Skattskylda innlánsstofnana

152. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 20:01:30 (7129)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. er gamansamur maður. Hann var að útskýra kenningu sem felur það í sér að hæstv. fjmrh. getur tekið 10 milljarða meira í ríkissjóð út úr tekjuskattinum og það er engin skattahækkun. Það eru bara einhvers konar greiðslur fram og aftur sem menn eru með og þjóna ýmsum tilgangi. Þetta er mikið patent. Þetta er kannski patentið sem á að nota við næstu fjárlagagerð. Ég sé að hæstv. fjmrh. er orðinn óskaplega hýr og glaður á svipinn og er búinn að finna út algerlega nýtt patent, að fá 10 milljarða í ríkissjóð í auknum skatti og svo mun forsrh. koma fyrir þjóðina og segja að þetta sé bara ,,dittinn og dattinn`` og sé bara svona og á hinn veginn af greiðslum sem menn hafa hingað og þangað í kerfinu fyrir fólk en sé alls ekki skattahækkun. Það er ekki mikill vandi að ná jöfnuði á ríkissjóði með svona kúnstum.