Þjóðhagsstofnun

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 18:05:55 (7097)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þessu frv. um breytingu á lögum um Þjóðhagsstofnun var vísað til nefndarinnar og nefndin fékk umsögn frá Þjóðhagsstofnun, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Seðlabanka Íslands.
    Fram hefur komið í umsögnum Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands að hér sé um áhugavert mál að ræða og tekur nefndin undir það. Telur Þjóðhagsstofnun að landshlutauppgjör, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, gefi mun réttari mynd af þeim virðisauka sem myndast í hverjum landshluta en samanburður á útflutningstekjum á íbúa. Eins og nefndin fór fram á þá gaf Þjóðhagsstofnun upp lauslegt mat á þeim kostnaði sem samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér fyrir ríkissjóð. Þjóðhagsstofnun bendir á að ef byggt er á núverandi vinnutilhögun við framleiðsluuppgjör þjóðhagsreikninga við gerð landshlutagreindra reikninga yrði kostnaðaraukinn verulegur. Þjóðhagsstofnun telur hagkvæmara að byggja á skýrslum um virðisaukaskatt og í framtíðinni stöðluðum ársreikningum fyrirtækja en kostnaðarauki yrði samt, þrátt fyrir það, talsverður. Í umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er á það bent að kjördæmaskipan þurfi ekki að vera heppilegasta skiptingin sem stuðst er við við gerð landshlutareikninga.
    Að fengnum þessum umsögnum þá telur nefndin að þetta mál þurfi að kanna betur, sérstaklega með tilliti til samstarfs Þjóðhagsstofnunar og skattyfirvalda á þessu sviði. Hún leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn í efh.- og viðskn.