Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 22:49:13 (7146)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson áréttaði þá hugmynd og ósk hvort hæstv. utanrrh. væri reiðubúinn til samkomulags að ályktað yrði sérstaklega um samstöðu okkar í baráttu Kúrda. Hæstv. utanrrh. virti þessa ósk ekki svars. Hann situr hér eins og hv. þm. Svavar Gestsson lýsti, niðursokkinn í EFTA-skýrslurnar merkir við með bleiku og gulu í skýrslurnar, lítur ekki upp, hefur engan áhuga á umræðum um sjálfstæðisbaráttu Kúrda. Ég sagði áðan að hæstv. utanrrh. hefði greint þjóðinni rangt frá í kvöld í sjónvarpi. Hæstv. utanrrh. viðurkenndi með þögninni hér áðan að ég hefði lög að mæla. Hæstv. utanrrh. sagði Íslendingum í sjónvarpi í kvöld að allar EFTA-þjóðirnar væru búnar að staðfesta þennan samning nema við Íslendingar. Þetta er rangt, hæstv. utanrrh. Austurríki ætlar ekki að staðfesta þennan samning fyrr en eftir einhverja mánuði. Málið er ekki brýnna en það. Finnst hæstv. utanrrh. ekki rétt að biðjast afsökunar á því á Alþingi að hafa greint þjóðinni rangt frá? Eða er ráðherranum alveg sama hvort hann segir satt eða ekki?
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti réttilega á það líka þegar hæstv. utanrrh. var búinn að leggja ríka áherslu á það í stuttri ræðu sinni að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir okkur Íslendinga og ef við staðfestum ekki samninginn í kvöld þá værum við að skerða mikla hagsmuni, hver er útflutningur Íslendinga til Tyrklands? Það er satt að segja svo lítil upphæð, svo hlægilega lítil upphæð, að heildarútflutningur Íslands til Tyrklands á heilu ári nemur minni upphæð en einum mánaðarlaunum ráðherra í ríkisstjórn Íslands, meira að segja án dagpeninga. Hæstv. utanrrh. fær meira í laun á einum mánuði frá íslenska ríkinu en heildarútflutningur Íslendinga til Tyrklands nam á sl. ári. Þetta eru allir hagsmunirnir, 253 þús. kr., og á þetta er lögð svo mikil áhersla af hálfu ráðherrans að þinginu er haldið nánast í spennitreyju til að afgreiða þetta mál. Er þá ástæðan sú að hinar EFTA-þjóðirnar eru að knýja á um þetta? Svarið er líka nei við því. Samningurinn er þannig að hann tekur sjálfstætt gildi milli hverrar EFTA-þjóðar fyrir sig og Tyrklands. Þau ríki, sem eru búin að staðfesta samninginn, eru búin að taka hann í gildi hvað sig snertir og samskiptin við Tyrkland. Við erum því ekki að hindra neitt í því að aðrar EFTA-þjóðir geti farið að beita þessum samningi eða með öðrum orðum, það hefur enga praktíska afleiðingu á næstu mánuðum hvorki fyrir okkur Íslendinga né fyrir hin EFTA-ríkin hvort þessi samningur er staðfestur eða ekki á Alþingi Íslendinga. Þetta er eingöngu pólitískt metnaðarmál að koma samningnum í gegn á þessum tíma. Það virðist vera pólitískt metnaðarmál að gera það án þess að ályktað sé sérstaklega um mannréttindamál og sjálfstæðisbaráttu Kúrda og brot tyrkneskra stjórnvalda gagnvart þeim.
    Ég spyr t.d. hæstv. utanrrh.: Er hann tilbúinn að afgreiða hliðstæða ályktun á Alþingi Íslendinga eins og afgreidd var hjá Evrópubandalaginu þegar Evrópubandalagið fordæmdi tyrknesk stjórnvöld og lýsti yfir stuðningi við málefni Kúrda? Eða er hæstv. ráðherra ekki einu sinni tilbúinn til þess? Hann sagði að það væri annað mál. Gott og vel. Við skulum til samkomulags gera það að sérstakri ályktun, öðrum dagskrárlið ef málið snýst um það. En mér heyrist að ráðherrann vilji með þögn sinni ekki einu sinni ljá máls á því. Hann vill ekki að Alþingi Íslendinga lýsi yfir stuðningi við baráttumál Kúrda. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er skýringin? En auðvitað fæ ég ekkert svar. Skýrslurnar hjá EFTA eru mikilvægari en umræður á Alþingi Íslendinga.
    Hæstv. utanrrh. hefur ekki verið þaulsetinn í þinginu í vetur. Að hluta til á það sér ástæður sem hörmum, veikindi hans í vetur, en að hluta til hefur hann líka verið í fullu fjöri, fyrri hluta vetrar og nú síðustu mánuði. Hann hefur lítið verið hér í umræðum. Við höfum ekki kallað oft á það að hann kæmi til sérstakra umræðna. Ætli þetta sé ekki annað eða þriðja sinn í allan vetur sem við biðjum um að ráðherrann komi til sérstakrar umræðu. Það er nú allt og sumt. Og þá er lítilsvirðing hans gagnvart umræðunni hér á Alþingi slík að hann svarar ekki einföldum spurningum, hann einbeitir sér ekki við að hlusta heldur sekkur sér niður í skýrslurnar og merkir þar við. Eru textarnir frá EFTA-bákninu svona miklu merkilegri en umræðurnar hér á Alþingi Íslendinga? Var ráðherrann kosinn til að vera hjá EFTA eða var hann kosinn til að vera á Alþingi Íslendinga? Lýðræðið í landinu er hér í þessum sal, ekki skrifstofubákninu hjá EFTA.
    Virðulegi forseti. Það er líklega þrautreynt hér í kvöld að ná samkomulagi við hæstv. ráðherra um að Alþingi Íslendinga geri í málefnum Kúrda eins og gert hefur verið í málefnum Eystrasaltsþjóðanna og málefnum þjóða Júgóslavíu. Ég vona þó að einhverjir vitrir menn reyni að telja ráðherranum hughvarf. Ef það ber ekki árangur þá get ég sagt það hér að ég mun ræða það við samflutningsmann minn að einstakir málsliðir ályktunarinnar verði bornir upp sérstaklega. Þannig að þingið geti ekki fengið að velja bara um það að vísa samningnum til hliðar um stund heldur um hvort það vill árétta þá stefnu Íslendinga að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða. Hvort það vill fordæma mannréttindabrotin gagnvart Kúrdum. Ég mun beita mér fyrir því að hver einstakur málsliður verði borinn upp sérstaklega þannig að það fari fram atkvæðagreiðsla í þinginu í þessum málum. Hæstv. utanrrh. getur ekki komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðslan fari fram hér í þjóðþinginu.
    Hæstv. utanrrh. hefur sagt að ég vilji hafna þessum samningi. Þetta er rangt, hæstv. utanrrh., það hef ég aldrei sagt. Og það er heldur ekki sagt í þeirri tillögu sem við höfum flutt. Við höfum hins vegar lagt áherslu á það að áður en samningurinn kemur til endanlegrar afgreiðslu þá sýnum við í verki samstöðu okkar með sjálfsákvörðunarrétti og mannréttindabaráttu Kúrda. Það er hvergi í okkar afstöðu talað um að hafna samningnum. Þannig að þar fer hæstv. ráðherra enn á ný með rangt mál.
    Mér finnst líka athyglisvert að hæstv. utanrrh. hefur í þessari umræðu hvorki eftir ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hér fyrr í dag né eftir mína ræðu í kvöld lagt í það að víkja að bréfi Kjartans Jóhannssonar sendiherra. Það er líka athyglisverð þögn. Það bréf sagði þó skýrt að ef þingið samþykkti ekki þennan samning fyrir 10. apríl þá yrði samstöðu um sjávarútvegshagsmuni Íslands innan EFTA ógnað. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hér í kvöld: Eru einhver dæmi um það? Hefur það komið fram? Svar hæstv. ráðherra var enn á ný þögnin. Eða með öðrum orðum það hefur ekki gerst. Þannig að málflutningur og meðferð utanrrn. á þessu máli er með endemum satt best að segja. Og það er auðvitað mjög vont í samskiptum utanrmn. og utanrrn. að slíkir atburðir skuli gerast. Að við skulum ekki geta treyst orðum og bréfum sem koma frá ráðuneytinu. Að atburðirnir skuli leiða það í ljós að þau eru marklaus, innihaldslaus og hafa ekki við rök að styðjast. Því að það er mikilvægara á sviði utanríkismála en nokkurra annarra mála að rétt sé rétt, að rök haldi og fullyrðingar standist.
    Virðulegi forseti. Ég vona að áður en þessi mál koma til atkvæða, hvort sem það verður í nótt eða árla morguns, þá hafi hæstv. utanrrh. og stuðningsmenn hans hugsað sig um og gert sér grein fyrir því að einstök efnisatriði ályktunarinnar muni koma til atkvæða. Og ég bið þá að hugleiða hvað það hafi í för með sér ef þeir fara að fella þá þætti í atkvæðagreiðslu. Ætla þeir virkilega að láta það gerast á Alþingi Íslendinga að það sé fellt að árétta samstöðu okkar með sjálfstæðisbaráttu Kúrda? Ætla þeir virkilega að láta fella það að sú stefna Íslendinga að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða og þjóðarbrota sé áréttuð og að staðið sé vörð um mannréttindi? Ég vona að áður en atkvæðagreiðslan fer fram þá hugsi þessir menn sig alvarlega um.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti. Ég vil segja við fornvin minn, hæstv. utanrrh. Hann hefur látið þung orð falla í garð Alþingis í vetur og sagt að sér leiðist að vera hér. Það er nú einu sinni þannig að hér er vagga lýðræðisins í okkar landi. Það er í þessum sal sem stjórnvöld eiga að standa reikningsskil gerða sinna. Það er hér sem fulltrúar fólksins koma og flytja sín rök og verja sitt mál. Ráðherra sem er orðinn svo firrtur, svo fjarri þjóðþinginu og þjóð sinni að honum leiðist á þinginu og getur ekki einu sinni unað því í tvær klukkustundir að vera með alla athyglina við umræðu um mál af þessu tagi í þau örfáu skipti vetrarins sem hann mætir til umræðna, ég segi við hann: Hugleiddu þína stöðu, hugleiddu þitt hugarfar, hugleiddu þann sess sem lýðræðið ber í okkar landi og hugleiddu hvort þú ert ekki kominn of langa leið frá lýðræðinu í landinu, frá fólkinu og þeirri umræðu sem þessi þjóð metur mest. Það er hættulegt að vera of lengi fjarri þeim vettvangi þar sem hjarta lýðræðisins í landinu slær.