Skattskylda innlánsstofnana

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:34:14 (7124)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég hafði beint fjölmörgum fyrirspurnum í þessu máli til hæstv. fjmrh. og vænst þess að hann mundi svara þeim en ég skal játa að ég tel það í sjálfu sér þýðingarlaust. Það virðist vera þýðingarlaust að ræða þetta mál við hv. stjórnarliða á Alþingi. Málið er meingallað, það mismunar stofnunum, það íþyngir atvinnuvegunum og það stenst að mínu mati ekki lágmarkskröfur sem þarf að gera til mála í skattarétti. En það virðist ekki skipta hæstv. ríkisstjórn nokkru máli. Málið skal í gegn hvað sem hver segir og það er alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að leggja þessar álögur á, sérstaklega á iðnaðinn og sjávarútveginn.
    Það á að halda áfram að íþyngja þessum atvinnugreinum í stað þess að létta undir með þeim þegar samdráttur er í samfélaginu svo hægt sé að skapa fleira fólki atvinnu, svo hægt sé að minnka atvinnuleysið og auka útflutninginn og verðmætasköpunina og auka þar með tekjur ríkissjóðs. Öllum þessum sannindum hefur hæstv. ríkisstjórn gleymt og þó sérstaklega Sjálfstfl.
    Ég hélt ítarlega ræðu um þetta mál við 2. umr. og það voru ekki margir hæstv. ráðherrar sem sinntu því að hlusta á hana og kannski er það eðlilegt, þeir hafa um annað að hugsa. En ég vil skora á hæstv. fjmrh. að endurskoða enn á ný afstöðu sína til þessa máls, ekki síst vegna þess að hann er að tala um það að gera ýmsar leiðréttingar á málinu, t.d. að endurskoða afskriftaprósentu útlánastofnana og fjárfestingarlánasjóða og viðurkennir að hún þurfi að vera með öðrum hætti. Hvaða vit er í því að vera að setja lög í samfélaginu og viðurkenna um leið að það þurfi að lagfæra þau? Er ekki betra að bíða átekta? Hvaða vit er í því að viðurkenna að það þurfi að breyta fyrirkomulagi fjárfestingarlánasjóðanna og koma þar á samræmdu skipulagi, en rjúka í það að skattleggja viðkomandi stofnanir fyrst, stofnanir sem starfa í mismunandi tilgangi og samkvæmt mismunandi skipulagi. Ríkisstjórnin býr til þennan óskapnað sem mun vekja upp mikla óánægju meðal þessara sjóða og það verður sérstaklega fróðlegt þegar menn fara að skoða skattuppgjör ákveðins stofnlánasjóðs með fleiri hundruð milljóna skattalegu tapi árlega án þess að sjóðurinn sé að tapa. Það er alveg nýtt í íslenskum skattarétti. Ég býst við því að sjávarútvegurinn muni sækja á um það að fara á ný að greiða til Fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldi. Það tókst nú sem betur fer að leggja það af fyrir allmörgum árum en ég á von á því að hann vilji fá lögbundin framlög til Fiskveiðasjóðs svo hægt sé að gera þann sjóð upp með svipuðum hætti. Ég get trúað því að það þyki mörgum skrítið að því er iðnaðinn varðar, en ég veit ekki betur en Iðnlánasjóður fái iðnlánasjóðsgjald og það hefur oft verið um það rætt að sjávarútvegurinn greiði eitthvert sambærilegt gjald. Í frv. stendur að lögbundin framlög teljist ekki til skattskyldra tekna.
    Ég vona að hæstv. fjmrh. skoði þetta aðeins áður en lögin verða sett þannig að hann þurfi ekki að koma aftur í haust og biðja Alþingi um að leiðrétta þetta mál með sama hætti og hér er verið að leiðrétta mál, leiðrétta löggjöf sem sett var á sl. hausti, þrátt fyrir aðvaranir, vegna þess að hún var illa undirbúin. Flest af þeim frv. sem hér hafa verið til umfjöllunar eru illa undirbúin, það sýna brtt. Þess vegna ætti ríkisstjórnin að sýna skynsemi í sem flestum málum og vísa þeim til föðurhúsanna, inn á skrifborðin hjá ráðherrunum, eins og gert var með greiðslukortafrumvarpið. Þá voru tekin upp ný vinnubrögð af hæstv. ríkisstjórn, athyglisverð en skynsamleg vinnubrögð, og ég skora á hæstv. fjmrh. að taka það fordæmi til eftirbreytni.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Við leggjum til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, ekki vegna þess að við höfum traust á þessari ríkisstjórn, en við teljum nauðsynlegt að hún fái ráðrúm til að átta sig á málinu og koma að nýju með það til þings. Við erum með þessu ekki að útiloka að þessar stofnanir greiði skatta og skyldur umfram það sem þær gera í dag. En það er ekki sama hvernig að því er staðið og það er ekki sama hvenær það er gert. Þegar samdráttur er í þjóðfélaginu á að fara varlega í skattlagningu til að auka ekki samdráttinn. Þegar þensla er eiga menn fremur að koma á skattlagningu sem skynsamlegt er talið að koma á til að draga úr þenslunni. En eru einhvers staðar þenslumerki í samfélaginu í dag? Ég hef ekki orðið var við þau. Það má vel vera að hæstv. fjmrh. hafi séð þau einhvers staðar og væri fróðlegt að heyra hvað hann hefur um það að segja.
    Við munum því sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins. Það verður afgreitt algjörlega á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar en við væntum þess að ríkisstjórnin dragi annaðhvort málið til baka eða samþykki að vísa því inn á skrifborð fjmrh. og erum ekki að ætlast til þess að hann setji það í skúffuna þar sem stendur á ,,óhæf frumvörp``. Við erum þvert á móti að hvetja hæstv. fjmrh. til að hafa frv. á borði sínu og vinna betur í því. Ég er hræddur um að hæstv. fjmrh. hafi sáralítið unnið í málinu, svo mikið er traust hans á fyrrv. fjmrh. þótt mörgum finnist það vera fremur ólíklegt, miðað við það hvað þeim fer oft hér á milli. Þá er það samt niðurstaða málsins að hæstv. fjmrh. hefur haft mikið traust á fyrrv. fjmrh. og hann er þess

trausts verður en það vildi bara svo til að hæstv. núv. fjmrh. hafði gleymt því eða það farið fram hjá honum að fyrrv. fjmrh. hafði ákveðið að draga málið til baka og vinna betur í því í ráðuneytinu. Hann gat ekki gert það af ákveðnum ástæðum en hæstv. núv. fjmrh. lét vera að fara í þessa vinnu.