Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:14:35 (7113)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekki miklu við það að bæta sem fram hefur komið frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu. Ég vildi þó segja að það er skilningur minn á ákvæði 3. gr. frv., þar sem kveðið er á um að skorti á jafnvægi í rekstri sjóðsins til lengri tíma litið, að það kunni að þurfa að endurmeta ákvæði frv. um samhengi réttinda og iðgjalda.
    Ég vil láta það koma fram að það er skilningur minn að til þess að endurmeta þetta samhengi, eins og það heitir á máli frumvarpshöfunda, þurfi nýja lagasetningu. Ég hygg að menn séu sammála um þessa túlkun í nefndinni og óska eftir því ef svo er ekki að það komi fram ef menn eru ósammála því að það þurfi nýja löggjöf til þess að breyta þessu samhengi réttinda og iðgjalda.
    Ég fagna því að sérstaklega er tekið á um réttindi skyldusparnaðar í þessu frv. í a-lið. 5. gr. Það er ánægjulegt að menn hafa munað eftir því að það eru fleiri hagsmunir en hagsmunir þeirra sem eru að leggja til hliðar í lífeyrissjóð og ég hlýt að minna á áhugaleysi hæstv. félmrh. á réttindum skyldusparenda sem nema tugum þúsunda. Fyrir rúmu ári, í febrúar 1991, sendi húsnæðismálastjórn hæstv. ráðherra frv. vegna þess að stofnunin hefur ekki lagaleg úrræði til að tryggja innheimtu skyldusparnaðar þeirra ungmenna sem er skylt að spara og bað um að það yrði flutt. Efnisatriðin voru þau að tryggja réttindi skyldusparenda. Það frv. virðist hafa lent ofan í skúffu ráðherrans og þegar þau mál bar hér á góma fyrr í vetur kannaðist ráðherrann ekkert við þetta frv. En ég hygg að ráðherrann hafi fundið þetta frv. þegar hann gáði betur ofan í skúffurnar. Þetta var áhugi hæstv. félmrh. á hagsmunum skyldusparenda.

    Ég vil láta koma fram vegna orða hæstv. ráðherra, og ég bið nefndarmenn að leiðrétta mig ef mig misminnir í þeim efnum, þá kom það fram af hálfu aðila ASÍ og VSÍ að það var þegar ljóst við samningsgerð að lagabreytingu þyrfti. Það þyrfti lög til þess að uppfylla þetta ákvæði kjarasamninga.
    Því eru skýringar hæstv. félmrh. á því að vísa til ákvæða bandormslaga um útgáfu reglugerðar alveg út í hött. Hæstv. ráðherra verður að koma fram með trúverðugar skýringar á því hvers vegna ráðherrann hefur ekki flutt þetta mál inn á þingið til að efna kjarasamninga. Hvers vegna varaformaður Alþfl. efnir ekki kjarasamninga, gengur ekki fram í því eins og honum ber þannig að þegar málið er komið á síðasta snúning er því kastað fram í þingi af nefndinni. Auðvitað átti hæstv. félmrh. að hafa forgöngu um málið og flytja það ef áhugi var fyrir því að uppfylla ákvæði kjarasamninga.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og bið þá nefndarmenn að leiðrétta mig hafi ég tekið þar rangt eftir, en eins og ég gat um áðan lýstu aðilar ASÍ og VSÍ því yfir að strax hefði legið fyrir að það þyrfti lagagjörð til að uppfylla þetta.