Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:31:59 (7144)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Nokkuð rækilega hefur verið lýst afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna í þessu máli, bæði í þessari umræðu og eins í hinni fyrri þar sem ég m.a. greindi í nokkuð rækilegu máli frá afstöðu minni til þessa máls. Ég vil þó í fáum orðum fara yfir nokkur atriði þessa máls til að leggja inn í umræðuna og benda á að hér er hæstv. utanrrh. að tefla um þinglok og halda fast í mál sem þennan fríverslunarsamning EFTA við Tyrkland. Maður skyldi halda að hér væri um að ræða eitthvert geysilega þýðingarmikið mál fyrir íslenska utanríkishagsmuni, eitthvert mál sem stórkostlegir hagsmunir fylgdu því það mál er hér enn uppi á borðum þó að öðrum hafi verið fórnað sem mörgum þykja væntanlega æðistór ef að er gáð.
    Þegar við skoðum skýrsluna sem þessum samningi fylgir kemur í ljós að verslun okkar við Tyrkland, útflutningurinn á síðasta ári, nam 253 þús. kr. Það eru nú allir hagsmunirnir, virðulegi forseti, og af mikilli skarpskyggni bendir meiri hluti nefndarinnar á að samningurinn við Tyrkland verði að verða staðreynd til að koma í veg fyrir að íslenskar vörur standi höllum fæti gagnvart vörum annarra erlendra þjóða í Tyrklandi. Það er vissara að hafa hagsmunina í lagi, virðulegi forseti, svo útflutningurinn minnki ekki.
    Ég bendi á það, sem áður hefur fram komið, að hæstv. utanrrh. hefur látið sig varða mannréttindamál og hann hefur ekki hikað við að tefla saman mannréttindamálum og viðskiptamálum ef því hefur verið að skipta. Það gerði hann hiklaust þegar horfa þurfti austur yfir Eystrasalt og frelsa þar kúgaðar þjóðir. Þá stóð ekki á hæstv. utanrrh. að standa staffírugur fyrir framan heiminn og segja: Við viljum frelsi fyrir þessar þjóðir. Hann hafði svo hraðan á og honum lá svo mikið á að jafnvel taskan var honum ekki alltaf samferða.
    Ég virði það við hæstv. utanrrh. að hafa þá skoðun sem hann hafði í þessu máli á þeim tíma og það sem hann lagði á sig til að ná fram réttindum fyrir það fólk sem býr í þessum löndum. En ég hlýt að ætlast til þess að hæstv. ráðherra sýni sama áhuga og samræmi í skoðun sinni þegar aðrir eiga í hlut þegar ekki er verið að ræða um austur, gamla Sovét, heldur líka þegar í hlut á þjóð sem er í NATO. Tyrkland er nefnilega eitt af NATO-þjóðum, hins mikla friðarelskandi bandalags sem þeir sjálfir kalla sig. En þar virðist kengurinn byrja í málinu. Þá leggur hæstv. utanrrh. til hliðar mannréttindakröfuna og viðleitnin til að styðja við bakið á frelsi kúgaðra manna hverfur ef þeir búa í landi sem er í NATO. Það er eins og hæstv. utanrrh. sagði rétt áðan með Kúrdana í Tyrklandi: ,,Ja, það er allt annað mál sem verður að taka upp á öðrum vettvangi.`` Ég spyr því hæstv. ráðherra sem er mikill áhugamaður um þetta vestræna varnarbandalag sem þeir kalla svo: Hefur hæstv. utanrrh. Íslands tekið þetta mál upp á vettvangi NATO? Hefur hann reist þar upp kröfuna um mannréttindi fyrir Kúrda í NATO-ríki? Er hæstv. utanrrh. samkvæmur sjálfum sér eða fer það eftir því hvaða þjóð á í hlut og hvort sú þjóð á aðild að NATO eða ekki? Það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra geri þjóðinni grein fyrir því hvort hér er markalína þar sem skiptir verulegu máli hvort öðru megin markalínunnar séu hlutirnir í lagi, eða allt annað mál, en hinum megin á að fordæma.
    Ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, að menn séu samkvæmir sjálfum sér. Ég vil ráðleggja hæstv. utanrrh. að vera það og halda fram þeirri stefnu sem hann hélt af nokkrum myndugleik fyrir nokkrum missirum. Menn eiga nefnilega ekki að gera mannamun í þeim skilningi að það skipti máli hvort í hlut eigi ríki sem eru með okkur í NATO eða ekki.