Skattskylda innlánsstofnana

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 20:00:24 (7128)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins út af þessu varðandi skattana. Við vitum að það er hægt að koma til móts við fólk í þjóðfélaginu með fégreiðslum með margvíslegum hætti. Það er hægt að gera það í gegnum fjárlögin, til að mynda til að styrkja stöðu fólks. Það er hægt að gera það í gegnum tryggingakerfið. Sveitarfélögin geta gert það með félagslegri aðstoð. Auðvitað mætti segja til að mynda varðandi útsvarið að sveitarfélög gætu notað útsvarskerfið til að láta tiltekna hópa í sveitarfélaginu fá félagsaðstoð í gegnum kerfið og segjast þá hafa lækkað útsvarið, í stað þess að láta Félagsmálastofnun eða aðra aðila standa fyrir slíkum jöfnunaraðgerðum. Ef menn nota skattkerfið með þeim hætti sem jöfnunaraðgerð til tiltekinna hópa, þá má ekki að mínu viti líkja því við skattahækkun eða skattalækkun. Á þessu er reginmunur að mínu viti. Auðvitað geta menn um þetta deilt. Þarna nota menn skattkerfið til að færa fjármuni til og menn geta beint þeim í ríkissjóð á fjárlögum, deilt því út til fjöldans, tiltekinna hópa við sérstakar aðstæður og þar með kæmi það skattamálunum ekkert við. Það er þetta sem ég átti við og ég hygg að þingmaðurinn, sem er vel að sér í þessum fræðum öllum, þekki þetta mætavel og viti hvað ég á við þó að auðvitað megi deila um þessi sjónarmið.