Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 20:11:55 (7132)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls taldi ég óhjákvæmilegt að afla upplýsinga um það í tengslum við þetta mál hvernig staðið yrði að útgáfu reglugerðar um lyf og læknisþjónustu í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Hér er um að ræða breytingar á reglugerðum sem gefnar eru út af heilbr.- og trmrn. og eru ekki tilbúnar enn. Síðustu mínútur gafst aðeins kostur á því að ræða lauslega við aðstoðarmann heilbrrh. og hyggst ég gera grein fyrir þeim viðræðum þannig að það liggi fyrir hér í þingtíðindum og gagnvart þingheimi hvernig þau mál standa.
    Að því er varðar heilsugæsluna sérstaklega er þetta mál þríþætt. Í fyrsta lagi er niðurfelling gjalda fyrir læknisþjónustu á heilsugæslustöðvum og hjá heimilislæknum fyrir börn sem eru 6 ára og yngri.
    Í öðru lagi er um það að ræða að börn sem fá greiddar umönnunarbætur munu, á hvaða aldri sem þau eru, sæta sömu meðferð að því er varðar lyf og læknisþjónustu og gerist með öryrkja og á þetta ekki aðeins við um heimilislækna og heilsugæslustöðvar, heldur einnig sérfræðiþjónustu.
    Í þriðja lagi er um að ræða svokallað þak á lyfjagreiðslum sem hefur verið 12.000 kr. fyrir börn í fjölskyldu en í tengslum við kjarasamningana var gert ráð fyrir því að þetta þak lækkaði úr 12.000 kr. fyrir börn í sömu fjölskyldu niður í 6.000 kr.

    Samkvæmt upplýsingum aðstoðarmanns heilbrrh. er gert ráð fyrir því að sú reglugerð sem lýtur að þessum þremur þáttum taki gildi frá og með 1. júní nk. og ég vænti þess að það sé afstaða ríkisstjórnarinnar að svo verði gert. Ég vil inna hæstv. starfandi heilbr.- og trmrh. eftir því hvort það sé ekki rétt, sem aðstoðarmaður heilbrrh. fullyrðir, að reglugerð þessi að því er varðar heilsugæslukostnaðinn verði gefin út og taki gildi frá og með 1. júní.
    Aðstoðarmaður heilbrrh. gerði mér grein fyrir því í þessu viðtali, sem ég átti við hann ásamt hv. 9. þm. Reykn., að hann hefði átt í dag fund með fulltrúum samtaka launafólks sem stóðu að síðustu kjarasamningum, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands. Á þeim fundi hefðu hafist viðræður um annan þátt þessa máls sem lýtur að kostnaði fyrir lyf. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í þessari yfirlýsingu að teknar verði upp svokallaðar hlutfallsgreiðslur fyrir lyf en þeim verði þó hagað þannig að að því er varðar börnin verði um kostnaðarlækkun að ræða. En í heild er í þessum þætti ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum í lyfjunum sjálfum fyrir ríkissjóð.
    Aðstoðarmaður heilbrrh. skýrði frá því að Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands hefðu tilnefnt fulltrúa í sérstaka samráðsnefnd til að fara yfir þetta mál og hún hefði hafið störf. Hann taldi að það liði ekki langur tími þar til þessi reglugerðarbreyting yrði tilbúin en hún snertir sem sagt hlutfallsgreiðslur fyrir lyf. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér fyrir mitt leyti hvort það verður að öllu leyti heppilegt kerfi.
    Það er talið að þessi þáttur yfirlýsingarinnar, sem lýtur að lyfjunum sérstaklega, eigi að vera hlutlaus í kostnaði gagnvart ríkissjóði. Það er hins vegar öðruvísi með heilsugæsluna. Það er talið að kostnaður vegna þessara breytinga á reglugerðum um heilsugæslu kosti 60--70 millj. kr. Breytingin á þaki og lækkun á því úr 12.000 í 6.000 á fjölskyldu kosti 10--15 millj. kr. og aðrar breytingar, þ.e. niðurfelling gjalda fyrir læknisþjónustu sex ára barna og yngri, gæti kostað í kringum 50 millj. kr. Samtals væri um að ræða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 65 millj. kr.
    Ég hefði talið, virðulegi forseti, að það hefði verið heppilegra ef hægt hefði verið að sjá þessar reglugerðir og hvernig þær eru útfærðar. Ég harma að það skuli ekki vera hægt. Mér finnst það satt að segja leitt að það skuli ekki vera unnt en það er svo sem fátt annað að gera en að horfast í augu við þá staðreynd að menn hafi ekki sett þennan texta saman. En þær yfirlýsingar eru í sjálfu sér afdráttarlausar sem ég hef heyrt til þessa. Ég hef lagt til viðbótarspurningu fyrir hæstv. umhvrh. sem er starfandi heilbr.- og trmrh. til að fá þessi mál enn þá frekar á hreint.
    Hver er ástæðan til að við tökum þetta upp með þessum hætti og undir þessum dagskrárlið? Hún er sú, virðulegi forseti, að við teljum að hér sé verið að ganga frá því að yfirlýsingarnar sem verkalýðshreyfingin fékk verði efndar undanbragðalaust núna og að þinginu ljúki ekki öðruvísi en við sjáum í grófum dráttum fyrir endann á þeim efndum.
    Varðandi það frv. sem liggur fyrir um ábyrgðasjóð launa og afstöðuna til þess vil ég aðeins segja það fyrir mitt leyti að ýmsir þættir í frv. eru þannig að ég teldi rétt að samþykkja þá. Hins vegar er blandað saman í frv. nokkrum óskyldum atriðum úr bandorminum sem afgreiddur var í vetur. Þess vegna hefði ég talið skynsamlegt að öllu öðru óbreyttu að afgreiða málið þannig af okkar hálfu að við samþykktum 1. gr. frv. þegar hún kemur til atkvæða en sætum hjá að öðru leyti.