Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 21:47:55 (7140)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á síðustu mánuðum hafa borist þær fréttir frá Tyrklandi að hersveitir stjórnvalda, tyrkneski flugherinn, hafi gert skotárásir á þorp Kúrda og konur og börn hafi látið lífið og slasast vegna þessara árása tyrkneska hersins. Kúrdar hafa verið kúgaðir um langan tíma í Tyrklandi og sætt þar ofsóknum. Alþjóðamannréttindasamtökin Amnesty International hafa sent frá sér ítarlegar skýrslur um mannréttindabrot stjórnvalda í Tyrklandi og víða um veröldina hefur á síðustu vikum og mánuðum verið víðtæk umræða um það með hvaða hætti lýðfrjálsar þjóðir gætu stutt mannréttindabaráttu og frelsisbaráttu Kúrda.
    Við höfum borið gæfu til þess hér á Alþingi á síðustu árum að myndast hefur víðtæk og breið samstaða um að Íslendingar styddu sjálfstæðisbaráttu og mannréttindabaráttu smáþjóða á alþjóðavettvangi. Í Eystrasaltsríkjunum var háð um langan tíma mannréttindabarátta sem skilaði árangri og við Íslendingar vorum meðal fyrstu þjóða sem sýndum það í verki að við værum reiðubúnir að taka þó nokkra áhættu í því að leggja mannréttinda- og frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna lið. Þá var hæstv. utanrrh. galvaskur, reiðubúinn til ferðalaga og vera fremstur í flokki en í þessu máli sem við erum að ræða hér hefur málum því miður verið hagað þannig að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hefur ekki verið reiðubúinn að samþykkja eitt eða neitt af hálfu íslenskra stjórnvalda sérstaklega, Alþingis eða ríkisstjórnar til þess að sýna í verki sams konar samstöðu með mannréttindabaráttu Kúrda, frelsisbaráttu Kúrda, eins og við höfum sýnt mannréttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á síðustu árum og frelsisbaráttu þjóðanna sem áður byggðu Júgóslavíu.
    Hver er skýringin, hæstv. forseti, á því að þegar kemur að mannréttindabaráttu Kúrda þá segir hæstv. utanrrh. allt í einu nei? Þá er hann allt í einu farinn að finna alls konar afsakanir. Það eigi ekki við, það passi ekki hér á Alþingi, það eigi betur heima í RÖSE, það komi þessum samningi ekki við o.s.frv. Hann er allt í einu kominn með sömu úrtölurökin og þeir voru með fyrir nokkrum árum sem ekki vildu þá leggja lið frelsisbaráttu og mannréttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þá hafði hæstv. utanrrh. hugdirfsku og manndóm til að hafa að engu slíkar úrtölur. En á síðustu vikum hefur hann og ráðuneyti hans sýnt ótrúlega hugkvæmni í að finna sér afsakanir á því að hvorki ríkisstjórn né Alþingi Íslendinga geri neitt sérstakt til að styðja mannréttindabaráttu Kúrda. Samt sem áður er það þannig að almenningur á Íslandi hefur sýnt það í verki að samstaða almennings í landinu, þjóðarinnar, er með málstað Kúrda.
    Hér í vetur fór fram einhver víðtækasta söfnun á fötum, klæðum, skóm, húfum, treflum, vettlingum sem íslenskur almenningur reiddi fram í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr til þess að Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir gætu sent til flóttamannabúða og þorpa Kúrdanna þar sem börnin, konurnar og karlarnir voru við illan leik að reyna að lifa af harðan vetur. Það er því alveg ljóst að íslenska þjóðin stendur með mannréttinda- og frelsisbaráttu Kúrda.
    Við í utanrmn. höfum síðan í marsmánuði reynt að knýja á um að utanrrh. Íslands tæki ákveðið frumkvæði í þessum efnum. Við höfum lagt fram hugmyndir og tillögur. Ein hugmyndin var sú að hann hagnýtti sér stöðu sína sem formaður EFTA til þess að leggja áherslu á það við stjórnvöld í Tyrklandi að á sama tíma og EFTA-ríkin væru reiðubúin að gera samning um viðskipti við Tyrkland þá yrði það að gerast að stjórnvöld í Tyrklandi hættu að senda herflugvélar til að myrða konur og börn í þorpum Kúrda. Kúrdar yrðu að fá sjálfstæðan rétt til að kjósa um sína framtíð, velja með lýðræðislegum hætti sín örlög.

Nei, sagði hæstv. utanrrh., það passar ekki. EFTA er ekki þannig samtök, ekki þannig klúbbur. Engu að síður fór hæstv. utanrrh. til Moskvu í vetur til þess að mæta fyrir hönd EFTA-ríkjanna á samningaráðstefnu ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs, Arabaríkjanna, Ísraels og Palestínumanna til þess að reiða fram rök og tillögur EFTA-ríkjanna í deilum ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá voru EFTA allt í einu orðin þannig samtök að þau gátu beitt sér þar þegar hæstv. utanrrh. fór á fundinn í Moskvu. Gott og vel. Við hlustuðum á þessa neitun. Við bárum fram aðra hugmynd. Við bárum fram þá hugmynd að fyrst hæstv. utanrrh. væri ekki reiðubúinn að beita valdi sínu sem formaður EFTA þá sendi hann fulltrúa íslenska utanrrh., embættismann íslenska utanrrn. til Tyrklands til þess að gera stjórnvöldum á Tyrklandi grein fyrir því að á Íslandi væri rík samstaða með málstað, mannréttindabaráttu og lýðræðiskröfum Kúrda. Hugmyndin var einnig sú sem við settum fram að þessi sendimaður íslenska utanrrh. mundi eiga viðræður við fulltrúa Kúrda til þess að sýna þessu hrjáða fólki að hér á Íslandi ætti það samherja í baráttu sinni. Nei, enn á ný var hæstv. utanrrh. ekki tilbúinn.
    Hvað ætli það sé búið að verja mörgum tugum milljóna til að kosta ferðir til Brussel og Genf út af EES? Kerfi sem við fréttum í kvöld að eigi að vera 28 milljarða skriffinnskubákn. En að senda einn mann í nokkra daga til Tyrklands og byggða Kúrda til að sýna hrjáðu fólki samstöðu, það er ekki hægt. Rökin voru satt að segja næsta lítil.
    Þetta er því miður ekki öll sagan um hina sérkennilegu og fordæmanlegu framgöngu utanrrn. í þessu máli. Satt að segja hefur það verið þannig að frá því að utanrrh. kom með þetta mál fyrst til þingsins hefur utanrrn. sífellt verið að búa til dagsetningar, síðustu forvöð á að afgreiða málið og lagt á það ríka áherslu með tilbúnum rökum við þingið að nú væri svo brýnt að afgreiða málið að ekki mætti bíða. Fyrst er komið með málið til utanrmn. 30. mars og þá segir embættismaður utanrrh. við utanrmn.: Þetta mál verður að afgreiðast á morgun, það má engan tíma missa.
    Af hverju er þessi naumi tími? Af hverju má ekki ræða málið? Nei, það mátti ekki. Var það kannski svo viðkvæmt að það varð að forðast að umræður færu fram um málið á Alþingi? En utanrmn. var ekki reiðubúin til að láta ganga yfir sig með þessum hætti enda kom það á daginn að þó að málið væri ekki afgreitt fyrir 1. apríl þá gerðist ekki neitt. Engar gagnaðgerðir. Þá var næsti leikur utanrrn. á þann veg að koma með málið aftur í annarri viku aprílmánaðar og segja þann 10. apríl á fundi í utanrmn.: Ef þessi samningur verður ekki afgreiddur fyrir páska þá er voðinn vís. Þá er samskiptum EFTA-ríkjanna stefnt í hættu. Og það sem meira var, á þeim fundi utanrmn. var lagt fram sérstakt bréf frá sendiherra Íslands hjá EFTA, Kjartani Jóhannssyni. Og hvað segir sendiherrann í þessu bréfi sem birt er með nál. mínu og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur? Hann segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það væri mjög miður ef Ísland gæti ekki staðfest samninginn fyrir 10. þ.m. og haft sama gildistökudag og hin Norðurlöndin í EFTA. Gæti þetta haft þær afleiðingar að samstaða EFTA-ríkjanna með kröfu Íslands um að allur fiskur falli undir fríverslunarsamninga, sem EFTA stendur að, mundi bresta.``
    Hér eru ekki spöruð stóru orðin eða hinar smáu hótanir. Það er hvorki meira né minna en ef þingið ætlar sér að taka sér tíma til að ræða mannréttindamál Kúrda, ætlast til þess að ríkisstjórn Íslands geri út fulltrúa til þess að sýna samstöðu með Kúrdum og flytja stjórnvöldum í Tyrklandi gagnrýni okkar, þá segir sendiherrann að á borðinu liggi sú hugsanlega hótun að samstaðan bresti með kröfum Íslendinga um fríverslun með fisk. Eru mannréttindin þá allt í einu orðin verslunarvara fyrir fisk, hæstv. utanrrh.?
    Ég sagði í utanrmn., þegar ég sá þetta bréf frá sendiherra Íslands hjá EFTA, Kjartani Jóhannssyni, að við skyldum láta á þetta reyna. Það er alvarlegur hlutur þegar sendiherra íslenska lýðveldisins bréfar það til stjórnvalda og það er lagt fram í utanrmn. að ef hún beygi sig ekki undir þær dagsetningar sem utanrrh. hefur sjálfur búið til og ef þingið ætlar sér að leyfa sér að taka sér daga og tíma í að ræða framgöngu tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Kúrdum þá muni því verða svarað með því að láta samstöðu með sjávarútvegshagsmunum okkar Íslendinga bresta. Enda kom það á daginn að þessi hótun var marklaus. Innantóm orð. Þingið afgreiddi ekki málið fyrir 10. apríl. Hafa borist einhverjar fréttir af því að brostið hafi samstaðan með sjávarútvegshagsmunum Íslands? Nei, engar slíkar fréttir. Hótunin var tilbúin. Sett á svið. Staðlausir stafir. Bara til þess að hræða þingið frá því að taka sér tíma til að fjalla um málið.
    Síðan var haldinn sérstakur fundur með miklu írafári í utanrmn. 13. apríl til þess að knýja málið inn fyrir páska. Meiri hluti nefndarinnar, samkvæmt ósk hæstv. utanrrh., tók málið út án þess að umræða færi fram. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og ég skiluðum síðan nál. og tillögum okkar 28. apríl. Síðan eru liðnar þrjár vikur. Hvar var allur hraðinn? Hvar var allur þrýstingurinn? Hvar var öll áherslan á að afgreiða málið sem fyrst átti að afgreiða fyrir 1. apríl, svo fyrir 10. apríl, svo fyrir páska? Nei, málið var látið liggja vikum saman í þinginu, dögum saman var það ekki tekið fyrir. Það er að vísu rétt að í eitt skipti óskaði ég eftir því að umræðan yrði látin bíða næsta dags vegna fjarveru minnar en ég lagði hins vegar ríka áherslu á það að nauðsynlegt væri að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur umræðuna og svaraði fyrir sig. Það er fyrst á síðasta degi þingsins, þegar komið er fram á kvöld eða nótt og tvær klukkustundir eru eftir af þeim sólarhring sem þinginu átti að ljúka á samkvæmt samkomulagi flokkanna, sem málið er tekið fyrir af einhverjum krafti. Þá er öruggt að það er svo lítill tími eftir að þrýstingurinn á að afgreiða málið án mikillar umræðu er yfirþyrmandi. Enda var það þannig þegar ég gekk í ræðustólinn að stjórnarþingmenn fáeinir voru að hneykslast á því að hér ætti að fara að ræða málefni Kúrda.
    Hvað er það sem við erum að tala um, hæstv. utanrrh.? Við erum að tala um fólk sem krefst sjálfstæðis. Við erum að tala um fólk sem krefst lýðræðis. Við erum að tala um fólk sem vill sömu mannréttindi og við. Við erum að tala um fólk sem vill vera öruggt og vill hafa tryggingu fyrir því að börn þeirra þurfi ekki að búa við loftárásir á skólana, á þorpin, á heimkynni sín. Það er þetta sem við erum að tala um, hæstv. utanrrh.
    Hæstv. utanrrh. sagði við þjóðina í fjölmiðlum í kvöld: Þetta er samningur sem kemur í raun og veru baráttu Kúrda ekkert við. Þetta er allt annað mál. Þetta er bara viðskiptasamningur. Það á að ræða málefni Kúrda úti í heimi, hjá RÖSE, ekki hér á Alþingi Íslendinga.
    Hæstv. utanrrh. Í 8. gr. þessa samnings er tekið skýrt fram að almennt siðgæði, almannaöryggi og líf og heilsa manna geti takmarkað gildistöku ákvæðanna í samningnum. Það er nefnilega svo, hæstv. utanrrh., að í þessum samningi milli EFTA og Tyrklands er ákvæði 8. gr. um siðrænan rétt, líf og heilsu, almennt siðgæði og öryggi einstaklinganna. Ef við teljum að tyrknesk stjórnvöld stofni öryggi í hættu, brjóti almennt siðgæði og almannaöryggi og reglur þar um, þá höfum við samkvæmt samningnum rétt til að krefjast þess að samningnum sé ekki beitt.
    Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Er hann reiðubúinn við gildistöku samningsins að beita 8. gr. hans eða ætlar hann líka, eftir að hann er búinn að fá samninginn staðfestan á Alþingi, að láta ákvæðin í samningnum um almennt siðgæði, almannaöryggi og líf og heilsu sem vind um eyrun þjóta? Á bara að vera áfram í fína klúbbnum úti í heimi þar sem það passar ekki í klúbbinn, tilheyrir ekki EFTA og fínum fundum, að vera að trufla stjórnvöld í Tyrklandi?
    8. gr. hljóðar á þessa leið, um þau efni sem ég hef hér vikið að:
    ,,Takmarkanir af ástæðum öðrum en efnahagslegum.
    Samningurinn útilokar ekki að komið sé á banni eða takmörkunum á innflutningi, útflutningi eða umflutningi ef aðgerðir þessar réttlætast af ástæðum sem varða almennt siðgæði, allsherjarreglu, almannaöryggi, líf og heilsu manna og dýra, . . .  `` Einnig er þar vikið að öðrum þáttum eins og verndun þjóðarverðmæta, fornfræðilegum gildum og fleiru.
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum lítil þjóð. Við höfum ekki mannafla, herafla og auð til að beita þrýstingi á alþjóðlegum vettvangi. En við höfum siðferðilegan kraft. Hann var sterkur í baráttunni fyrir frelsi Eystrasaltsríkjanna. Þá vorum við samherjar, ég og hæstv. utanrrh., í þeirri baráttu. Sú ríkisstjórn sem við sátum í tók myndarlega og af krafti á þeim málum. Hér á Alþingi myndaðist samstaða allra flokka þar sem þingið ályktaði skorinort og hiklaust í þeim málum. En ég segi, hæstv. utanrrh.: Ef þessi siðferðilegi kraftur fer að verða á þann veg að honum er bara beitt þegar það passar, en ekki beitt þegar það passar ekki, þá verður lítið úr honum á skömmum tíma. Þá verður hann bara hagkvæmnistæki fyrir einstaka stjórnmálamenn og sérstakar kringumstæður. Hann hættir að vera hugsjón, hættir að vera mannréttindi og lýðræði samkvæmt besta inntaki þessara hugsjóna.
    Við höfum, virðulegi forseti, verið að fylgjast með því síðustu daga að í Írak er verið að skapa skilyrði til þess að Kúrdar geti kosið sér fulltrúa. Eru slík skilyrði í Tyrklandi, hæstv. utanrrh.? Eða er það virkilega þannig að harðstjórnarríkið Írak skapi Kúrdum þrátt fyrir allt meiri rétt en hið svokallaða bandalagsríki okkar í NATO, Tyrkland?
    Auðvitað er það þannig að þótt sá samningur sem við erum að fjalla hér um sé fyrst og fremst í eðli sínu viðskipta- og verslunarsamningur, þá er hann líka viðurkenning á Tyrklandi. Hann er jákvæður fyrir stjórnvöld landinu, fyrir sess landsins í veröldinni og Evrópu. Þess vegna er fullt samræmi í því að segja að um leið og þessi samningur er tekinn til meðferðar á Alþingi verði afgreiddar skýrt og greinilega hugmyndir og tillögur um það að íslensk stjórnvöld knýi á um það að sjálfstæðisbaráttu Kúrda sé sýnd viðurkenning af hálfu þings, stjórnar og þjóðar. Þess vegna hef ég, ásamt hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, flutt á þskj. 810 till. til rökstuddrar dagskrár. Hún er á þessa leið:
    ,,Með vísan til þess að
    Alþingi samþykkir að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Kúrda og fordæmir harðlega mannréttindabrot stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart Kúrdum,
    Alþingi samþykkir að árétta þá stefnu Íslendinga að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða og þjóðabrota og tryggja að staðinn sé vörður um mannréttindi íbúa sem eru að berjast gegn ofbeldi, árásum og kúgun,
    Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að senda fulltrúa íslenskra stjórnvalda til Tyrklands til að flytja ríkisstjórn Tyrklands mótmæli íslenskrar þjóðar vegna kúgunar á Kúrdum og til að flytja fulltrúum Kúrda stuðning og samúð frá íslensku þjóðinni,
    Alþingi samþykkir að flutt verði skýrsla um viðræður fulltrúa íslenskra stjórnvalda í Tyrklandi og síðan verði metið hvenær fríverslunarsamningur ríkja EFTA við Tyrkland verði tekinn til frekari meðferðar á Alþingi,
samþykkir Alþingi að vísa dagskrármálinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Virðulegi forseti. Á vettvangi utanrmn. buðum við það til samkomulags að hér yrði ályktað með nokkuð skýrum hætti líkt og við gerðum í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna þannig að um leið og þingið afgreiddi þennan samning ályktaði Alþingi Íslendinga á þann veg að stuðningur við sjálfstæðisbaráttu Kúrda og fordæming á ofbeldisverkum stjórnvalda í Tyrklandi lægi fyrir. Ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi hafnaði þessu samkvæmt fyrirskipun hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. var ekki reiðubúinn að vinna

það til samkomulags, til að greiða fyrir málinu í þinginu, að sérstök ályktun yrði um leið samþykkt þar sem þessi viðhorf okkar í mannréttindamálum og lýðræðismálum Kúrda kæmu fram. Nei, það mátti ekki. Það mátti ekki fara frá Alþingi Íslendinga neinn formlegur texti, samþykktur af þinginu, sem gæfi það til kynna.
    Við hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og ég og fulltrúar Framsfl. í utanrmn., Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsrh., og Páll Pétursson formaður þingflokks Framsfl., ítrekuðum það hvað eftir annað að við værum reiðubúin til samkomulags, að vinna að slíkum sameiginlegum ályktunartexta.
    Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. enn á ný: Er það virkilega þannig að hann ætli að afgreiða þetta mál á Alþingi þannig að öllum tilraunum til þess að ná samkomulagi hér um formlega stuðningsyfirlýsingu við sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu Kúrda sé hafnað af utanrrh. og ríkisstjórnarmeirihlutanum? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því í nótt eða í fyrramálið að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarmeirihlutinn sé virkilega svona lokaður í afstöðu sinni. Og ég spyr: Hvernig ætlar hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarmeirihlutinn næst, þegar ráðherrann telur sér henta að sveipa um sig skikkju mannréttindabaráttunnar og lýðfrelsisins, að líta fram hjá því að hér hefur brestur orðið, ef þetta gerist, í hinum siðferðilega grundvelli íslenskra stjórnvalda í þessum málum?
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að íhaldsríkisstjórn Kohls í Þýskalandi taldi baráttu Kúrda á þann veg komna og svo mikilvægt að sýna í verki stuðning sinn við mannréttindakröfur Kúrda að hún taldi nauðsynlegt að fordæma hernaðarofbeldi stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart Kúrdum, að ríkisstjórn Kohls tók það mál, sem við erum hér að ræða um, upp á fundi pólitískrar deildar utanríkisráðuneyta EB-ríkjanna fimmtudaginn 2. apríl. Með öðrum orðum taldi Hans Dietrich Genscher, reyndasti utanrríkisráðherra Evrópu á síðustu áratugum, það sjálfsagt og eðlilegt að taka baráttu Kúrda formlega upp innan Evrópubandalagsins og leggja þar til aðgerðir. En utanrrh. Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, leggur á sig langar leiðir til að finna rök fyrir því að það megi alls ekki tengja mannréttindabaráttu Kúrda með neinum hætti við afgreiðslu á þessum samningi hér eða við málefni eða vettvang EFTA. Niðurstaðan varð síðan sú á vettvangi Evrópubandalagsins að sendiherra Portúgals, en Portúgal er núna með forsætið í Evrópubandalaginu, var falið að koma á framfæri við stjórnvöld í Ankara í fyrsta lagi fordæmingu á hryðjuverkum í Tyrklandi, að lýsa áhyggjum Evrópubandalagsins vegna þróunar mála í Tyrklandi og hvatningu til tyrkneskra stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir það að aðgerðir gagnvart hersveitum frelsishreyfinga Kúrda bitnuðu á óbreyttum borgurum.
    Það er athyglisvert að Hans Dietrich Genscher, utanrríkisráðherra Vestur-Þýskalands, taldi fullkomlega eðlilegt að gera það sem við vorum að leggja til á Alþingi að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson gerði, en það mátti ekki hér. Þá allt í einu passaði það ekki að vera samferða evrópskum mótmælum. Þá allt í einu mátti ekki verða samferða hinum evrópska straumi, hinni evrópsku tilfinningu, hinum evrópsku áherslum. Það er leitt til þess að vita að í þessum efnum skuli Evrópubandalagið taka okkur fram. Það er leitt til þess að vita að Evrópubandalagið skuli í þessum efnum sýna vöku, meiri samúð með málstað mannréttinda og lýðfrelsis og sýna í verki að þeir eru reiðubúnari að standa við það en við hér. Það er leitt að þurfa að játa að ef niðurstaða málsins verður sú að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafnar öllum hugmyndum okkar um sérstakar aðgerðir okkar Íslendinga í þessum efnum, þá skuli Evrópubandalagið taka okkur fram.
    Það er líka athyglisvert að Sviss, Austurríki og Finnland hafa tekið málefni Kúrda upp innan RÖSE. Það er ekki Ísland sem gerir það. Nú er komið svo að Ísland sker sig úr. Það hefur ekki frumkvæði. Það lætur aðra um þessa baráttu. Samt sem áður er það þannig, hæstv. utanrrh., að engin söfnun hefur hlotið jafnvíðtæka þátttöku meðal landsmanna og söfnunin til stuðnings Kúrdum fyrr í vetur. Mörg þúsund íslenskra heimila reiddu fram föt, gjafir, skó og annað af skjólflíkum til þess að færa flóttamönnum Kúrda og fátæka fólkinu sem lifir í þorpum Kúrda í Tyrklandi og annars staðar. Þess vegna ætti hæstv. utanrrh. að fagna því að hafa þjóð sína á bak við sig í þessu máli. En það er ekki gert heldur er hér í tvo mánuði látlaust búið að reyna með margvíslegum hætti að annaðhvort þrýsta þessu máli í gegnum þingið án lítillar umræðu eða hafna öllum hugmyndum og tillögum okkar um sérstakt frumkvæði Íslendinga í þessum efnum.
    Virðulegi forseti. Það er orðið langt liðið á þennan starfsdag Alþingis sem hófst kl. 10.30 í morgun eftir að fundur hafði staðið til kl. 4 síðustu nótt. Við viljum gjarnan ljúka þessum störfum sem fyrst. Ég vil að lokum beina þeirri einlægu ósk til hæstv. utanrrh. að hann íhugi nú á þessari stundu að koma til móts við okkur. Hann íhugi í alvöru að standa að því með okkur að hér verði afgreidd á Alþingi Íslendinga sérstök ályktun um mannréttindi og lýðréttindi Kúrda og fordæming á ofbeldisverkum stjórnvalda í Tyrklandi svo hér geti í þessu máli skapast jafnbreið samstaða og skapaðist í málefnum þjóða Júgóslavíu og í málefnum þjóða Eystrasaltsríkjanna.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira að sinni. En ég vona að hæstv. utanrrh. skynji alvöru málsins.