Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:37:55 (7145)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er vel við eigandi að á síðasta degi þingsins sé rætt um málefni Kúrda og að þó nokkur tími sé tekinn í þá umræðu. Því miður er ekki allt of oft sem þing þessarar örsmáu þjóðar, sem heitir Íslendingar, ver tíma til að ræða um réttindabaráttu fátækra og snauðra þjóða víðs vegar í

heiminum. Staðreyndin er sú að viðbrögð manna við vandamálum einstakra þjóða hafa á liðnum árum og áratugum mjög oft mótast af því fyrst og fremst hvar þær eru á hnettinum en ekki við hvaða aðstæður þær búa. Þannig hefur það oft verið á undanförnum áratugum. En þannig þarf það ekki að vera og á það ekki að vera því að Íslendingar hafa fjölþættar skyldur við hið alþjóðlega samfélag. Það hefur reyndar sýnt sig þegar mikið hefur reynt á í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að þá hafa smáþjóðir annars staðar í heiminum verið þær sem við höfum helst getað reitt okkur á. Hvernig var það t.d. í landhelgisstríðinu, 50 mílna stríðinu? Hverjir voru það sem komu þá Íslendingum til aðstoðar öllum að óvörum nema samtök Afríkuríkja? Sendu hingað fjölmenna liðsveit æðstu þjóðhöfðingja fjölmargra ríkja í Afríku sem mættu hér til viðtala við ríkisstjórn Íslands og forseta Íslands á þeim tíma. Stuðningur þessara ríkja og þessara litlu þjóða varð t.d. til þess að Íslendingar náðu víðtækum skilningi á hagsmunum sínum t.d. á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma. Reynslan hefur auðvitað sýnt það aftur og aftur að þegar kemur að úrslitum í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar þá eigum við þarna hauka í horni. Þarna er fólkið sem skilur helst okkar málstað. Miklu frekar en þær moldríku nýlenduþjóðir fyrr og nú sem að nokkru leyti eru um þessar mundir að blása sig saman í breyttu Efnahagsbandalagi Evrópu.
    Það hefur aðeins verið vísað til þess að fyrir fáeinum missirum hafi verið mjög sterk samstaða á Alþingi Íslendinga um málefni Eystrasaltsþjóðanna. Ég held að sú samstaða hafi verið mjög raunveruleg og sönn. Ég veit reyndar að sú samstaða kom ekki aðeins fram á Ísland heldur birtist hún líka með mörgum öðrum vestrænum þjóðum. En því miður hefur það verið svo að sá góði hugur sem virtist fylgja málum á þessum tíma hefur ekki breyst í veruleika sem skyldi fyrir þjóðum Eystrasaltsríkjanna. Eistar, Lettar og Litáar bíða t.d enn þá eftir því að hinar vestrænu auðugu þjóðir, Bandaríkin og Evrópuríkin breyti hinum góða vilja í veruleika nýrra fjármuna og fjárfestingartækifæra, öflugra atvinnulífs í þessum löndum og það er slæmt vegna þess að það ástand sem skapast hefur á þessu svæði sem heita hin gömlu Sovétríki er vissulega hættulegt og eldfimt og er óskaplegt fyrir mannkynið, liggur mér við að segja, ef menn vanrækja þennan þátt málsins.
    Svo komum við að Kúrdum. Á kvöldfundi á Alþingi Íslendinga norður við ysta haf skammt frá styttunni af Jóni Sigurðssyni er verið að tala um Kúrda. Í raun og veru er ekki mjög langt síðan að farið var að tala um Kúrda á Íslandi. Ég minnist þess fyrir allmörgum árum að á ungum aldri skrifaði einn kollegi minn á blaði nokkru hér í bæ, sem er eitt besta dagblað sem Íslendingar hafa átt, Þjóðviljinn, mjög athyglisverðar greinar um málefni Kúrda. Ég man eftir því hvað var erfitt fyrir hann að afla skilnings á málefnum Kúrda meðal vina sinna á staðnum. Síðan hefur þetta verið að breytast smátt og smátt og ég hygg að segja megi að núna sé mjög víðtækur skilningur á vandamálum þessa stíðshrjáða fólks sem hefur orðið eins og á milli átakasvæða í heiminum með hræðilega sorglegum hætti. Hvað gerist þá?
    Svo vill til að það stendur til að afgreiða á Alþingi Íslendinga till. til þál. um fullgildingu verslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og lýðveldisins Tyrklands. Nokkrir þingmenn hafa bent á þann möguleika að kannski væri jafnframt eðlilegt að vera með gildar yfirlýsingar um frelsisbaráttu og mannréttindabaráttu Kúrda og hv. 8. þm. Reykn. og 10. þm. Reykv. hafa lagt fram till. til rökstuddrar dagskrár á þskj. 810 þar sem koma fram fjöldamörg efnisatriði. Mig langar til þess í allri einlægni að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann er sammála eða ósammála þessum efnisatriðum. Burt séð frá því hvort hann er sammála tillögu um rökstudda dagskrá eða ekki, látum það allt saman vera. Setjum sem svo að ráðherrann vilji fá mál sitt í gegn. En í þessari tillögu eru nokkur efnisatriði sem ég hélt að allir væru sammála um, allir, alþingismenn og þjóðin öll. Í fyrsta lagi er bent á þann möguleika að Alþingi samþykki að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Kúrda og fordæma harðlega mannréttindabrot stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart Kúrdum. Má ekki gera þetta? Er eitthvað í þessu sem er rangt? Er eitthvað í þessu sem er í ósamræmi við það sem íslenska ríkisstjórnin, íslenska þjóðin eða Alþingi Íslendinga hafa áður haft? Er eitthvað í þessari setningu sem íslenski utanrrh. er á móti? Eitthvað? Ég trúi ekki að svo sé.
    Í annan stað er bent á þann möguleika að Alþingi samþykki að árétta þá stefnu Íslendinga að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða og þjóðarbrota og tryggja að staðinn sé vörður um mannréttindi íbúa sem berjast gegn ofbeldi árásum og kúgun. Er einhver hér inni sem er ósammála þessu? Svar mitt er fyrir fram: Nei, það er ekki. Ég er sannfærður um að utanrrh. er sammála þessu eins og fyrstu setningunni. Hann hlýtur að vera það. Hann hlýtur að vera sammála henni. Ég sé ekkert í þessu sem hann, miðað við málflutning sinn stundum, getur verið á móti.
    Í þriðja lagi er lagt til að Alþingi samþykki að fela ríkisstjórninni að senda fulltrúa íslenskra stjórnvalda til Tyrklands til að flytja ríkisstjórn Tyrklands mótmæli íslenskrar þjóðar vegna kúgunar á Kúrdum og til að flytja fulltrúum Kúrda stuðning og samúð frá íslensku þjóðinni.
    Loks er í fjórða lagi lagt til að Alþingi samþykki að flutt verði skýrsla um viðræður við fulltrúa íslenskra stjórnvalda í Tyrklandi um málefni Kúrda og stöðu þeirra. Síðan er lagt til að samningurinn verði ekki tekinn fyrir fyrr en þetta mál er afgreitt.
    En látum það nú vera. Setjum sem svo að menn ætli sér að afgreiða samninginn eins og mér heyrist hér á hæstv. utanrrh. Menn virðast vera alveg staðráðnir í því að afgreiða þennan samning. En hvað er það þá, hæstv. utanrrh., í þessari tillögu og efnisatriðum hennar sem ráðherrann getur ekki samþykkt?
    Ég teldi að það væri verulegur ávinningur og veruleg tíðindi ef Alþingi Íslendinga samþykkti myndarlega þál. um þessi mál, réttindabaráttu Kúrda og stöðu þeirra í samfélagi þjóðanna. Ég hef ekkert rætt það

við flm. þessarar tillögu og ég veit ekkert hvort þeir eru þessarar skoðunar eða hvað, en ég segi alla vega fyrir mitt leyti að ég teldi efnisatriði þessarar tillögu og það að gera þau að þál. frá Alþingi Íslendinga væri málefnalegur ávinningur burt séð frá öllu öðru. Ég trúi ekki öðru en t.d. hv. formaður utanrmn., svo ég nefni dæmi, 4. þm. Reykv., væri sammála þessum atriðum miðað við þá afstöðu sem hann hafði t.d. í frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna á sínum tíma. Ég trúi ekki öðru en að t.d. flestallir þingmenn Framsfl., Kvennalistans og Alþb. séu þeirrar skoðunar að þetta sé jákvæð tillaga. Ég trúi ekki einu sinni að þingmenn Sjálfstfl. mundu agnúast út í niðurstöðu af þessu tagi. Það er a.m.k. alveg nauðsynlegt ef meiri hlutinn á Alþingi ætlar að hafna tillögunni eða hugmyndum af þessu tagi að geri hann grein fyrir því af hverju hann ætlar að hafna því.
    Að vísu er mjög mikilvægt, herra forseti, að hæstv. utanrrh. landsins sökkvi sér ofan í þær skýrslur sem á að taka fyrir á EFTA-fundinum næstu daga og hann á alla mína samúð að þurfa að liggja yfir pappírum, það segi ég alveg eins og er, jafnþrautleiðinlegir og þeir eru sjálfsagt yfirleitt. En hann verður auðvitað að gegna sínum skrifborðsskyldum úr því að hann er í þessu starfi. Engu að síður finnst mér líka mikilvægt að við eigum þjóð, sem á þing, sem hefur reisn til þess að segja: Við fordæmum mannréttindabrotin á þessum stað, við styðjum sjálfstæðisbaráttu Kúrda. Það er í fullkomnu ósamræmi við sögu Íslands og þá reisn sem Ísland á að hafa á alþóðavettvangi ef menn geta ekki tekið undir jafnsjálfsögð sjónarmið og þau sem hér hafa verið rakin.