Þjóðhagsstofnun

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 18:09:10 (7098)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Aðeins fáein orð fyrir hönd okkar flm. frv. Við sættum okkur eftir atvikum allvel við þessa afgreiðslu málsins. Þessu máli höfum við hreyft á tveimur ef ekki þremur þingum í framhaldi af fyrirspurnum sem lagðar voru fram á sínum tíma og fleiri aðgerðum sem við stóðum í til þess að reyna að afla þjóðhagslegra upplýsinga sem að einhverju leyti væru aðgreindar eftir kjördæmum eða byggðarlögum. Þá komu í ljós ýmis vandkvæði á því að fá greinargóðar upplýsingar flokkaðar með þeim hætti og í framhaldinu fluttum við þetta frv. Ég held líka að í umsögnum um það hafi komið fram, eins og reyndar er vitnað til í afgreiðslu nefndar, að það er full þörf á því að hyggja að því með hvaða hætti við getum aflar greinarbetri upplýsinga þannig að unnt sé að vinna úr þeim á grundvelli byggðarlaga, landshluta eða kjördæma. Það er í sjálfu sér skilgreiningaratriði og það er alls ekki af okkar hálfu neitt nauðsynlegt að binda það við kjördæmi fremur en einstök byggðarlög, einstaka landshluta eða sveitarfélög allt eftir því hvernig menn vilja vinna það.
    Ég vil taka það fram að við treystum því að í þessari afgreiðslu felist vilji til að skoða þetta mál í alvöru og af því að hæstv. fjmrh. er nú á vakki einhvers staðar í kringum þingsalinn leyfi ég mér að beina þeim tilmælum til hans, af því að hann er einn viðstaddur eða var viðstaddur, hæstv. forseti, af allri samanlagðri ríkisstjórninni, að þetta mál verði vinsamlegast athugað eins og afgreiðsla nefndarinnar felur í sér. M.a. er þar verið að vitna til þess að nauðsynleg þátttaka skattyfirvalda þurfi að koma til og að byggja þurfi að hluta til á skattalegum upplýsingum til viðbótar upplýsingasöfnun aðila eins og Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar. Í trausti þess að að þessu máli verði hugað þá munum við styðja þessa afgreiðslu.