Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:08:10 (7110)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki endurtaka það sem fram hefur komið í þessari umræðu um stórundarlega tilurð þessa máls. Eins og fram kom í hv. félmn. í morgun er það aðilum vinnumarkaðarins mjög mikilvægt að þetta skuli nú loks eftir dúk og disk hafa fengist fram í frumvarpsformi en ekki reglugerðar. Þetta er grundvallaratriði og á því eru veigamiklar skýringar sem að sjálfsögðu væri hægt að hafa alllangt mál um en ég mun ekki gera það.
    Ég tek það fram að við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu greiða fyrir því að þetta mál hljóti skjótan framgang í þinginu þrátt fyrir að það hafi verið lagt fram með þeim hætti að við getum að sjálfsögðu ekki stutt það sem við andæfðum fyrr í vetur þegar bandormurinn illræmdi var til umræðu. En við erum vissulega ánægðar með þær breytingar sem hafa verið knúðar fram í kjölfarið á þeim samningaviðræðum sem staðið hafa í vetur og þeirri sáttatillögu sem hér hefur verið lögð fram. Það er gott að eitthvað hefur fengist út úr þeim.
    Ég vil einnig taka fram að það er ekki lítils virði að lífeyrisiðgjöldin eru komin inn aftur og rétturinn er tekinn aftur inn í lög um ábyrgðina á launin. Það er auðvitað alvarlegt mál hvernig skuli vera hægt að fara í kringum það hvernig þessari ábyrgð er háttað í raun og veru. Auðvitað ætti þetta að vera klárt og kvitt.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að öðru leyti en því að ég fagna því að í nefndinni í morgun kom fram með skýlausum hætti að það á að vera nokkuð tryggt að engar kröfur munu falla á milli, sem sagt engar kröfur sem fólk sem lenti í því á milli þess að bandormurinn var samþykktur og þess að þessi lög taka gildi. Fólk verður ekki réttlausara út af kröfum sem skapast á þeim tíma vegna þess hvernig þessum lögum er háttað. Miðað er við hvenær þær eru teknar fyrir en ekki hvenær þær kröfur skapast. Úr því sem komið er held ég að hægt sé að una nokkuð þokkalega við að fá þó að taka þátt í því að knýja stjórnina til þess að vinna þetta mál áfram með þeim hætti sem aðilar vinnumarkaðarins hafa kosið. Ég sé ekki ástæðu til annars en þess að við getum greitt götu málsins í þinginu og það mun ég gera með því að tala ekki lengur.