Skattskylda innlánsstofnana

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 19:43:42 (7125)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það var í nótt að ég féll frá því að ræða nokkuð um þetta frv. til að greiða fyrir því að 2. umr. lyki. Þá gaf hæstv. fjmrh. út yfirlýsingu um að hann mundi svara fram komnum spurningum í upphafi 3. umr. en ég heyri að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur gefist upp við að knýja á um svör frá hæstv. fjmrh. Hins vegar hef ég gert nokkrar tilraunir í þessari umræðu til að beina fáeinum spurningum til hæstv. forsrh., gerði það að vísu ekki síðustu nótt til að tefja ekki fyrir umræðum. En ég vil beina því til virðulegs forseta að fá hæstv. forsrh. til umræðunnar svo hægt sé að koma að þessum þáttum. Meðan ég bíð eftir hæstv. forsrh. get ég alveg tekið undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það er þörf á því að hæstv. ríkisstjórn vinni frv. betur.
    Ég hef lýst því fyrr á þessu þingi að þegar ég kom í fjmrn. 1988 lá texti að frv. í ráðuneytinu og í miklum önnum haustið 1988, fyrsta þingveturinn sem sú ríkisstjórn sat, flutti ég frv. á Alþingi, að vísu í aðeins ítarlegri búningi, en komst síðan að raun um það eftir umræður í þinginu og athugun á málinu að skynsamlegt væri að leggja hluta af skattlagningunni til hliðar. Frv. lá í þeirri skúffu sem hefur í gamansömum tón í umræðunni verið nefnd ,,ónýt frumvörp`` þar til núv. hæstv. fjmrh. kýs að flytja frv. á nýjan leik hér á þinginu í óbreyttum búningi frá því að ég skildi við það í ráðuneytinu. Ég verð að segja að það kom mér satt að segja mjög á óvart.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. að því hvenær sú stefnubreyting hafi átt sér stað hjá Sjálfstfl. að knýja á um að þessi skattahækkun sé í formi þeirrar skattlagningar sem hér er gerð tillaga um. Satt að segja var það ekkert skattafrumvarp, sem ég kom með inn á þingið í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem Sjálfstfl. krafðist jafneindregið að yrði lagt til hliðar og þetta frv.
    Mín fyrsta spurning er þess vegna: Hvenær átti þessi stefnubreyting sér stað hjá Sjálfstfl. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. um samhengið í því sem ríkisstjórnin er að gera gagnvart sjávarútveginum.
    Við höfum í dag lögfest frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins vegna þess, og það eru meginrökin hjá ríkisstjórninni, að sjávarútvegsfyrirtækin séu svo illa stödd að nauðsynlegt sé að grípa til þess ráðs að greiða út úr Verðjöfnunarsjóðnum þrátt fyrir það að forstjóri Þjóðhagsstofnunar mæli eindregið gegn því.
    Fyrr á þessu þingi hefur ríkisstjórnin knúið á um það að nýjar skattaálögur, hreinar skattaálögur, væru lagðar á sjávarútveginn sem nema í kringum 700--800 millj. kr. Með frv. sem hér er verið að samþykkja er því ómótmælt að það mun hafa í för með sér enn frekari álögur á sjávarútveginn. Heildarskattbyrðin til viðbótar við það sem verið hefur, sem fellur á sjávarútveginn á þessu ári, vegna lagasetningar hæstv. ríkisstjórnar er tæpur milljarður. Eða með öðrum orðum, það sem verið er að gera hér er að ríkisstjórnin í vetur og allt fram til síðasta dags þingsins flytur frv. og krefst þess að þau séu gerð að lögum sem leggja nýjar skattaálögur á sjávarútveginn sem nemur tæpum milljarði. Síðan segir ríkisstjórnin: Sjávarútvegurinn er orðinn svo illa staddur að nú verður að breyta lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins til að forðast atvinnuleysi. Tæpur helmingur af útgreiðslunni úr Verðjöfnunarsjóðnum er ígildi þeirra skattahækkana sem ríkisstjórnin hefur lagt á sjávarútveginn.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh., sem er ábyrgðaraðilinn að þessu öllu saman, ábyrgðaraðilinn að því sem hæstv. sjútvrh. bað okkur um að gera fyrr í dag og við gerðum, og hæstv. fjmrh. sem í kvöld er að biðja okkur að gera það sem við erum að mæla gegn --- hvert er samhengið? ( ÓÞÞ: Það er bara verið að ná peningunum af sjútvrh.) Í ríkiskassann? Já, það er auðvitað hugsanlegt að það sé skýringin, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að hér sé verið, með því að breyta lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, að leggja fjmrh. sérstakt lið til þess að hann geti fengið þessa peninga í ríkiskassann. Óneitanlega er það þannig, hæstv. forsrh., sem málið lítur út. Hér er milljarður færður inn í ríkiskassann frá sjávarútveginum og síðan eru færðir rúmir tveir milljarðar úr Verðjöfnunarsjóði yfir í sjávarútveginn til þess að hann geti staðið undir hinni nýju skattheimtu. Ég vona að hæstv. forsrh. forláti þó að við spyrjum þegar liðið er langt að þinglokum: Hvert er samhengið í þessu? Er eitthvert samhengi í þessu? Eða veit ekki hægri hönd ríkisstjórnarinnar hvað sú vinstri gerir?
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. og reyndar einnig hæstv. fjmrh.: Hver er heildarupphæð þeirra viðbótarskatta sem þessi ríkisstjórn hefur lagt á almenning í landinu á sínu fyrsta ári? Þá er ég ekki að tala um þjónustugjöldin. Við skulum halda þeim alveg fyrir utan það. Ég er að tala um beina, nýja skatta, breytingar á tekjuskattinum sem færðu ríkissjóði stærri hlut af þeim skattstofni, breytingar á ýmsum hefðbundnum skattgjöldum og sú skattlagning á sjávarútveginn sem hér er verið að tala um. Mér sýnist fljótt á litið, ég er þó ekki með það á blaði fyrir framan mig, að fyrir utan hækkanirnar á þjónustugjöldunum séu 2--3 milljarðar af nýjum, beinum sköttum sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á á sínu fyrsta ári. Stefnan hjá Sjálfstfl. var hins vegar að lækka skattana. Það var að vísu deilt um það hvort hún ætlaði að afnema strax alla skattana sem síðasta ríkisstjórn hafði lagt á eða hvort hún ætlaði að gera það í áföngum. Látum þá deilu liggja á milli hluta. En það er alveg ljóst að á þessu fyrsta ári hefur hún stóraukið hreina skatta og heldur núna þinginu í spennitreyju síðasta þingdaginn til að geta gert þar eitt af sínum síðustu verkum, að auka skattana. Og það er kannski besta kórónan á þessu fyrsta þingári ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að á lokaspretti þingsins er það úrslitakrafa ríkisstjórnarinnar að fá nýjan skatt og þingið fari ekki heim fyrr en það er búið að færa ríkisstjórninni enn á ný nýjan skatt. Það sannar þá kenningu að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur slegið met allra fyrri ríkisstjórna í skattheimtu. Það blasir við. Menn sögðu að síðasta ríkisstjórn hefði átt það met. Gott og vel. Það var það sem Sjálfstfl. sagði á síðasta kjörtímbili, en það er óumdeilanlegt að þeir hafa bætt um betur.
    Virðulegi forseti. Þetta voru þau atriði sem ég vildi bera upp við hæstv. forsrh. Ég hef sýnt nokkra tilhliðrun í umræðum síðustu daga til að greiða fyrir því að málið geti runnið áfram án þess að ég kæmi þessu að. En mér er málið nokkuð skylt vegna þessi að þessi krógi sem Sjálfstfl. hefur nú tekið í fóstur mun vera upprunninn hjá mér. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki á vetur setjandi og lagði hann því til hliðar og bjóst ekki við því að hann yrði endurvakinn. En það hefur nú gerst að Sjálfstfl. hefur tekið miklu ástfóstri við þennan króga. Ég ætla ekki að nota tímann hér til þess að rökstyðja skynsemina í því að ríkisstjórnin taki sér meiri tíma í að skoða málið. Það gerði ríkisstjórnin ekki áður en hún lagði það fram. Það er hins vegar ljóst að það hefur orðið nokkur breyting á málinu í þinginu sem betur fer en það dugir ekki til. Vissulega væri það skynsamlegast að hún tæki sér sumarið í að skoða það en ég býst varla við að á síðustu klukkustundum þingsins muni ríkisstjórnin skipta um skoðun. Ég vil gjarnan fá fram okkur til upplýsingar og öðrum til skýringar hvaða röksemdir liggja á bak við þá stefnubreytingu sem er verið að knýja á um, sérstaklega í ljósi þess sem sagt var hér fyrr á árum.