinn fjárfestingarlánasjóður verður ávallt gerður upp með fleiri hundruð milljón króna tap í skattalegum skilningi, jafnvel þótt hann kunni að hafa nokkurn hagnað.
    Þetta er vissulega mikilvægt fordæmi fyrir t.d. atvinnureksturinn, --- við skulum segja útgerðina, ef hún gæti átt von á því að ákveðinn afli, t.d. karfaafli sé aldrei skattskyldur en hins vegar sé þorskur ávallt skattskyldur eða tekjur sem koma af slíkum afla. Þetta eru mikil skattaleg vísindi, hæstv. fjmrh., og er merkilegt að fjmrh. landsins skuli vera svona ánægður með afkvæmið. Ef hæstv. fjmrh. er svona ánægður með þetta afkvæmi þá gerir hann ekki miklar kröfur til sjálfs sín í skattarétti.